08.03.1938
Neðri deild: 17. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 5 í C-deild Alþingistíðinda. (2241)

11. mál, Raufarhafnarlæknishérað

Frsm. (Vilmundur Jónsson):

Hv. þm. N.- Þ. hefir nú á seinustu þingum borið fram frv. um, að Raufarhöfn og nágrenni verði gerð að sérstöku læknishéraði, og er þetta borið fram samkv. eindreginni ósk Raufarhafnarbúa.

Þetta mál hefir verið sent til mín sem landlæknis, og ég hefi talið mér skylt að vara við því að verða við þessum tilmælum. en engan veginn vegna þess, að ég sjái ekki, hversu erfitt það er fyrir Raufarhafnarbúa að leita læknis til Kópaskers. Mér eru þeir erfiðleikar fyllilega ljósir, en reyndar er svo ástatt um fleiri staði hér á landi, svo sem t. d. Grímsey, Skála á Langanesi, Hóls- og Möðrudalsfjöll, Skagann utanverðan á milli Húnaflóa og Skagafjarðar, Bæjarhrepp í Strandasýslu, Suðureyri í Súgandafirði, ýmsar byggðir í Snæfellsnessýslu, Ijós, Kjalarnes, Þingvallasveit og Öræfi í Austur-Skaftafellssýslu. Beinar óskir um að fá sérstakan lækni hafa komið fram frá a. m. k. 2 þessara staða, Suðureyri og Bæjarhreppi í Strandasýslu, og hvað eftir annað.

Þó að því væri ekki til að dreifa, að horft væri í kostnaðinn við að stofna læknishérað á Raufarhöfn, þá álít ég ástæðu til að vara við því að hverfa að þessu ráði fyrir það, hversu illa horfir með að fá lækna í hin fámennari og afskekktari héruð. Þannig eru engin líkindi til, þó að læknishérað yrði stofnað á Raufarhöfn, að þangað fengist læknir nema með höppum og glöppum, og tæplega nema yfir sumartímann. Þetta leiddi því varla til annars en þess, að eftir sem áður yrði að fela héraðslækninum á Kópaskeri að þjóna Raufarhöfn. En hann myndi þá eðlilega telja sig hafa minni skyldu en áður til að sinna héraði, sem ekki væri hans eigið hérað, að ég ekki tali um, að þetta gæti leitt til þess, sem kannske væri það hættulegasta, að næst þegar Öxarfjarðarhérað losnaði, yrði það enn minna eftirsóknarvert en áður, og þá gæti ráðstöfunin orðið til þess, að bæði læknishéruðin yrðu læknislaus.

Mér hefir skilizt, að hv. flm. hafi í rauninni fallizt á þessa röksemdafærslu, því að hann hefir breytt frv. frá síðasta þingi í það horf, sem það er nú í. Hann fer ekki fram á, að þetta læknishérað verði stofnað fyrr en landlæknir mælir með því, en það er sama sem að falla frá þeirri kröfu, þar sem afstaða landlæknis er kunn. Frv. hefir svo ekki annað að innihalda en það, að þangað til héraðið verði stofnað sé fenginn læknir um sumartímann til Raufarhafnar og honum greidd einhver þóknun fyrir, en það er sannarlega of mikill íburður að búa til sérstök l. um það, og nóg að hafa styrk í því skyni í fjárl.

Í samræmi við þessa niðurstöðu var það, að allshn. á seinasta þingi vísaði ekki málinu til d. aftur, en ritaði fjvn. og fór fram á, að hún legði til, að lítilsháttar styrkur yrði veittur í fjárl. til þess að kosta lækni á Raufarhöfn yfir síldveiðitímann. N. varð góðfúslega við þessum tilmælum, styrkurinn fekkst samþ., og hæstv. ríkisstj. hefir síðan affur tekið upp þennan styrk í fjárlfrv. það, sem nú liggur fyrir þinginu.

N. finnst eðlilegt, að séð verði, hvernig þessi ráðstöfun gefst, og vill því ekki mæla með því, að frv. verði samþ. að sinni, og í samræmi við það Ieggur hún til, að það verði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem liggur fyrir á þskj. 58. — Meira hefi ég ekki um málið að segja, en vænti, að þetta þyki eðlileg úrslit þess.