06.04.1938
Neðri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (2392)

39. mál, efnahagsreikningar

*Bergur Jónsson:

Herra forseti ! Ástæðan til þess að ég sé mig neyddan til þess að gera grein fyrir atkv. mínu, er sú, að þegar málið lá fyrir allshn., lá ég veikur, en annar maður gegndi þar störfum í minn stað. Ég verð því miður að hryggja hv. flokksbræður mína og meðnm. með því, að ég get ekki litið á þetta mál eins og þeir. Ég hefi lesið frv. yfir og hlustað nokkuð á umræður og get ekki séð, að neinn ávinningur sé að því að fá löggjöf í þessa átt, a. m. k. ekki á þann hátt, sem hér liggur fyrir. En það eru sérstaklega tvö atriði — svo að ég fari ekki almennt út í málið —, sem ég vildi minnast á.

Hér er gert ráð fyrir því að láta birta efnahagsreikninga allra þeirra fyrirtækja, sem skulda 100 þús. kr. eða meira, samkv. brtt. allshn. Og stjórnarráðið getur þar að auki krafizt, að birt séu atriði úr rekstrarreikningi eða gefnar frekari upplýsingar um hag fyrirtækis, sem þar um ræðir. En ég vil spyrja meðhaldsmenn frv., hvort þeir hafi athugað það, að frv. sé nægilega mikið í samræmi við þau ákvæði, sem hafa verið í l., síðan tekju- og eignarskattslög voru sett hér á landi. Skattanefndarmenn allir, bæði undirskattanefnd og ríkisskattanefnd, eru bundnir leyndarskyldu um þær upplýsingar, sem komu fram í framtölum manna. Meiri hl. allshn. kemur með brtt., þar sem skattanefnd er lögð sú skylda á herðar, að gefa vottorð um það, þegar efnahagsreikningur hefir verið birtur, að það sé í samræmi við skattaframtalið. Samkv. skattalögunum er það alls ekki heimilt að heimta svona vottorð, vegna þeirrar leyndarskyldu, sem ég nefndi. Ég veit, að hv. 1. þm. Bang. veit þetta eins vel og ég. En þetta er atriði, sem er sjálfsagt að athuga, á hvern hátt er hægt að samræma leyndarskyldu skattanefndar og ákvæði um birting efnahagsreikninga.

Ég sé, að í frv. er sagt, að erlendis séu hliðstæð ákvæði í l. En ég hefi ekki getað séð af skjölum og skilríkjum, sem fram hafa komið, né af umræðunum, að neinar upplýsingar liggi fyrir um, að samskonar ákvæði eins og hér er farið fram á séu hjá erlendum þjóðum. Mér er nú dálítið sárt að deila við flokksmenn mína og vini um þetta mál og ætla því ekki að fara lengra út í það. En ég geri að till. minni, að frv. verði vísað til ríkisstj. Í henni á sæti aðalflm. þessa frv., og ég mun hafa það fororð með þessari till. minni, að það verði leitazt við að afla upplýsinga um samskonar löggjöf í öðrum löndum, sérstaklega næstu lýðræðis- og menningarlöndum; ennfremur, að löggjöf í þessa átt verði lögð fyrir Alþingi, ef það álízt nauðsynlegt, og verði þá undirbyggð með nákvæmri rannsókn. Ef ég hefði verið starfandi í allshn., þegar málið var þar til meðferðar, hefði ég sennilega lagt til að afgreiða það með rökst. dagskrá í þessa átt. En þar sem svo var ekki, þá vona ég, að þessi till. mín verði samþ., og að hæstv. ríkisstj. taki tillit til þess fororðs. sem ég nú hefi nefnt.