05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

42. mál, héraðsþing

Sigurður Kristjánsson; Ég held, að það sé óþarfa kurteisi af hv. 1. flm. þessa frv. að þakka fyrir það, að frv. hafi vakið athygli, því að ennþá hafa engir aðrir en flm. lagt því liðsinni.

Hv. 1. flm. taldi, að ég mundi ekki hafa lesið grg. Það er að nokkru leyti rétt, ég hefi ekki „stúderað“ hana mikið, því að hún er bæði löng og leiðinleg, og get ég þess í upphafi, að ég ætlaði ekki að fara mikið út í þessa stórorðu grg., því að ég álít ekki rétt á þessu stigi málsins að stofna til þrætu um það, sem aðeins einn af flm. tileinkar sér.

En þrátt fyrir það, að nokkrir menn í þessu eina kjördæmi hafi gengið inn á það fyrir tilstilli hv. þm. N.-Ísf., að óska eftir sérstakri lýðræðislegri skipun á þing- og héraðsmálafundum. Þá er náttúrlega alls ekki neitt, sem bendir í þá átt, að slíkur vilji sé fyrir hendi almennt. Till. þessi var samþ. alveg undir sérstökum skilyrðum, eins og hv. þm. er kunnugt um. En út af þeim ummælum, sem hér eru í grg. um þingmálafundi Ísfirðinga, þá skal ég — fyrst út í það er komið að minnast á grg. — taka það fram, að það er með öllu óréttmætt að komast svo að orði, að við skipun þessara héraðsmálafunda sé engin viðleitni höfð til þess að skipa fulltrúa eftir réttum lýðræðisreglum. Fulltrúarnir eru kosnir hlutfallskosningu, 3 í hverjum hreppi, og er það nákvæmlega sama fyrirkomulag og við hlutbundnar kosningar til Alþ. Það er náttúrlega ekki hægt að ábyrgjast, að við það komi fram fullkomið lýðræði frekar en við hlutfallskosningar til Alþ. En þá yrði að breyta því og hafa hlutfallskosningar fyrir alla sýsluna, sem ekki væri heppilegt, vegna þess að þá yrði miklu erfiðara að fá kjósendur til þess að sækja fundi.

Annars get ég ekki gengið inn á, að það sé hlægilegt, eins og stendur í grg., ef kjósa ætti menn á þessa fundi án tillits til flokksafstöðu þeirra. Víða hér á landi líta menn svo á, að það sé ekki aðeins skaðlaust, heldur heppilegt, að fundir, sem eiga að fjalla að mestu um innanhéraðsmál, séu ópólitískir, og svo hefir það að ýmsu leyti verið í Norður-Ísafjarðarsýslu, þó að kosið væri pólitískri kosningu. Ég býst t. d. við því, að hv. þm. N-Ísf. viti það, að fundur sá, sem síðast var haldinn í Norður-Ísafjarðarsýslu, var skipaður að meiri hl. andstæðingum núverandi stj., og þó samþ. þessi fundur ekki vantraust á stj., sem náttúrlega hefði verið leikur; hann hefði meira að segja getað lýst vantrausti á þm. En það er litið svo á af mörgum, að fundirnir eigi fyrst og fremst að vera til þess að ræða ópólitísk mál, og svo náttúrlega til þess að taka afstöðu til höfuðmálanna, sem fyrir þinginu liggja, og þá verða að sjálfsögðu þau mál pólitísk; héraðsmál eru það mjög sjaldan.

Það kom fram hjá hv. 1. flm., að hann taldi það mikla réttarbót, að samkvæmt frv. væri ætlazt til, að þessi héraðsþing fengju sérréttindi hér á Alþ. En það liggur ekkert fyrir um, að svo myndi verða, og ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það færi eins með þessa fundi eins og þá, sem hingað til hafa verið haldnir, að Alþ. tekur ekki meira tillit til þeirra heldur en því sjálfu sýnist, og býst ég við, að það færi svo, að þm. læsu ekki einu sinni þessar fundargerðir, og yrði það því að vera undir viðkomandi þm. komið, hvernig tekst að koma málinu á framfæri.

Það er ekki rétt, að þm. sveitakjördæma hafi ekki að neinu að snúa sér með áhugamál héraðanna, og að þar sé allt öðru máli að gegna en í kaupstöðunum, því að þótt bæjarstjórnarfundir séu haldnir tíðar en hreppsfundir og sýslufundir, þá er það vitanlegt, að þm. snúa sér oft til sýslunefnda og hreppsnefnda.

Mér skildist bæði á hv. 5. þm. Reykv. og hv. þm. Snæf., að þeir teldu, að engin réttarsvipting fælist í þessu frv. En það hlýtur í framkvæmdinni að verða svo, eins og ég tók fram í minni fyrri ræðu, að þegar þetta skipulag er komið á, þá verða allir eftir það að lúta því, að fundirnir séu skipaðir allt kjörtímabilið út eins og þeir skipuðust í upphafi þess, og þar með verða menn vitanlega sviptir nokkrum rétti, ef svo ber undir, að afstaða héraðsbúa breytist til stj. og þingmeirihlutans. Þetta kemur ef til vill allra skýrast fram í því dæmi, sem hv. þm. V.-Húnv. tók, og það er ekki hliðstætt við það, sem hv. þm. Snæf. tók í kosningalögunum, því að það er vitanlegt, að þegar stjórnmálaflokkar koma sér saman um sameiginlegt framboð, þá er það bundið við þm., en ekkert annað. En hitt er víðtækara, sem fram kann að fara á héraðsfundum í 4 ár.

Ég vil svo endurtaka það, að þó að ég hafi mælt með því, að þetta frv. færi til 2. umr. og n., þá vil ég alvarlega skora á þm. að skoða huga sinn vel um það, hvort rétt sé að blanda sér í jafnsjálfsögð einkamál héraðanna eins og það er, að haga sínum fundum eins og þeim sjálfum sýnist.