05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í C-deild Alþingistíðinda. (2423)

42. mál, héraðsþing

*Pétur Ottesen:

Það er líklega rétt að bíða eftir því, að þetta mál komi úr nefnd, sem það e. t. v. gerir. Ég geri ráð fyrir að fresta að mestu leyti umræðum um það þangað til. En það er þó eitt atriði í þeirri grg., sem fylgir þessu frv., sem ég tei rétt að minnast dálítið á. Að vísu virðist grg. vera skrifuð af aðalflm. þessa frv., því að í inngangi þessarar grg. eru hinir flm. með einhvern kattarþvott, þannig að snúa sökinni að aðalflm., en láta þetta sem minnst koma nærri sér. Annars væri ekki ástæða til þess að tileinka honum grg., þegar ásamt honum flytja frv. menn úr öllum aðalstjórnmálaflokkunum. En honum er eignaður rökstuðningurinn, sem því fylgir. Hér virðist, sem hinir flm. vilji með einhverjum Pílatusarþvotti koma sér undan því, sem í honum feist. Ég er undrandi yfir þeim mönnum úr okkar flokki, sem hafa skrifað nöfn sín á þetta frv., þó að þeir kunni að vera þeirri hugmynd fylgjandi, er þar kemur fram. Ég skal að svo stöddu engan dóm leggja á afstöðu þeirra,. þótt ég sé undrandi yfir henni, sérstaklega með tilliti til grg. og þess dóms, sem þar er felldur um þingmálafundina, þar sem settur er slíkur stimpill á þessa viðleitni manna frá þeim tíma, er almenningur, bændur og búalið, í þessu landi fékk frjálsræði til að láta í ljós skoðun sína og vilja sinn til ýmissa mála, til leiðbeiningar fyrir þá fulltrúa, sem þeir velja á Alþing, eins og getur að lesa í upphafi grg., sem er upp á fjórar blaðsíður, en ég skal ekki lesa nema hálfa þriðju línu, með leyfi hæstv. forseta: „Af öllum ómerkilegum fundum, sem á þessu landi eru haldnir, munu svokallaðir þingmálafundir hafa á sér mesta fyrirlitningu og vera fyrirlitningarinnar maklegastir“. Þetta er nú dómur, sem kveðinn er upp í þessari grg. og ekki færri en 8 þm., að ég ætla, hafa skrifað nafn sitt undir. Það er hastarlegt, að þeir kjósendur landsins, sem valið hafa fulltrúa í þá miklu trúnaðarstöðu, að fara með sín vandamál og leysa þau á sem beztan hátt á Alþingi, skuli fá svo ósanngjarnan og fjarstæðan dóm. Það er sá sjálfsagði réttur kjósenda, að láta óskir sínar og till. í ljós við fulltrúa sinn, sem síðan flytur þær á Alþingi. Samkvæmt þessum hatrama dómi ættu kjósendur yfirleitt að vera svo skyni skroppnir og algerlega ódómhæfir, að ekkert tillit væri takandi til þess, sem þeir leggja til opinberra mála, auk þess sem þeir gera till. um heildarstarfsemi löggjafarinnar í landinu. Það er nokkuð mismunandi aðstaða úti um landið til að koma á fjölmennum fundum um þessi mál, og þá sérstaklega, þegar þinghald fer nú fram á vetrum og næsti undirbúningur undir þing með þingmálafundum og slíku fer fram á þeim tíma árs, sem erfiðast er með samgöngur. Þess vegna eru þeir misjafnlega mannmargir. Þó mun allt fara í svipaðan farveg á þeim fundum og hinum fjölmennari.

Ég vildi ekki láta þetta mál fara svo til 2. umr., að ég ekki benti á, að slíkur dómur, sem hér er felldur, er vitanlega alveg fjarstæður og nær ekki nokkurri átt, þótt teygja megi og toga einstakar till.. sem fram hafa komið á Alþingi frá kjósendum, um áratugi, og segja, að það sé ekkert mark á þeim takandi og þær séu „fyrirlitningarinnar maklegastar.“ Ég hefi ekki orðið var við, að meiri ósómi hafi verið borinn á borð á Alþingi nokkurntíma heldur en það, sem í þessu felst. Og ég verð að láta undrun mína í ljós yfir því, hve mikið skortir á varfærni hjá þeim í hv. þm., sem hafa sett nafn sitt á annað eins plagg og það, sem felur slíkan dóm í sér.