24.02.1938
Neðri deild: 7. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (2330)

16. mál, vinnudeilur

*Flm. (Thor Thors):

Hæstv. atvmrh. var stuttorður um þetta mál og hóf ræðu sína á því, að ekki næði nokkurri átt að samþ. þetta frv. Mig langar til að spyrja: Hvers vegna nær það ekki nokkurri átt? Síðan við töluðum saman síðast um þetta mál, hefir formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, Sigurjón Á. Ólafsson, og maður mjög nákominn varaforseta Alþýðusambands Íslands gert till. um vinnulöggjöf, og er þar tekið upp flest af því, sem felst í okkar frv. Þar er t. d. tiltekinn þessi frestur, sem er svo hættulegur að dómi 5. þm. Reykv. Þar er ákveðið, að liða þurfi vika áður en vinnustöðvun má skella á. Þá eru ennfremur í frv. sósíalistanna mjög svipuð ákvæði um sáttatilraunir og hjá okkur og ákvæði um vinnudómstól, sem þeir að vísu nefna öðru nafni. En frv., sem þeir sósialistar nú leggja fram, er það svipað okkar frv., að þegar að því kom á síðastl. ári, að þeir urðu óvinir um stund, alþýðuflokksmenn og framsóknarmenn, þá skrifuðu þeir alþýðuflokksmennirnir í vinnulöggjafarn., Sigurjón Á. Ólafsson og fulltrúi Stefáns Jóhanns, í Alþýðublaðið og sögðu, að frv. framsóknarmanna væri ekkert annað en umskrift á frv. okkar sjálfstæðismanna. Ég hefi þessa grein hér í tösku minni og skal sýna hana hæstv. ráðh., ef hann dregur þetta í efa. Nú bera þessir sósíalistar fram till., sem að þeirra eigin álíti eru ekkert annað en umskrift á frv. okkar sjálfstæðismanna. Og svo stendur hæstv. ráðh. hér upp og talar digurbarkalega um það, að ekki nái nokkurri átt að samþ. okkar frv., sem er þó svona nátengt því frv., sem hans flokksmenn leggja fram. — Ég skil það að vísu vel, að hæstv. ráðh. þurfi að leika skollaleik í þessu máll, og við sjáum hann ekki í neinu nýju hlutverki, þótt hann leiki slíkt hlutverk.

Hæstv. atvmrh. sagði, að svör verklýðsfélaganna mundu koma fyrir 5. marz, og að þeim fengnum mundi frv. verða lagt fyrir þingið „af einum eða öðrum“. Hann þorði ekki að fullyrða, að hann sjálfur legði það fram, því að það er vitað, að verkalýðsfélögin mundu ekki leyfa honum það. Þessi hæstv. ráðh. hefir nefnilega ekki tök á verkalýðsfélögunum lengur. Það hefir sýnt sig, að æsingamenn í verkalýðshreyfingunni, með hv. 3. þm. Reykv. í broddi fylkingar, eru að ná tökum á þessum félagsskap, og við þurfum ekki að spyrja að því, hver verði afstaða hins mikla kjarkmanns, hæstv. atvmrh., þegar svör verkalýðsfélaganna eru komin. Ætli hann verði ekki fljótur að hlaupa frá till. flokksbræðra sinna, til þess ennþá ákveðnar og skammarlegar en nokkru sinni fyrr að sýna, hversu „mjög sitjandi“ hann er í sínum sess?

Hæstv. atvmrh. vildi andmæla því, sem ég sagði í minni fyrri ræðu, að Dagsbrún hefði gengið inn á eitt veigamesta atriði vinnulöggjafarinnar síðastl. sumar. Ég gat þess, að þetta snerti aðeins réttarágreining, og það er eins og ætlazt er til í okkar frv., að það er réttarágreiningurinn einn, sem á að vera afgerður af vinnudómstóli Íslands. Hæstv. ráðh. las það síðan alveg réttilega upp, að vinnustöðvun er bönnuð samkvæmt þessum samningi í 7 daga, meðan á sáttaumleitunum stendur og verið er að útkljá þennan réttarágreining.

Hæstv. atvmrh. talaði um vinnustöðvun af hendi útgerðarmanna. Nú vitum við, að það er kaupdeila á togurum, sem byggist á því, að sjómenn hafa sagt upp samningum. Það eru þess vegna þeir, sem hafa stofnað til verkfallsins, og það eru vitanlega forsprakkar þeirra, sem bera aðalábyrgðina á þessari vinnustöðvun. Útgerðarmenn sýndu, að þeir vildu gera út fyrir sama kaup og verið hafði. Þeir urðu að beita brögðum til þess að fá að láta skip sín ganga á ísfisksveiðar. Það var vist vegna þess, að forsprakkarnir voru svo uppteknir við bæjarstjórnarkosningarnar, að skipunum tókst að stelast úr höfn. Það eru því ekki útgerðarmenn, sem stofnuðu til vinnudeilunnar, heldur flokksbræður hæstv. atvmrh., sem bera ábyrgð á henni, því að það sýndi sig líka, að sjómenn voru mjög fúsir til þess að vinna áfram fyrir sama kaup og þeir höfðu haft.

Hæstv. atvmrh. vildi draga í efa þau ummæli mín, að sennilega hefði verið hægt að komast hjá vinnustöðvun á Akureyri og hér í Reykjavík, ef sanngjörn og fullkomin vinnulöggjöf hefði verið gildandi. En ég vil leyfa mér að benda hæstv. ráðh. á það, að samkv. 11. og 12. gr. þessa frv. eru skyldur og réttindi sáttasemjara aukin mjög verulega, frá því sem nú er. Sáttasemjarar hefðu fengið vitneskju um það löngu áður en til vinnustöðvana kom, að þær voru yfirvofandi, og þeir mundu hafa gripið til ráðstafana þegar í stað, þar sem þeir höfðu beina skyldu til þess að skerast í leik, þegar þeim var augljóst, að vinnudeila var yfirvofandi. Og þegar þess er gætt, að reynsla undanfarinna ára bendir mjög til þess, að afskipti sáttasemjara hafi leitt til sátta og heillavænlegra lausna, þá er ástæða til þess að ætla, að með tímabærum afskiptum sáttasemjara hefði í þetta skipti mátt komast hjá vinnustöðvun.

Hv. 5. þm. Reykv. hélt hér eina af sínum alkunnu lýðskrumsræðum. Það er nú svo með hann hér í d., að hann er frekar til gamans en að hann sé tekinn alvarlega. Ég þekkti þennan hv. þm. vel á hans skólaárum og hafði gaman af að hlusta á hans ræðuhöld. En mér finnst hann alltaf vera að halda sömu ræðuna og í 5. bekk menntaskólans. Lífið virðist ekki hafa haft nein áhrif á hann og engan þroska veitt honum. Þetta er leiðinlegt með jafngott mannsefni og einu sinni bjó í þessum manni. Þessi hv. þm. sagði, að öllum þm. væri fullkunnugt efni þessa frv. Já, maður skyldi nú ætla, þegar frv. er flutt í fjórða sinn, að þm. væri kunnugt um efni þess, en samt talar þessi hv. þm. eins og hann sé gersamlega fávís um það, hvað í frv. stendur. Hann heldur ræðu fulla af slagorðum og æsingum, sem enga stoð eiga í frv., sem fyrir liggur. Hann talar um, að hér sé um ógurlega skerðingu að ræða á rétti verkamannanna til þess að nota þetta dýrmætasta vopn þeirra í lífsbaráttunni, verkfallsréttinn. En ég vil benda hv. þm. á það, að verkfallsrétturinn er látinn haldast. Það er aðelns um frestun um stundarsakir að ræða, og þessi skerðing á verkfallsréttinum er nákvæmlega sú sama og á rétti vinnuveitandans til þess að grípa til verksviptingar.

Annars get ég ekki komizt hjá því að endurtaka það, sem ég benti þessum hv. þm. á síðast, þegar við ræddum þessi mál. Það er svo einkennilegt að heyra hann tala um þennan dýrmæta verkfallsrétt, þegar við vitum, að hann sækir allar sínar fyrirmyndir og hugsanir til Rússlands. En hvernig er málum komið þar? Þann veg, að þar er enginn verkfallsréttur til. Þetta dýrmæta vopn, að vernda kjör sín með verkföllum, hefir verið tekið af verkalýðnum í Rússlandi. Ef einhver ágreiningur kemur þar upp, er strax settur upp gerðardómur, og hann er bindandi fyrir báða aðilja. En hv. þm. mun nú standa hér upp á eftir og lýsa með mörgum fögrum orðum þeim sældarkjörum, sem verkalýðurinn í Rússlandi eigi við að búa. Kaup almennra verkamanna í Rússlandi er ekki hærra en 150 rúblur á mánuði, en miðað við kaupmátt rúblunnar er það ekki hærra en sem svarar 30 krónum. Ætli verkamönnunum íslenzku sé það ekki tilhlökkunarefni að mega, þegar þessi litli Stalin okkar er orðinn einvaldur, púla fyrir hann í ríkisfyrirtækjunum fyrir 30 krónur á mánuði? Þeir geta huggað sig við það að hlusta á lofræður hans um skipulagið og glaðzt yfir því að vera að vinna fyrir ríkið. Heldur hv. þm., að sjómennirnir væru miklu fúsari til þess að fara út á togarana fyrir 150 kr. á mánuði, í vitund þess, að það væri ríkið, sem fengi afraksturinn? Nei, það er ábyggilegt, að íslenzki verkalýðurinn vill heldur freista þess að vinna í einkarekstri heldur en að láta berja sig með svipum ríkiseinokunar. En það er það, sem þessi hv. þm. boðar hinum íslenzka verkalýð. Og þegar verkalýðurinn í Rússlandi vill ekki hlýða gerðardómnum, sem ákveður kaupið, — hvað tekur þá við? Síbería eða blóðöxi Stalíns. Þetta er nú hlutskipti verkalýðsins í Rússlandi. En verkamenn eru svo huggaðir með því, að þeir ráði yfir atvinnufyrirtækjunum. Það liggur við, að manni verði flökurt, þegar þessi maður er að tala um lýðræði, og heyrir kommúnista vera að slá um sig með því orði. Þessi hv. þm. skrifaði grein í Þjóðviljann þann 16. jan. síðastl., held ég, þar sem hann lýsti því lýðræði, sem koma skal, ef hann og hans líkar ná hér völdum; þá á að fara að dæmi Rússlands. — Það fóru nýlega fram allsherjarkosningar í Rússlandi. En með hvaða hætti? Það var aðeins einn maður í kjöri á hverjum stað. Þetta er nú lýðræðið, sem verið er að boða hér, ef kommúnistar komast til valda. En þá verður, að þeirra dómi, svo gott samkomulag í þjóðfélaginu, að ekki kemur nema einn til greina á hverjum stað, enda hefir þessi ágæti útvörður lýðræðisins látið þess getið, að þá verði búið að gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja þetta góða lýðræði. Hann segir nefnilega, að þá verði búið að reka úr landi alla forvígismenn andstæðinganna. Þetta er lýðræðið, sem þessi hv. þm. boðar !

Hv. þm. talaði mjög mikið um það misrétti, sem samkv. þessari löggjöf væri milli vinnuveitenda og verkamanna. Það er nákvæmlega sami rétturinn, sem þeim er búinn. — Og það, sem hann talar um yfirráð vinnuveitenda yfir atvinnufyrirtækjunum, á ekkert skylt við þetta frv. út af fyrir sig. Það er afleiðing af því þjóðskipulagi, sem við ennþá höfum hér, sem sé því, að menn séu nokkurnveginn sjálfráðir um sínar eigur. Ég veit ekki betur en að það sé ennþá í 63. gr. stjskr. ákveðið, að eignarrétturinn sé friðhelgur í þessu þjóðfélagi, en þetta frv. út af fyrir sig skapar ekkert misrétti milli vinnuveitenda og verkamanna. Það er vitanlega hægt að sjá í gegnum það hverju sinni, hvenær sé um verksviptingu af hendi atvinnuveitenda að ræða eða vinnustöðvun af öðrum orsökum.

Hv. þm. sagði, að sósíaldemókratarnir á Norðurlöndum væru á móti vinnulöggjöfinni þar. Hvers vegna hafa þeir þá ekki afnumið hana? Og hvernig stendur á því, að þessi illræmda „septembersætt“, sem hv. þm. talar um, hefir verið í gildi í Danmörku síðan 1899? — Hv. þm. sagðist vita, að andinn í verkalýðsfélögunum dönsku væri á móti vinnulöggjöfinni. Ég hygg nú, að forvígismenn sósialistanna í Danmörku, t. d. Stauning, séu kunnugri andanum í þeim félögum heldur en þessi kommúnisti, sem hér talaði áðan. Og það leiðir af hlutarins eðli, að sósíalistar í Danmörku gætu ekki unnið kosningar hvað eftir annað, ef vinnulöggjöfin væri andstæð verkalýðnum. Auðvitað myndi verkalýðurinn þá heimta það fyrst og fremst af þeim fulltrúum, sem hann kýs, að þeir létu verða sitt fyrsta verk að afnema þessa löggjöf. En hví hafa þeir þá ekki gert það? Þetta sýnir, eins og annað, að það er fleipur, sem þessi hv. þm. fer með út af þessu máli, og það kemur engum á óvart.

Hv. þm. sagði, að verkalýðurinn gripi aldrei til verkfalla nema í varnarskyni. Við vitum það, að vinnustöðvanir þrengja mjög kosti hinna vinnandi stétta. Við vitum það líka, að þær eru því miður sjaldan einráðar um það, hvenær til þeirra er gripið. Það eru ábyrgðarlausir forsprakkar og lýðskrumarar, sem teygja verkalýðinn út í hinar tilfinnanlegustu vinnustöðvanir. Þetta frv. miðar að því að láta verkalýðinn sjálfan ráða með atkvgr., hvort hann vill vinnustöðvun eða ekki. Það miðar að því að taka völdin yfir þessum málum, ekki frá verkalýðnum, heldur frá ábyrgðarlausum lýðskrumurum, sem lifa á því í pólitískum tilgangi að teygja verkalýðinn út í vinnustöðvanir og skapa þannig æsingar og eymd. En við vitum, að það er vatn á myllu kommúnista sérstaklega. Það þarf enginn að furða sig á því, þótt hv. 5. þm. Reykv. sé sárt um þetta mál. Það er verið að taka frá honum. Það er verið að taka frá honum og kommúnistum þó nokkuð af þeim skilyrðum, sem þarf til þess, að þeir geti áfram þróazt á lýðskrumi og æsingum.

Hv. þm. spurði mig, hvernig ég gæti staðhæft, að verkalýðurinn væri að miklu leyti fylgjandi vinnulöggjöf. Ég veit mjög vel, að í einstökum verkalýðsfélögum hefir verið hóað saman æsingafundum af hendi kommúnista til þess að samþykkja andmæli gegn vinnulöggjöf. En ef litið er á úrslit síðustu alþingiskosninga, þá getur maður dregið þá ályktun, að stórkostlegur meiri hl. þjóðarinnar sé fylgjandi því, að sett verði vinnulöggjöf, og við vitum, að alþýðan og verkalýðurinn eru í meiri hl. með þjóðinni. Af þeim flokkum, sem börðust í síðustu kosningum, voru það 3 flokkar, sem a. m. k. tjáðu sig fylgjandi því að fá vinnulöggjöf. Í fyrsta lagi var það Sjálfstfl., í öðru lagi var það Bændafl., og í þriðja lagi Framsfl., sem hafði flutt frv. í þessa átt. Þessir flokkar fengu til samans 421/2 þús. atkv., en Alþfl. og Kommfl. fengu aðeins 16 þús. atkv. Af þessum tölum má með nokkrum rétti ráða í það, hversu mikil] hluti þjóðarinnar æskir þess, eða getur fellt sig við, að sett sé sanngjörn og viturleg vinnulöggjöf.

Þá lagði hv. þm. fyrir mig eina spurningu, sem mér skildist á öllu fasi hans og látæði, að væri einhver ógurleg samvizkuspurning. Hann spurði mig, hvort ég ætlaðist virkilega til þess, að vinnulöggjöf yrði framkvæmd gegn vilja verkalýðsins. Annars veit ég, að þegar hv. þm. talar um verkalýðinn, þá á hann við sjálfan sig. En ég get sagt hv. þm. það, að ég geri ráð fyrir, að hver sú löggjöf, sem Alþ. setur, verði framkvæmd, hvað sem ábyrgðarlausir piltar, elns og þessi hv. þm., gala. Enn er það svo, að meiri hl. Alþ. ræður, hvaða I. eru sett, og enn verðum við að gera ráð fyrir því, að l. verði framkvæmd í þjóðfélaginu, hvað svo sem einstakir æsingamenn segja gegn því. Ég ætla ekki, að hið íslenzka ríkisvald sé orðið svo eymdarlegt, að það þori ekki að framkvæma vilja Alþ., enda þótt það þurfi að mæta slíkum hreystimönnum og köppum sem hv. 5. þm. Reykv.

Hv. þm. spurði mig ennfremur, af hverju þessu máli lægi á. Því liggur á á sama hátt og öllum góðum og þjóðhollum málum liggur á. Við erum þeirrar trúar, að það sé þessu þjóðfélagi til hagnaðar, að slík löggjöf sé sett, og þess vegna er það ósk okkar og afleiðing af þeirri trú okkar, að þetta mál eigi að ná fram að ganga sem fyrst. Það miðar að því að afstýra voða í þjóðfélaginu, og þeim mun fyrr, því betra.

Gengismálið, sem hv. þm. var að tala um, kemur þessu máli ekkert við. Þar kemur fram þessi vanalegi hugsunargrautur hjá hv. þm. Ef hann les yfir frv. og skilur það, sem þar stendur, þá getur hann séð, að þessi löggjöf á aldrei að eiga neitt við hagsmunaágreining aðilja.

Ég þykist hafa sýnt, á hve veigamiklum rökum, ef rök skyldi kalla, svigurmæli hv. 5. þm. Reykv. eru byggð. Ég veit, að það er með ræðu hans í þessu máli eins og í öðrum málum á Alþ., að þær eru frekar til gamans heldur en að þær séu teknar alvarlega. — En vegna þess, sem hæstv. atvmrh. sagði, að vænta mætti ákveðinnar afstöðu stjórnarflokkanna til þessa máls eða til vinnulöggjafar í heild innan skamms, þá tel ég í sjálfu sér rétt, að í n. þeirri, sem fjallar um þetta mál, verði afgreiðslu þess frestað fyrst um sinn, meðan séð verður, hvað verður um hitt frv. En eins og ég gat um áðan, þá skal koma fram á þessu þingi, og það svo, að alþjóð veiti því eftirtekt, hver hugur er á bak við hjá stjórnarflokkunum í þessu máli.