11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1410 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í síðari ræðu hv. 6. þm. Reykv. leyfði hann sér að segja, að stjórnarflokkarnir hefðu haft í frammi málþóf til þess að tryggja það, að þetta mál fengi ekki afgreiðslu. En hvað er langt síðan þetta mál var lagt fram, sem er næststærsta mál þingsins, ef það er ekki hið stærsta? Það eru aðeins liðnir 2–3 dagar síðan, og það er nú komið til 3. umr. í Nd., og það væri meira að segja afgr. héðan, ef hv. 8. landsk. hefði ekki þotið upp eins og hann gerði hér áðan. Hv. 8. landsk. ræddi hér um, að þm. stjórnarflokkanna hefðu úthúðað málinu, en þeir voru að reyna að afgr. málið með samkomulagi ásamt þeim, sem fluttu það. — Hv. 6. þm. Reykv. leyfði sér að tala um málþóf og að andstaðan við málið gengi fjandskap næst. En ríkisábyrgðin, sem hér er farið fram á, er hærri en fjárhæð sú, sem um er að ræða í nokkru öðru máli, að undanskilinni heimildinni til gjaldeyrislántöku, sem búið var að leggja fyrir þingið. Slíkt mál verður ekki afgr. athugunarlaust.

Ég ætla ekki að fara langt út í að rökræða við þessa hv. þm. um fjárhagsafkomu ríkisins. En úr því, að farið er að draga hér inn í þessar umr. ábyrgðarheimild handa ríkissjóði til gjaldeyrislántöku, verð ég að segja það, að Sjálfstfl., sem neitar að vera með því láni og neitar þar með að taka á sig þá ábyrgð, sem hann viðurkennir, að sé nauðsynleg, ferst ekki að vanda um við aðra.

Hv. 8. landsk. falaði um, að við stjórnarflokksmenn værum í glerhúsi. En lélegra glerhús hefi ég aldrei vitað heldur en undirbúning þessarar hitaveitu hér í Reykjavík. Afstaða Sjálfstfl. til hennar er vafalaust hin herfilegasta, sem ég get hugsað mér. Flokkurinn viðurkennir, að hann sé valdalaus. Hann viðurkennir, að hann eigi ekki neitt til hitaveitunnar, ekki nokkurn hlut til að greiða með hluta Reykjavíkurbæjar af láninu erlendis. En þrátt fyrir það, þó að flokkurinn viðurkenni, að gjaldeyrislántakan sé þjóðarnauðsyn, vill hann þó ekki vera með því, að sú heimild verði veitt. Svo ætlast bessi flokkur til þess, að hér á Alþ. verði innan skamms samþ. ábyrgðarheimild fyrir Reykjavíkurbæ, sem þeir hafa talið sitt prívatmál, og öðrum flokkum kæmi rekstur hans ekki neitt við. Þessi ábyrgðarheimild vilja þeir, að verði samþ., án þess hún verði athuguð neitt, og telja fjandskap við málið hjá þeim, sem vilja athuga það. Þessi afstaða, sem mér virðist alls ekki geta verið sú sama fyrir Sjálfstfl. sem öðrum flokkum, verður þannig virkilegt glerhús, sem hann, eins og þetta mál hefir verið rekið frá öndverðu, ætti að skrafa sem minnst um. — Ég ætla ekki að segja meira að sinni, en sjálfstæðismenn ættu ekki að tala um þetta mál án kinnroða, svo að ekki sé meira sagt.