28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (2535)

77. mál, ríkisborgararéttur

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil ekki láta þetta mál fara svo gegnum 1. umr., að ég lýsi ekki því áliti mínu á því, að frekar sé til óþurftar en hagsbóta, að það nái fram að ganga. Ég álít, að núgildandi lagaákvæði um heimild til að veita útlendingum ríkisborgararétt séu of rúm og að jafnlítilli þjóð og við erum stafi hætta af auknum innflutningi útlendinga. Þau undanþáguákvæði, sem nú eru í l. um, að útlendingar, sem starfað hafa í þjónustu ríkisins í 5 ár, geti öðlazt ríkisborgararétt, eru of væg. Þeir, sem starfa hjá ríkinu, eiga að þurfa eins langan tíma til að geta öðlazt ríkisborgararétt eins og hverjir aðrir útlendingar, því að hver segir, að þeir, sem ráðnir eru hjá ríkisstofnunum um stundarsakir, séu líklegir til að verða betri borgarar fyrir þetta ríki en hverjir aðrir útlendingar, sem flytjast hingað inn. Þegar á það er litið, hve margir útlendingar starfa nú hjá bæjarfélögum og fer stöðugt fjölgandi vegna ýmissa „tekniskra“ fyrirtækja, gæti fjöldi útlendinga fengið ríkisborgararétt hér á landi, ef þessi breyt., sem hér er farið fram á, verður samþ. Nú megum við horfa upp á, að jafnhliða því, að hér ganga hundruð eða jafnvel þúsundir manna atvinnulausir í okkar landi, þá er alstaðar fullt af útlendingum í atvinnu. Maður kemur varla svo inn í verzlun eða skrifstofu, að þar séu ekki útlendingar fyrir, sem taka atvinnu frá landsins börnum. Ég skil ekki þá fyrirhyggju, sem er hjá þeim mönnum, sem eiga þó fyrst og fremst að hugsa um hag sinna eigin landsmanna, að þeir skuli vilja rýmka meira en nú er þau ákvæði, sem nú gilda um veitingu ríkisborgararéttar útlendingum til handa. Ég tel réttara að herða á eftirlitinu með því, hvernig menn fá ríkisborgararétt, heldur en að rýmka það og veita svo að segja ótakmarkað leyfi til þess, að menn fái íslenzkan ríkisborgararétt, er þeir hafa dvalið 5 ár hér á landi. Ég veit, að erlendis er þetta bundið við 10 ár, og sumsstaðar lengri tíma. Og þegar litið er til þess, hversu fámennir við erum, og hversu miklir atvinnuerfiðleikar eru í stóru löndunum kringum okkur, þá skilst mér, að ásókn erlendis frá til að setjast að í okkar friðsæla landi, sem ennþá er og vonandi verður, sé svo mikil, að full ástæða sé til fyrir okkur að hafa betri gát á þessu máli en við höfum gert hingað til.

Ég hefi ekki á móti því, að þetta mál gangi til n., sem verður þá væntanlega allshn. Og þá vil ég aðeins biðja þá hv. n. að sýna þetta mál ekki aftur í þinginu. en ef hún lætur það koma fram aftur, þá verði það í þeirri mynd, að felld sé niður undanþágan um 5 ára búsetu, en setja þess í stað undantekningarlaust skilyrði um 10 ára búsetu.