29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2600)

117. mál, prófessorsembætti í uppeldisfræði og barnasálarfræði

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Ég mun ekki eins og sakir standa fara að ræða efni frv., sem fyrir liggur á þskj. 331, enda þótt ýmislegt mætti um það segja bæði með og móti, og einnig og um það, hvort það sé meðal þess, sem nú er mest áríðandi að bera fram till. um, að stofna þetta prófessorsembætti í uppeldis- og barnasálfræði við heimspekideild háskólans, eins og það heitir.

Ég mun ekki leggja stein í götu þess, að það fái að ganga eitthvað áleiðis. Eins og nú er komið, eru litlar líkur til þess, að það nái fram að ganga á þessu þingi, og tel ég það engan skaða; en úr því að það er komið fram, þykir mér hlýða að gera við það þá breyt., sem brtt. á þskj. 370 greinir.

Þannig er mál með vexti, eins og þeir, sem kunnugir eru þessu efni, vita nokkur deili á, að við háskólann er haldið uppi svokallaðri heimspekilegri kennslu. Nú er það mér vitanlega ekki svo, að þar sé kennd heimspeki til hlítar, eins og nefnd hefir verið filosofi í ýtrasta skilningi, þannig að menn hafa ekki getað tekið hér fullkomið heimspekipróf, sem talið er nauðsynlegt til að geta innt kennslu af hendi í þeim greinum, heldur fer þar fram kennsla í hinum svokölluðu forspjallsvísindum, sem stúdentum, sem ganga hina æðri menntaleið, er gefinn kostur á og flestir verða að ganga í gegnum á fyrsta námsári að jafnaði.

Að mínum dómi er þessi kennsla, eins og hagar til nú á tímum og með þeim kröfum, sem menn nú gera, orðin hið mesta glingur, og myndi ekki koma til orða að mínum dómi að fara að halda uppi sérstökum prófessor til þess eins að kenna forspjallsvísindi, enda var þeim prófessor, sem hefir kennt þessi fræði, sjálfsagt ætlað að taka að sér hina fyllri kennslu, ef á hefði þurft að halda.

Nú hefir sá prófessor, sem hefir haft þessa kennslu með höndum, vitanlega unnið að ýmsu öðru, ritsmiðum, fyrirlestrum almenns eðlis og ýmsu sérfræðilegu í þessari grein, og hefir það sjálfsagt komið að einhverju haldi. En það verkefni, að kenna forspjallsvísindi, sem bera þetta mikla nafn, enda þótt það sé ekki allskostar innfalið í heimspeki og geti ekki kallazt veruleg vísindakennsla, er ekki fullkomið starf fyrir einn mann, þó að hún héldi áfram, sem ég geri ráð fyrir, því að ef hún ætti ekki að haldast, þyrfti meiri lagabreyt. og ýmsar fyrirkomulagsbreyt.

Ef nú á að fara að stofna nýtt embætti við háskólann í þeirri grein, sem ekki hefir áður verið kennd og nefnd er í frv. uppeldisfræði og barnasálarfræði, sem menn greinir mjög á um. bæði lærða og leika, hvernig eigi að kenna og hversu veigamikið sé að kenna sem háskólagrein, þá tel ég, að sá maður, sem fær ævistarf við þetta, ætti auðveldlega að geta tekið að sér kennslu í forspjallsvísindum, kennslu í almennum undirstöðuatriðum heimspekilegs efnis, eins og þau hafa verið kennd við háskólann.

Ég tel því ekki eingöngu vel til fallið, heldur og sjálfsagt, eins og ég tók fram, að nota nú tækifærið og lögleiða, ef þetta frv. á fram að ganga, að sá, er embættið hlýtur, geti tekið að sér þetta námskeið fyrir stúdentana, og býst ég jafnvel við, að nú séu hér á landi einhverjir af þeim, sem numið hafa þau fræði, sem hér koma til mála, og gætu tekið að sér að kenna það, sem frv. greinir, sem líka hefðu fengið þá menntun, sem nægði til þess að kenna forspjallsvísindi, sem ég var nú að tala um.

Ég vænti því, ef hv. þdm. á annað borð vilja fara inn á þessa braut, að þeir sjái, að hér eru slegnar tvær flugur í einu höggi, því að þá gengi þessi maður þegar inn í tilorðið og fast starf, en sem er svo lítið, að það er fyllilega hægt að gera ráð fyrir því, að sá prófessor, sem tæki að sér það starf að kenna uppeldis- og barnasálarfræði, gæti líka annað hinu. Með þessum formála tel ég, að frv. sé orðið aðgengilegt, að svo miklu leyti sem menn telja, að það beri að lögleiða, en það er þó engu til kostað; þessi kennari tekur það embætti, sem fyrir er, þegar það losnar, og það má gera ráð fyrir, að sá ágæti maður, sem nú þjónar því, verði ekki mjög lengi við það ennþá, og þá getur brátt rekið að því, að hinn setjist í það sæti og taki við því starfi, sem ég hefi nú lýst.