23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

Jóhann Jósefsson:

Þegar málið var hér til umr. síðast, gerði ég að umtalsefni nokkur atriði í brtt. n. En ég skal þegar taka það fram, að nokkuð af því, sem ég færði þá fram, virðist hafa verið byggt á misskilningi af minni hálfu, eins og hv. frsm. benti á í ræðu sinni. Þykir mér leitt að mér skuli hafa missýnzt, og viðurkenni ábendingar hv. frsm. sem réttmætar.

En það voru fleiri atriði, sem ég minntist á og standa óhögguð, þrátt fyrir þetta. Hv. frsm. taldi réttmætt að nota hátekjuskattinn á þann hátt, sem hv. n. gerir ráð fyrir í till. sínum. Ég hafði sérstaklega áfellzt þá stefnu að nota fé til að hlaða undir nýja framleiðslu og framleiðslutæki, í stað þess að sinna því verkefni, sem fyrir liggur, að rétta hjálparhönd þeim útvegi, sem fyrir er í landinu. Til merkis um það, að ég fari ekki með staðiausa stafi, er ég ásaka sérstaklega Framsfl. fyrir vanrækslu um mál útvegsins, vil ég vísa til málaleitana útvegsmanna, er þeir hafa lagt fram, bæði á fundum er þeir hafa haldið hér, sumum með ríkisstj., og með erindum og með plöggum, er þeir hafa sent þingi og stj. Allt þetta hefir verið lagt fyrir hæstv. stj. bæði munnlega og skriflega, en hún hefir daufheyrzt við, nema ef skilja á frv. um rannsókn á högum togaraútgerðarinnar þannig, að Framsókn vilji nú gera eitthvað fyrir útveginn.

Hv. frsm. sagði flokk sinn vakandi og sofandi í því að hugsa um málefni útvegsins, og væru því aðfinnslur um það efni óréttmætar. Ég get nú t. d. bent á það, að S. Í. F. hefir skrifað hæstv. stj. annað bréf nýlega og farið þess á leit að fá viðtal við hana út af samþykktum síðasta fundar S. Í. F. En þessu erindi er enn ósvarað, eða svo var, þegar ég kom síðast á skrifstofu sölusambandsins. Ég hygg líka, að formaður S. Í. F. hafi farið þess á leit munnlega að fá að tala við ríkisstj., og hefir því ekki verið sinnt.

Þá er enn eitt dæmi um það, hve vakandi Framsfl. er í þessu máli: frv. um fiskveiðasjóð, sem búið er að ganga gegnum þessa hv. d. og hefir síðan legið 50 daga fyrir hv. Nd. tafið þar af þessum flokki. Þetta frv. miðar að því að létta gjaldabyrði þeirra útvegsmanna, sem taka lán í fiskveiðasjóði. Ég fullyrði, að töf sú, sem orðið hefir á þessu frv. í Nd., er Framsfl. að kenna.

Ég hirði ekki um að telja fleiri atriði til sönnunar tómlæti Framsfl. um þessi mál. En þegar þetta tómlæti er athugað, sýnist það kynlegt, er flokkurinn tekur nú þá stefnu að fara að taka nýjan skattstofn til að búa til nýja útvegsmannatill., en vill ekki sinna málefnum þeirra gömlu.

Hv. frsm. sagði líka, að ég myndi ekki hafa gert meira en Framsfl. í þessum málum. Um það er vitanlega ekki auðvelt að dæma. Ég hefi ekki haft sömu aðstöðu og hæstv. ríkisstj. til að vinna fyrir útgerðina. En ég get þó bent hv. frsm. á, að ég hefi þó unnið það verk til framdráttar sölu á íslenzkum fiski erlendis, sem hv. framsóknarmenn hafa ekki enn getað sýnt fram á, að verið hafi til ógagns. Ég veit ekki til, að hann geti bent á nokkurn flokksmanna sinna. sem unnið hafi útgerðinni meira gagn um útvegun markaða. Ég á við það, er mér tókst fyrir hönd fyrrv. stj. að útvega togurunum markað í Þýzkalandi fyrir 11/2 millj. kr. árlega. Hinsvegar hefi ég barizt hér á þinginu fyrir ýmsum málefnum útvegsins, eins og hv. frsm. er kunnugt um, t. d. efling fiskveiðasjóðs og öðru slíku, þannig að ég hefi sýnt fullan lit á því að vilja verða útveginum að gagni. Hitt er annað mál, hvort mér hefir alltaf tekizt að fara hina réttustu leið í þessum efnum; um það er ég ekki dómbær. Og hér kemur líka annað til greina, að ég hefi ekki alltaf megnað, vegna aðstöðu mínnar hérna á þinginu, að koma ýmsu því fram, sem ég hefði mjög gjarnan viljað.

Ég skal svo láta útrætt um viðskipti okkar hv. frsm. um það, hvað ég hefi viljað gera fyrir útveginn og hvað aðrir hafa viljað gera.

Þá ætla ég að víkja að till. um benzínskattinn. Ég sé, að n. hefir tekið til greina að nokkru leyti minar óskir í þessum efnum, og er ég henni þakkláfur fyrir það, þótt ég hefði gjarnan kosið, að hún hefði ekki skorið svo við neglur sér tillag það, sem Vestmannaeyjar eiga að fá af benzínskattinum. Þó mun ég ekki gera það að neinu deiluefni, því að ég veit, að n. hefir átt við ramman reip að draga. Og það er ekkert aðalatriði fyrir mér, hvort þetta tillag er einu þúsundinu meira eða mínna, heldur hitt, að með þessu er fengin viðurkenning á því, að Vestmannaeyjar eiga rétt á hluta af þessari skatthækkun á benzíni, eins og aðrir aðiljar, sem þar hafa komið til greina. En vegna þess að í till. n. er þetta orðað þannig, eins og hv. frsm. minnt á, að þessu skuli varið til vega út frá Vestmannaeyjakaupstað, tel ég rétt, að það verði breytt á þá lund, að féð skuli renna til vega í Vestmannaeyjum. Í l. er það þannig, að kaupstaðurinn nær yfir allt landið í Vestmannaeyjum, og þess vegna kynni einhver að hártoga það orðalag, sem er í brtt. n. En ég viðurkenni réttmæti þess, sem hv. frsm. sagði, að þeir ætluðust til þess, að fénu yrði aðallega varið til vega út frá kaupstaðnum, en ekki til sjálfra bæjarveganna í þrengstu merkingu.

Ég vil svo leyfa mér að afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. á orðalaginu í brtt. n. og vona, að hún sé borin fram með fullu samþykki n.