30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í C-deild Alþingistíðinda. (2633)

120. mál, útvarpsráð

Haraldur Guðmundsson:

Eins og þm. er kunnugt, er þetta gamalt deilumál hér á þingi, hvernig skipa á útvarpsráð, og þrásinnis hafa orðið um það allhörð átök. Þegar þetta frv. var samið, var það ráð tekið að flytja engar till. um breyt. á skipun útvarpsráðs, heldur halda henni óbreyttri. Tilgangur frv. er fyrst og fremst sá, eins og grg. sýnir, að leiðrétta þær misfeilur, sem eru á lögunum nú, er gerðu það að verkum, að ekki er hægt að framkvæma lögin. Það er að vísu rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. segir, að skipun formanns og þeirra útvarpsráðsmanna, sem kosnir eru af útvarpsnotendum, er ekki gefin út fyrr en í byrjun maí 1935. En það breytir ekki því, að þeir geti átt setu jafnlengi og þeir þingkosnu menn, og í þeirra bréfi er ákveðinn tími, samkv. lögum 3 mán. eftir að kosning hefir farið fram á Alþingi. Þessi kosning fór fram á Alþingi 22. desember 1934, og þeirra kjörtímabil endar því 22. marz 1939, en fyrir þann tíma er ómögulegt að vera búinn að ganga frá kosningu nýrra manna á Alþingi og líka láta kjósa af hálfu útvarpsnotenda. Þetta tel ég, að grg. frv. beri með sér, enda skilst mér, að allir hv. þdm., sem um þetta hafa talað, séu sammála um, að þetta misræmi l. beri að leiðrétta, og ástæðan til, að frv. er flutt svona, er sú, að þar er í engu haggað við því gamla ágreiningsmáli, hvernig útvarpsráðið sé skipað, að það sé skipað 3 mönnum kosnum af Alþingi, 3 mönnum kosnum af útvarpsnotendum og oddamaðurinn skipaður af kennslumálaráðh.

Það er alveg misskilningur hjá hv. 3. þm. Reykv., að þetta frv. sé flutt til að bægja vissum mönnum út úr útvarpsráðinu. Hinsvegar get ég ekki sem forseti Sþ. gengið á svig við ákvæði l. til þess að halda þessum mönnum í útvarpsráðinu, enda þótt þeir hafi gengið til áberandi þjónkunar við hann í störfum sínum í útvarpsráðinu. Ég get ekki talið það fullgilda ástæðu til að hverfa frá því, sem l. mæla fyrir um. Annars. get ég ekki að því gert, að mér þykir mjög undarlegt, að hv. 3. þm. Reykv. skuli nú taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að rétt og eðlilegt sé, að þingið fallist á, að útvarpsnotendur einir ráði skipun útvarpsráðs. Ég man ekki betur en að 1934, þegar þau l., sem við nú erum að ræða um að breyta, voru samþ., væri þessi hv. þm. einna ákveðnastur í því, bæði í þinginu og eins í n., að það væri Alþingi og stj., sem ætti að ráða í þessu máli, en hvað sem því veldur, þá hefir hv. þm. nú haft svo gersamlega endaskipti á sjálfum sér og hausavíxl á sínum skoðunum. Það skyldi ekki vera, að ástæðan væri sú, að honum væri hugleikið að halda einhverjum sérstökum mönnum, sem nú eru í útvarpsráðinu. Einhver ástæða er til þessara áberandi skoðanaskipta í þessu máli.

Ég er alveg ósammála þeim, sem halda því fram, að útvarpsnotendur einir eigi að ráða málefnum útvarpsins. Það er óeðlilegt og gersamlega andstætt því, hvernig útvarpið er byggt upp, og andstætt þeim reglum, sem gilda almennt í þjóðfélagsmálum. Ég veit ekki betur en að allt það fé, sem lagt hefir verið í útvarpsstöðina, hafi komið úr ríkissjóði, og nú á að taka á 7. hundrað þús. kr. lán til að stækka stöðina, og ég veit ekki til, að útvarpsnotendur séu umfram aðra þegna þjóðfélagsins ábyrgir fyrir því. Viðtækjaverzlun ríkisins er rekin með það fyrir augum að standa undir rekstri útvarpsins. Ég álít sjálfsagt, að álit og skoðanir útvarpsnotenda sé rækilega athugað í útvarpsráðinu, og það er gert. En ég álít, að löggjafinn og ríkisstj. eigi að hafa úrslitaáhrif á þessi mál og eigi að geta ráðið stjórn þessa fyrirtækis eins og annara, og ég held, að það sé torfundin betri lausn á þessu heldur en sú, sem er í núgildandi l.

Önnur atriði í brtt. hv. 1. þm. Skagf. skipta minna máli. Hann ber fram brtt. um, að skrifstofustjórinn skuli ekki vera ritari útvarpsráðs, og það er ekki neitt höfuðatriði í mínum augum. En ég hygg, að ef útvarpsráðið hefir skrifstofustjóra í framtíðinni, þá muni hann annast ritarastörf hjá útvarpsráði, jafnvel þó að útvarpsráð kysi annan til þess. Ég sé ekkert á móti því, ef hv. þm. er það áhugamál, að þessi brtt.samþ.; það gerir hvorki til né frá.

Hv. þm. gerir sýnilega ekki ráð fyrir, að alltaf sé mikill áhugi fyrir kosningu í útvarpsráð, og fæ ég ekki skilið, hvers vegna hann vill ganga inn á þá leið, sem hann annars er andvígur, að láta þingflokkana blanda sér inn í að skipa útvarpsráðið, sem eftir hans aðaltill. eiga engin afskipti að hafa af því. Þetta finnst mér stangast á.

Um það, hvort rétt sé að láta kjörtímabil núverandi útvarpsráðsmanna falla niður frá 1. maí, má vitanlega deila í það óendanlega. Hv. 1. þm. Skagf. segir, að eftir þeirri reynslu, sem hafi fengizt af útvarpsráðinu, þá sé það mjög hlutlaust. Ég hefi kannske misskilið hlutverk útvarpsráðs, að það ætti að vera hlutlaust, a. m. k. er ekki ætlazt til þess í l., og mjög mikið af því, sem er sagt um þetta sjálfsagða hlutleysi útvarpsins, er bara út í bláinn, en það á að sýna óhlutdrægni. Það er ómögulegt að komast hjá, að það flytji ákveðinn málstað, en það á ekki að sýna hlutdrægni, og um það verður að sjálfsögðu mjög deilt, hvernig það lánast, enda er þar vandratað meðalhófið. En af því að þessi orð féllu hjá hv. þm., þá vil ég undirstrika, að það er óhlutdrægni, sem er fyrsta skylda útvarpsráðsins 1 þessu efni.

Skemmtilegast þótti mér niðurlagið á ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann sagði, að að öðru leyti væru brtt. sínar fullkomlega shlj. frv., en ég sé ekki betur en að ef brtt. hans verða samþ., þá sé ekkert eftir af frv.; því er alveg snúið við, sem máli skiptir. Ég tel líka, að ósamræmi sé í því að hafa annað kjörtímabil fyrir þá útvarpsráðsmenn, sem skipaðir eru af Alþingi, en hina, sem eru kosnir af útvarpsnotendum. Það, sem vakti fyrir Alþingi, þegar ákveðið var, að kjörtímabil útvarpsráðsmanna væri 4 ár, var það, að miða við kjörtímabil alþingismanna, sem gert var ráð fyrir, að færi saman, en af vangá hefir þess ekki verið gætt, að gera ráð fyrir að til þingrofs og aukakosninga gæti komið. Ég sé því enga ástæðu til, að kosning af hálfu útvarpsnotenda fari fram samtímis því.

Hv. þm. minntist á gamla spakmælið, sem nú er umskrifað í það þinglega form. að fámennar n. vinni betur en fjölmennar. Ég er ekki viss um, að þetta sé fullgildur sannleikur. Það fer allt eftir því, hvernig n. er. Ég hefi ekki orðið var við, og ég hygg, að hv. þm. hafi ekki heldur orðið var við það, að starf n. torveldaðist við, að 7 menn væru í henni, eða batnaði, þó að fækkað væri. Í þeim mest áríðandi þingnefndum gera þingsköp ráð fyrir, að séu margir menn, jafnvel fleiri en 7.

Ég verð að segja, að mér finnst hv. þm. Snæf. hafa brugðizt mér með því að ganga svo grersamlega sem hann hefir gert inn á brtt. hv. 1. þm. Skagf., og verð mjög að mæla því í gegn, að þær verði samþ.

Í stuttu máli er þetta frv. hér beinlínis flutt og sniðið á þann veg, sem gert er, með það fyrir augum, að hreyfa á engan hátt við því gamla deilumáli þingsins, hvernig útvarpsráðið skuli skipað. Við, sem að frv. stóðum, vorum sammála um, að óheppilegt væri að taka það upp og varla hægt að gera ráð fyrir, að það næði þá fram að ganga á þessu þingi. Ég vil því mjög eindregið mæla gegn því, að brtt. á þskj. 389 verði samþ. Með því að samþ. þær er gersamlega horfið frá þeim grundvelli, sem lagður var með l. um útvarp frá 1934, og komið inn á annan grundvöll, sem að minni hyggju er í ósamræmi við það, sem er eðlilegt og sjálfsagt.