11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2057)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Það má segja, að hér sé um stórmál að ræða. En hinsvegar hefir Alþingi ekki kraft nema mjög stuttan tíma til að athuga það, þar sem það kemur fyrst fyrir á allra síðustu dögum þess. Það hefir þó fengið nokkra athugun í n. Hefir n. orðið sammála um að mæla með, að frv. verði samþ. En hinsvegar hefir meiri hl. n. lagt til á þskj. 557, að frv. verði breytt nokkuð, þannig að ábyrgð ríkisins verði þó aldrei meiri en 80% af stofnkostnaði hitaveitunnar. — Eins og viðurkennt hefir verið í umr. um málið hér í d., hefir nú á síðustu árum verið upptekin sú regla á Alþingi, þegar leitað hefir verið ríkisábyrgðar til framkvæmda. að hún sé ekki veitt fyrir öllum kostnaði. Þannig var t. d. á síðasta Alþingi samþ. ábyrgð fyrir lán til rafveitu á Akureyri, og var 80% af áætluðum stofnkostnaði rafveitunnar. Þá mun einnig fyrir skömmu hafa verið samþ. ábyrgð fyrir Ísafjarðarkaupstað, einnig til rafvirkjunar, sem var takmarkað við 85 % af stofnkostnaðinum. Ég vil ennfremur benda á, að í sambandi við hafnarlög, sem afgr. hafa verið á undanförnum þingum, þá hefir þannig verið frá þeim gengið, að framlagt fé og ábyrgð ríkissjóðs í sambandi við þessar hafnargerðir er takmarkað við 4/5 af stofnkostnaði þeirra framkvæmda, á sama hátt og meiri hl. fjhn. leggur nú til, að ábyrgðin fyrir hitaveituláninu sé takmörkuð við 4/5 af kostnaði við þá framkvæmd.

Ég er sammála þeim mönnum, sem á þetta hafa bent, um, að það sé skynsamleg leið, sem hér hefir verið farið inn á af hæstv. Alþ. í afgreiðslu þessara mála, og ég tel það varhugavert fyrir ríkið að taka upp aftur þann hátt, sem áður var viðhafður, að veita ábyrgð fyrir öllum stofnkostnaði slíkra framkvæmda. Þó að það sé skoðun hv. þm. yfirleitt, að hér sé um gagnlegt fyrirtæki að ræða, þá held ég, að þess vegna sé ekki ástæða til að víkja nú frá þeim reglum, sem upp hafa verið teknar í þessu efni. vegna þess að ég get ekki séð. að það geti orðið til þess að hindra framgang málsins, þó að Alþ. takmarki ábyrgðina við 80% af stofnkostnaðinum. Nægir í því efni að vitna til þess, að flm. málsins, hv. 4. þm. Reykv., hefir haldið því fram nú í umr. um málið, og eins, að hann og hans flokkur hefir áður haldið því fram í skrifum um málið, að Rvíkurbær hafi það mikla tiltrú, að hann geti fengið lán til þessara framkvæmda, án þess að ríkið veitti ábyrgð fyrir því.

Í ræðu sinni í fyrradag lét hv. flm. málsins svo um mælt, að Rvíkurbær hefði nóga tiltrú erlendis, en vegna yfirfærslu þyrfti ríkisábyrgð fyrir láninu. Ef þetta er rétt, þarf ekki að draga það í efa, að Rvíkurbær hafi það mikla tiltrú hér innan lands, að honum sé mjög auðveit að fá þennan litla hluta af stofnkostnaði hitaveitunnar lánaðan hér innan lands, sem mun ekki vera meira, sennilega minna. en helmingur vinnulaunanna við þetta fyrirtæki. Ég vil í þessu sambandi benda á, að he-. 7. landsk. gat um það í ræðu sinni í dag, að Rvíkurbær myndi þegar hafa lagt fram í undirbúning þessa máls um það bil 10% af stofnkostnaðinum. (GSv: Hálfum stofnkostnaðinum).

Ég tel óheppilegt að víkja frá uppteknum reglum í þessu efni og hefi nefnt nokkur dæmi til samanburðar um afgreiðslu þingsins í svipuðum tilfellum. Til viðbótar vil ég benda á, að allir einstaklingar hér á landi, sem ráðast í einhverjar nauðsynlegar framkvæmdir, verða að leggja fram allmikinn hluta af stofnkostnaði við þessar framkvæmdir. Það er alveg sama, hvort við tökum t. d. þá menn, sem nú eru að fá aðstoð hins opinbera til þess að koma upp nýbýlum. Þó að þeir séu fátækir, verða þeir að leggja fram verulegar fjárhæðir frá sjálfum sér. Ég get minnzt á verkamannabústaðina hér í Rvík. Verkamenn, sem vilja fá aðstoð hins opinbera til að koma upp slíkum bústöðum, verða, eftir því, sem ég bezt veit, að leggja fram 15% af stofnkostnaði bústaðanna, og það er yfirleitt sama, hvar maður ber niður, alstaðar þurfa menn að leggja fram frá sjálfum sér. í flestum tilfellum meira en 20% af stofnkostnaði þeirra fyrirtækja, sem þeir ráðast í. Ég býst við, að það væri sama, hvaða bóndi kæmi til lánstofnananna hér í Rvík með beiðni um lán, annaðhvort til að byggja bæ eða til að leiða heitt eða kalt vatn í bæinn sinn, og færi fram á að fá allan kostnaðinn við framkvæmdina að láni. — það myndi ekki nokkur lánsstofnun lána honum allt það fé, sem þyrfti til framkvæmdanna. Það yrði fyrst og fremst spurt um það, hvað hann gæti lagt fram sjálfur, og ég geri ekki ráð fyrir, að hann myndi fá lán til fyrirtækísins, þó að hann byðist til þess að leggja fram hálfa vinnuna. Er það ekki þannig um allar framkvæmdir, að einstaklingar og félög verði að leggja fram hluta af stofnkostnaði. í flestum tilfellum miklu meira en 20% ?

Nú vil ég spyrja: Er Rvíkurbær, höfuðstaður landsins, þar sem 1/3 hluti landsmanna býr, svo miklu verr stæður en aðrir, að hann geti ekki lagt fram þau 20% af stofnkostnaðinum, sem honum er ætlað að sjá fyrir? Þessu vil ég ákveðið neita. Það getur verið, að borgarstjórinn hafi ekki þetta fé í kassa, en vissulega væri hægt að fá þennan hluta af stofnkostnaðinum að láni, því að svo mikill og almennur áhugi virðist vera fyrir því, að þetta verk komist í framkvæmd, að ég er ekki í vafa um, að þetta sé hægt.

Hv. 4. þm. Reykv. hélt því fram í ræðum sínum við 1. umr. málsins, að skynsamlegt væri að taka allt lánið erlendis. Ég varð satt að segja dálítið hissa á þessum ummælum. Við vitum vel, hve sjálfstæðismenn hafa talað og skrifað mikið um þann háska, sem þjóðinni stafaði af skuldunum við útlönd, og sama daginn og hv. 4. þm. Reykv. hélt þessu fram, sagði form. Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., hér í umr. um annað mál, gjaldeyrislánið, sem verður þó ekki til að auka skuldirnar, heldur aðeins notað til að færa þær til, að það væru áreiðanlega fjölmargir sjálfstæðismenn, sem álitu, að það væri sjálfsagt fyrir þm. Sjálfstfl. að greiða atkv. á móti lántökunni. Þetta segir hann sama daginn sem hv. 4. þm. Reykv. heldur því fram, að skynsamlegt sé að taka allt lánið til hitaveitunnar erlendis. Hann sagði, að það væri skynsamlegt að taka allan stofnkostnaðinn að láni erlendis, og að erlent lánsfé sé ekkert hættulegra en innlent, þegar um svona fyrirtæki væri að ræða.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði ennfremur, að það væri ekki réttur hugsanagangur, að þeir sem eigi að njóta framkvæmdanna, þyrftu að taka þátt í stofnkostnaðinum. Ég hefi bent á, hvaða viðtökur einstaklingar myndu fá hjá lánsstofnunum, ef þeir kæmu og vildu fá að láni allan stofnkostnað þeirra framkvæmda, sem þeir hefðu með höndum, og ég býst við, að það myndi ekkert breyta áliti bankastjóranna, þó að þeir legðu sér í munn þessi orð borgarstjórans, að það væri ekki réttur hugsanagangur, að þeir þyrftu að taka þátt í stofnkostnaðinum sjálfir. Ég er því ekki sammála hv. 4. þm. Reykv. um það, að hér sé skynsamlega að farið, og verð að líta svo á, ef flokksmenn hans fella till. meiri hl. fjhn., um að takmarka ábyrgðina við 80%, þá hafi þeir þar með áþreifanlega sýnt og sannað, að þeir meina sáralítið með öllu sinu tali um þann háska, sem landinu stafi af skuldum við útlönd.

Eins og hæstv. fjmrh. og fleiri hv. þm. Framsfl. hafa tekið fram í umr. um þetta mál, vill Framsfl. standa að framgangi málsins, hann hefir lýst því yfir, þrátt fyrir það, þó að undirbúningur þess sé ekki eins góður eins og æskilegt hefði verið. og málinu varpað hér inn á síðustu dögum þingsins. Ég vil halda því fram, eins og fleiri hafa bent á, að það geti ekki orðið til þess að tefja framgang málsins, þó að ábyrgðarheimildin væri takmörkuð við 80`ó af stofnkostnaðinum, því að það kemur ekki til mála, að nokkuð verði því til fyrirstöðu. að Rvík geti fengið þennan 1/5 hl. kostnaðarins, tæplega helming vinnulaunanna, að láni innanlands. Og ég álít það skynsamlegra heldur en að taka alla fjárhæðina að láni erlendis. ekki sízt vegna þess, að ef hv. Alþ. hverfur nú af þessari braut, að takmarka þessar ábyrgðir, þá má það eiga það víst, að það koma beiðnir um ábyrgðir úr hinum ýmsu landshlutum, og þá verður erfitt fyrir Alþ. að neita hinum smærri og fátækari héruðum um slíkan stuðning, ef það nú lætur Rvíkurbæ að nauðsynjalausu hafa ábyrgð fyrir allri upphæðinni.