29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (287)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Ólafur Thors; Það má vel vera, að þessi hv. þm. segi það rétt, að togarafélögin sem slík eigi örðuga aðstöðu til að leggja fé í nýja togara.

En svo er fyrir þakkandi, að það eru margir aðrir í þjóðfélaginu, sem eru betur staddir og engin ástæða er til að efast um, að mundu leggja í slík fyrirtæki, ef talið væri arðvænlegt. Það hefir verið keypt til landsins talsvert af öðrum skipum á síðari árum, en enginn togari. Og það legg ég sérstaka áherzlu á, að þessi hv. þm. má ekki ganga út frá því, að um eitthvað óþekkt sé að ræða, einhverjar tilraunir, sem menn geti ekki fyrirfram gert sér hugmynd um, hvernig fari. Hér er allt þekkt. Við getum fyrirfram myndað okkur nokkuð ákveðna skoðun um það, hvernig verði rekstrarafkomuhlutföll milli slíkra skipa og milli annara togara. Og ég get sagt það fyrir mitt leyti, að ef ekki á að búa betur að útgerðinni en gert er nú, þá mundi ég ekki vilja þiggja þessar 200 þús., sem á að gefa þeim, sem vilja byggja nýja togara. Því að svo mikinn mun geri ég ekki á, hvaða líkur séu fyrir því, að nýtízku togari beri sig betur en hinir, en lít á það hinsvegar sem frumskilyrði, að ríkið búi betur að útveginum en gert hefir verið. Og þó að það sé búið að veita ívilnun um vissan hluta kolatollsins og salttollsins að mestu leyti, þá fer náttúrlega ákaflega fjarri því, að búið sé þar með að létta öllum gjöldum, eða svipað því, af útgerðinni. Þó að búið sé að létta útflutningsgjaldi af saltfiski, þá hvílir á sumum framleiðsluvörum útvegsins hátt útflutningsgjald, er stundum nemur allt að 7–8%, en á öðrum framleiðsluvörum útvegsins hvílir 2–3% útflutningsgjald. Þetta er ákaflega þungur skattur, og það á framleiðsluvörur, sem eru í hærra verði en saltfiskur. Fyrir utan það, ef litið er á hinar ýmsu notaþarfir útvegsins, sem eru margar. Og það eru náttúrlega ekki öll rök fram færð þegar það er sagt, að öll útgerð sé dauðadæmd, ef útvegur nýtízku togara ber sig ekki. Mér er nefnilega ákaflega nærri að halda, að eins og nú er verðlag á framleiðsluvörum annarsvegar og notaþörf útvegsins hinsvegar, og að óbreyttum skattgjöldum og öðrum kvöðum, sem á útgerðina eru lagðar, þá sé eiginlega vonlaust um allan togararekstur hér á landi. En ég er alls ekki á þeirri skoðun, að svo þurfi að vera. Því að ég álit, að það sem á útgerðina er lagt, verði að laga sig eftir gjaldgetu útvegsins. Og ég fullyrði það, að ef togarar borga sig ekki, þá gera vélbátar það ekki heldur. Og ef hvorki togarar né vélbátar bera sig, að óbreyttum kringumstæðum, þá verður þjóðfélagið að breyta kringumstæðunum, því að án þessara skipa getur það ekki lifað.

Að lokum vil ég fullyrða það, sem meginmáli skiptir, að það verða engin sérstök frábrigði frá því, sem er, þó að hingað komi nýtízku togari. Í höfuðatriðunum verður rekstrarafkoman söm eða mjög svipuð og þeirra skipa, sem fyrir eru.