07.04.1938
Neðri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (2300)

7. mál, vitabyggingar

Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Hér hefir verið um það deilt, hvort ákveða skyldi í l., að öllum þeim tekjum, sem ríkissjóður hefir á ári hverju af vitagjaldinu, skuli varið til vitamála eða ekki. Ýmsir hafa haldið því fram, að slíkt bæri að ákveða í l. Það hafa verið þeir sessunautarnir, hv. þm. Borgf. og hv. 5. landsk., og virðast þeir að ýmsu leyti sammála um þetta atriði, þótt þá greini ennþá á um önnur efni. En þessir hv. þm. hafa ekki gert neina grein fyrir því, á hvern hátt þeir hugsi sér, að ríkissjóður næði tekjum til þess að mæta þeim auknu útgjöldum til vitamála, sem slíkt mundi hafa í för með sér, því að ekki geri ég ráð fyrir, að hv. þm. Borgf. telji, að fram úr því verði ráðið sérstaklega með því að lækka mjög tekjur ríkisins af víni og tóbaki, sem hann reyndar virðist hafa tilhneigingu til. En þetta fjárhagsatriði fyrir ríkissjóð kemur vitanlega hér til greina í sambandi við þetta mál, því að enda þótt meiri hl. vitagjaldsins sé varið til vitamála, þá skortir nokkuð á, að því sé varið öllu, og þyrfti þá einhversstaðar að sjá ríkissjóði fyrir auknum tekjum eða færa niður útgjöldin sem því svarar. Og ég vil vekja athygli á, að framhjá þessu atriði hefir alveg verið gengið í þessum umr.

Hv. þm. Borgf. viðurkenndi í sinni ræðu, að vel gæti staðið svo á, að ekki væri hægt á hverjum tíma að verja öllu vitagjaldinu til vitamála, og gat í síðustu ræðu sinni t. d. um gjaldeyrisástandið, og gæti þess vegna verið erfitt að kaupa frá útlöndum öll þau tæki, sem nauðsynleg eru, bæði til viðhalds og rekstrar þeirra vita, sem nú eru til, og þá vitanlega einnig til byggingar nýrra vita, ef ákveðið yrði að verja öllu vitagjaldinu til þeirra hluta. Og hann kvaðst þá ekki mundu berja höfðinu við steininn, ef þannig væri ástatt, að nauðsynlegt væri að víkja nokkuð frá þessu. — En vegna þessara ummæla hans kemur mér það undarlega fyrir sjónir, að hann skuli mæla á móti brtt. meiri hl. n. á þskj. 183, því að ef samþ. verður það frv. um hreyt. á l. um vitamál, sem fyrir liggur á þskj. 7, þá er það beint ákveðið í 8. gr., að árlega skuli verja álíka upphæð til vitamála eins og inn kemur af vitagjaldinu, þannig að ef frá því yrði víkið á Alþ. nú eða síðar, þá væri beinlínis um lagabrot að ræða. — Það skiptir ekki miklu máli í þessu sambandi, sem hv. þm. Borgf. var að benda á, að í 9. gr. væri svo ákveðið, að reisa skyldi vita þá, sem þar eru taldir, þegar fé er veitt til þess á fjárlögum, eftir að búið er að binda það ákveðið í næstu gr. á undan, að árlega skuli veita til þessara hluta fjárhæð, sem nemi álíka upphæð og vitagjaldið er á hverjum tíma.

Ég vil því eindregið mæla með því, að brtt. meiri hl. n. á þskj. 183 verði samþ., þannig að 8. gr. laganna frá 1933 verði óbreytt, því að ég efast ekki um, að Alþ. muni á hverjum tíma veita það mikið fé til þessara mála sem frekast er unnt, miðað við þær ástæður, sem á hverjum tíma eru.