21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (2446)

71. mál, lóðarnot í Reykjavík

*Jakob Möller:

Ég verð að segja, að mig furðaði á að sjá þetta frv. koma fram á Alþ. Það er svo með ósk þessa fyrirtækis, Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, að henni hefir einróma verið synjað bæði af byggingarnefnd og bæjarstjórn. Ég hélt, að hæstv. Alþ. og ríkisstjórn mætti skiljast af því, að það var ekki að ástæðulausu verið að setja þar stein í götu fyrir framgangi þessa máls. Hv. frummælandi sagði eitthvað á þá leið, að það ætti ekki að skipta miklu máli, þótt byggt væri þarna timburhús, Þar sem timburhús væru þar fyrir, en ég vænti, að hv. n. ætli sér að leggja fyrir þingið upplýsingar um, hvernig þarna hagar til um byggingar, hvort bæta á við eða byggja upp. Það væri réttast að vísa málinu aftur til hv. n. og leggja fram fyllri upplýsingar um, hvernig hagar til og hvaða ástæða er fyrir synjuninni, og hvað er farið fram á að fá leyfi til.

Ég get í fáum orðum lýst þessu. Hv. þdm. mun flestum kunnugt í aðalatriðum, hvernig hagar til þarna. Þar eru að vísu timburhús, en byggð í ferhyrning, og nokkuð stór lóð auð á milli húsanna. En í ráði er að byggja nýbyggingu, miklu stærri en þær, sem fyrir eru. Byggingin á að vera 250 fermetrar að stærð, eða rúmlega þrisvar sinnum stærri en heimilað er í byggingarsamþykkt Reykjavíkur. Það er sannarlega full ástæða til að banna slíka byggingu í miðbænum, jafnvel af þeirri stærð, sem heimiluð er í byggingarsamþykktinni, hvað þá heldur hús, sem yrði a. m. k. þrefalt stærra en leyft er. Og svo leyfir hv. frsm. n. sér að segja, að það sé engin aukin eldhætta. þótt þarna komi stór nýbygging fast við hverfi, sem eru næstum eingöngu timburbyggingar í. Þar að auki er svo í þessari nýbyggingu brauðgerðarhús, og það er alltaf meiri eldhætta en í íbúðarhúsum, og ef eldur kemur þar upp, er erfiðara að hefta útbreiðslu hans í byggingunni sjálfri og því meiri hætta á útbreiðslu til annara húsa í grenndinni. Í vissri vindstöðu getur farið svo, að allt hverfið þarna fyrir ofan verði í stórkostlegri hættu, meiri en orsakazt gæti af þeim byggingum, sem nú eru þar. Ég vona, að hv. þm. banni þessa byggingu, þótt það eitt hefði átt að nægja, að byggingarnefnd bæjarins lagði eindregið á móti henni.

Viðvíkjandi því, hve lengi þessi bygging ætti að standa þarna, þá er það staðreynd, að þótt um sé að ræða leigu lóðar til viss tíma, þá verða húsin alls ekki flutt eða þess aldrei krafizt. Hverjum dytti í hug að skipa félaginu að flytja burt þetta hús sitt eftir 2 ára tíma eða svo, ef byggja ætti þá opinberar byggingar á lóðinni? Hverjum dettur í hug. að núverandi ríkisstj. fari að skipa félaginu burt með bygginguna? Ég sé ekki annað en að um nægar aðrar lóðir sé að ræða til að byggja þetta hús á. Þetta myndi festa lóðina um ófyrirsjáanlegan tíma og e. t. v. tefja fyrir þeim opinberu byggingum, sem þarna eiga að koma. — Mun ég greiða atkv. móti þessu máli.