12.05.1938
Efri deild: 77. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1424 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Framsfl. hefir ákveðið að fylgja þessu máli með því fororði, að ábyrgðarheimildin verði bundin við 80% stofnkostnaðar. Það er vegna þess, að við viljum ekki láta brjóta þá reglu, sem við höfum reynt að taka um svona ábyrgðarheimildir, að ríkið ábyrgðist ekki 100% þeirrar fjárhæðar, sem gengur til slíkra fyrirtækja. En það er vitanlegt, að fyrir því er ekki fylgi í þinginu, að binda þetta við 80%. En ég geng út frá því sem sjálfsögðu, að þar sem ekki getur orðið samkomulag á Alþ. um að takmarka þessa ábyrgð við 80% kostnaðurverðs, þá verði hallazt að því, að binda hana við 90% kostnaðarverðs, því að þeirri grundvallarreglu verður ekki vikið frá, að ríkið ábyrgist ekki lán, sem nemur öllu kostnaðarverði þeirra fyrirtækja, sem ríkisábyrgðir annars eru veittar fyrir lánum til. Ef ríkisábyrgð væri veitt að fullu fyrir láni, jöfnu fullu áætluðu kostnaðarverði þessa fyrirtækis, mundu önnur bæjarfélög og sveitarfélög, sem endalaust mundu sækja um ríkisábyrgðir, koma undir það sama og verða að fá samskonar fríðindi, ef um ríkisábyrgðir væri að ræða fyrir þau.