05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2872)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Brynjólfur Bjarnason:

Þessi stjórn getur aldrei orðið annað en bráðabirgðastjórn. Það fara fram hörð átök milli afturhaldsaflanna og alþýðunnar í landinu. — Það er ekki séð fyrir endann á því, hvernig þeim þætti þeirra viðskipta, sem nú stendur yfir, lýkur. Þessi stjórn felur ekki í sér lausn á neinum þeim vandamálum. sem nú bíða úrlausnar. — En meðan barizt er um lausn þessara vandamála, hefir verið horfið að því ráði að mynda þessa stjórn — út úr vandræðum.

Ég ætla nú í stuttu máli að lýsa aðdraganda þessara hluta. — Það er því nauðsynlegra, sem hv. þm. Ísaf. (FJ) hélt ræðu hér áðan, sem engin heil brú var í, heldur ein samanhangandi keðja af uppspuna, blekkingum og rangfærslum.

Kosningarnar í vor sýndu alveg ótvíræðan vilja kjósenda. — kjósendurnir vildu samvinnu verkamanna og bænda og annara alþýðumanna, til framkvæmda á alveg ákveðinni stefnuskrá. — Hið mikla fylgi Kommfl. sýndi greinilega. hvert straumurinn lá. — Og kjósendurnir sýndu ekki einungis fylgi sitt við stefnu Kommfl. með að kjósa flokkinn sjálfan — heldur líka með því að fylkja sér um þá vinstri frambjóðendur, sem Kommfl. hvatti þá til að kjósa — til að koma í veg fyrir sigur íhaldsins og tryggja samstarf alþýðunnar í landinu.

Kjósendurnir lýstu því yfir, að þeir vildu, að verkalýðurinn sameinaðist í einni fylkingu, sem hefði nána samvinnu við bændur og aðra vinnandi menn í landinu. — Alþýðan lýsti því yfir, að hún vildi skapa traust bandalag alþýðunnar, sem stæði vörð um hagsmuni hennar. — Hún lýsti því yfir, að hún vildi, að gerðar yrðu þær einu ráðstafanir, sem duga til að komu fjárhag landsins, sjávarútveginum og öðrum atvinnugreinum á réttan kjöl. Að hin gjaldþrota fyrirtæki yrðu gerð upp og undirstöðuatvinnuvegi landsmanna komið á heilbrigðan grundvöll. Að sett yrði stjórn í þjóðbankann, sem væri í samræmi við vilja þjóðarinnar. — Að í samhandi við þessar ráðstafanir yrði atvinnan aukin, alþýðutryggingarnar endurbættar, eftir óskum fólksins, og önnur nytjamál framkvæmd.

Þetta allt hafði mjög djúptæk áhrif á alla þá foringja. bæði Alþfl. og Framsfl., sem nánust tengsl höfðu við kjósendur sína og líta á sig sem fulltrúa sinnar stéttar, ekki aðeins í orði, heldur líka af heilum hug. — Stærstu verkalýðssamtökin í Reykjavík kröfðust þess, að verkalýðsflokkarnir yrðu tafarlaust sameinaðir — og Alþfl. og Kommfl. gerðu með sér samfylkingu víðsvegar um landið. Framsóknarmenn tóku líka viða þátt í þessari samvinnu. — Stjórn Alþfl. var knúin til að taka upp samninga við Kommfl. um sameiningu flokkanna.

Það segir sig sjálft, að fulltrúar auðvaldsins í landinu gátu ekki horft aðgerðarlausir á slíka þróun.

Forustumenn íhaldsins og bandamanna þeirra í vinstri flokkunum tóku nú ráð sín saman til að hefta framsókn alþýðunnar og koma í veg fyrir sameiningu hennar. — Það var gerð alveg ákveðin hernaðaráætlun, og mér er ekki grunlaust um, að formaður Framsfl. hafi átt drjúgan þátt í henni.

Það, sem gerðist, var í stuttu máli þetta:

Samkv. almennri kröfu frá verkalýðsfélögunum var kallað saman aukaþing Alþfl. til þess að ganga endanlega frá sameiningu Kommfl. og Alþfl. á grundvelli marxismans. — Fyrir þinginu lá sameiningargrundvöllur, sem Kommfl. gat sætt sig við og mikill meiri hl. fulltrúa á þingi Alþfl. var fylgjandi. — En þegar ganga skyldi til atkv. um þessa till., höfðu yfir 20 trúnaðarmenn Alþfl., þar á meðal allir bæjarfulltrúar Alþfl. og allir þm. hans, að undanteknum Héðni Valdimarssyni, skrifað undir yfirlýsingu um, að þeir myndu kljúfa Alþfl., ef sameiningin yrði samþ. á þessum grundvelli. — Til þess að koma í veg fyrir þennan óvinafagnað í bili, var því tekið það ráð, að samþ. til málamynda tilboð til Rommfl. um að leggja flokkinn niður og ganga í Alþfl. — án þess að nokkur trygging lægi fyrir um það, að nokkur till. kommúnista yrði tekin til greina — eða að forustumenn þeirra yrðu ekki reknir úr flokknum, og íslenzk alþýða stæði þannig forustulausari og tvístraðri en nokkru sinni fyrr. — Áður en þessi samþykkt var gerð, lá fyrir yfirlýsing frá Kommfl. um, að ekki kæmi til mála, að hann tæki slíku tilboði, þannig að öllum, sem að þessari samþykkt stóðu, var það vitaskuld ljóst, að þetta var aðeins samþykkt til málamynda, til þess að koma í veg fyrir klofning Alþfl. í bili. — Og mönnunum, sem að þessu fantabragði stóðu, var sýnt svo mikið traust, að þeir voru látnir fara með öll völd í flokknum áfram.

Hvernig notuðu þeir nú þessi völd?

Þeir gátu ekki komið í veg fyrir, að Alþfl. og Kommfl. hefðu samfylkingu í bæjarstjórnarkosningunum viðast hvar á landinu. — Hér í Reykjavík létu þessir klofningsmenn svo ófriðlega, að enn var tekið það ráð, til að forðast klofningu, að láta helztu menn þeirra vera efsta á lista alþýðunnar við kosningarnar. Jafnframt var gerður ýtarlegur málefnasamningur milli flokkanna — og áður en það ráð var tekið að láta hægri mennina skipa efstu sætin á listanum, höfðu þeir lofað því hátíðlega, að þeir skyldu vinna öfluglega að sigri listans og halda gerða sáttmála. — En viti menn — rétt fyrir kjördag lýsa þeir því opinberlega yfir, að þeir ætli að svíkja gerða samninga. Þetta var vitaskuld sú bezta kosningabomba, sem íhaldið í Rvík hefir nokkurntíma komizt yfir.

Að kosningunum loknum voru svo allir samningar við Kommfl. sviknir, og gengið svo langt, að með tilstyrk klofningsmannanna í bæjarstj. voru íhaldsmenn settir í þær trúnaðarstöður, sem kommúnistum bar samkv. samningnum.

Að loknum þessum afreksverkum var Héðni Valdimarssyni vikið úr Alþfl., fyrir þær sakir einar, að hann starfaði með fullri hollustu samkv. fyrirmælum fulltrúaráðs verklýðsfélaganna í Reykjavík og yfirgnæfandi meiri hluta verkalýðsins á landinu. — Þessu næst var Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur, aðalstjórnmálafélag Alþfl, klofið. — Nokkurnveginn samtímis eru gerðir samningar við Framsókn um vinnulöggjöf, sem sniðin er í aðalatriðum eftir vinnulöggjöf Sjálfstfl. og skerðir verkfallsréttinn svo stórkostlega, að verkalýðssamtökin myndu verða gersamlega lömuð, ef þau yrðu að sæta slíkri löggjöf og gætu ekki rönd við reist. — En þetta var hinum ráðandi mönnum í Framsfl. ekki nóg. — Þeir samþ. með tilstyrk íhaldsins lög um þvingunargerðardóm í togaradeilunni, sem var svo alvarlegt hnefahögg framan í verkalýðshreyfinguna, að það var gersamlega ómögulegt fyrir menn, sem enn gerðu síðustu tilraun til að halda sér í það hálmstrá, að þeir væru fulltrúar alþýðunnar, að eiga opinberan þátt í slíkum aðgerðum. Stjórnarsamvinnan var rofin í bili. Og nú hefst næsti þáttur. — Næstum öll verkalýðsfélög á landinn höfðu lýst vantrausti á meiri hluta sambandsstjórnar fyrir framferði hennar. — Yfirgnæfandi meiri hluti hins félagsbundna verkalýðs mótmælti eindregið vinnulöggjafarfrumvarpi Framsóknar og mannanna, sem í blygðunarleysi sinn kalla sig ennþá alþýðuflokk. — Samt var það ráð upp tekið að lýsa stuðningi við hina nýju stjórn, sem var þannig skipuð, að í staðinn fyrir Harald Guðmundsson var settur einn af þeim fáu þingmönnum Framsóknar, sem frekar tilheyrir hægri arminum og virðist vera allmjög ánetjaður stjórn Landsbankans.

Það var ákveðið af þessum brjóstheilu mönnum, sem kinnroðalaust kalla sig alþýðuflokk, að styðja ríkisstj. á grundvelli þeirrar stefnuyfirlýsingar, sem hún gaf. — Og yfirlýsingin var svo hljóðandi, að stjórnin lýsir því yfir, að hún muni halda stefnu sinni óbreyttri, hún muni hrinda í framkvæmd þeim hagsmunamálum sjómanna og verkamanna, sem séu nægilega undirbúin. — En af þessum hagsmunamálum sjómanna og verkamanna var aðeins eitt tilnefnt. Það var vinnulöggjöfin. Vinnulöggjöfin, sem yfirgnæfandi meiri hluti verkalýðsfélaganna hefir mótmælt, og engin dul á það dregin, að samtökin verði að beita til þess öllum styrk sínum að hrinda henni af höndum sér. Þetta var sem sagt hagsmunamálið — verkamannanna og sjómannanna —, sem þótti nægilega vel undirbúið til að hrinda í framkvæmd.

Þetta er það, sem gerzt hefir. — Það er engum vafa undirorpið, að þessi ráð voru ráðin af íhaldinu og afturhaldsöflunum í Framsókn í sameiningu. Þarna hafa verið undirhyggjumenn að verki. — Það var gerð þaulhugsuð áætlun um framkvæmd verksins. Fyrst var hægri foringjum Alþfl. sagt, að þeir yrðu ekki einungis að koma í veg fyrir allt samstarf við Kommfl., heldur yrðu þær að kljúfa sig frá vinstri arminum í Alþfl. Þeir yrðu að kljúfa sinn eiginn flokk. Annars gætu þeir ekki haft áframhaldandi samvinnu við Framsókn. Síðan var þeim sagt, að þeir yrðu að hjálpa til með að lögfesta vinnulöggjöf, sem væri mjög í anda Eggerts Claessens. Annars gætu þeir ekki haft áframhaldandi samstarf við Framsókn. — Þegar þessum þætti var lokið, var þeim sagt, að þeir væru fylgislausir og klofnir og hefðu engan flokk að baki sér — eins og satt var — og nú væri ekki hægt að hafa samvinnu við þá lengur, því flokkurinn þeirra líktist helzt nýju fötunum keisarans þeir væru ekki annað en Haraldur og Stefán Jóhann — hinir landlausu. — Togaradeilan var notuð sem kærkomið tækifæri til að rjúfa samvinnuna. — Þar með er fram kominn spádómur verkakonu nokkurrar í verkakvennafélaginu Framsókn. Á fundi í félaginu talaði þáv. hæstv. atvmrh., Hr. Guðm. — Hann sagði, að verkakonurnar yrðu að samþ. vinnulöggjöf Framsóknar og klofningsmannanna, því að annars yrði stjórnarsamvinnan rofin og Haraldur yrði að fara úr stjórninni. — Verkakonan svaraði, að hún væri nú ansi hrædd um, að það kynni að fara svo, að Haraldur yrði að fara úr stj. samt sem áður, þegar búið væri að nota hann til að koma vinnulöggjöfinni á, svo verkakonurnar sætu eftir með vinnulöggjöfina, en misstu Harald. Þetta hefir nú rætzt að fullu. Og þar með hafði hv. form. Framsfl. og hans menn fengið fram í höfuðatriðum það, sem var tilgangurinn með öllu ráðabrugginu. Gatan var rudd fyrir samvinnu Framsóknar og Sjálfstfl. — Það tókst nú samt ekki að koma þessari samvinnu á nú um sinn. Það strandaði á þeim, sem eru til vinstri í Framsfl. En klofningsmönnunum eru settir þeir kostir, að þeir verði að hjálpa til með að samþ. vinnulöggjöf, þvert ofan í almenn mótmæli verkalýðsfélaganna. Annars vill stj. ekki þiggja stuðning þeirra. Og þeir kostir eru þáðir í auðmýkt.

Það er tiltölulega auðvelt að geta sér til um, hver muni verða næsti leikurinn. — Það á að kalla saman alþýðusambandsþing í haust. Það er fyrirsjáanlegt, að klofningsmenn verða í miklum minni hluta á því þingi. En með lögleysum á að halda eignum Alþfl. og hnupla nafninu.

Hér hefir verið leikið pólitískt tafl. sem er mjög áríðandi, að almenningur glöggvi sig á. Og margir af hægri mönnum Alþfl., sem hafa dansað með í þessum leik, hafa ekki verið annað en óvitapeð í hendi þeirra manna, sem stjórnað hafa taflinu. — Vopnin, sem heitt hefir verið, hafa verið svik og prettir — drengskaparheit, sem gefin voru í dag, voru rofin á morgun o. s. frv. — þetta er pólitískt siðleysi, sem á sér engin fordæmi í íslenzkurn stjórnmálum á siðari árum. — Það er beinlínis pólitísk stigamennska.

Við höfum í hendi sönnunargögn, sem ótvírætt benda til þess, að þessi þokkalegu ráð hafi verið ráðin strax í sumar er leið, í ágústmánuði — á sama tíma, sem samningarnir stóðu yfir við Kommfl. um sameiningu verkalýðsflokkanna — og á sama tíma sem Alþýðubl. eyddi miklu af rúmi sínu til þess að útmála það með miklum fjálgleik, hvílíkt lífsspursmál sameiningin væri. — Enda er það nú viðurkennt í þeim herbúðum, að allt sameiningarskrafið þá hafi verið eintóm hræsni. þar sem því hefir verið lést yfir, að till. hv. 3. þm. Reykv. í Dagsbrún um, að hefja skyldi samninga um sameiningu flokkanna, hafi verið borin fram gegn vilja flokkstj. og í algerðri óþökk hennar, en þetta hefði verið látið óátalið einungis vegna þess, að litið hefði verið á till. sem herbragð.

Ég sagði, að það lægju fyrir sannanir um það, að klofningur Alþfl. hefði verið undirbúinn í sumar — meðan stóð á sameiningarsamningunum við Kommfl. Þetta upplýstist að fullu á aðalfundi alþýðuhúss Reykjavíkur, sem haldinn var s. l. fimmtudag. — Í byrjun ágústmánaðar og nokkru seinna juku nokkrir klofningsleiðtogar hlutafé sitt í alþýðuhúsinu um 40 þús. kr., sem nægði til þess, að þeim væru tryggð yfirráðin yfir húsinu. — Þetta var gert ólöglega og með hinni mestu leynd. — Klofningur Alþfl. og rán á eignum hans var undirbúið í sumar — á sama tíma og sem fjálglegast var talað um sameininguna.

Menn spyrja sem vonlegt er: Hvaðan komu þessir Júdasarpeningar, sem notaðir voru til höfuðs íslenzkum alþýðusamtökum, meðan þau uggðu ekki að sér og ræddu um að sameinast í eina heild? Hvort sem það nú eru innlendir eða erlendir menn, sem hafa lagt til þetta fjármagn. þá er eitt víst, að vald þessara manna yfir íslenzkri verkalýðshreyfingu — vald mannanna, sem lagt hafa til þessa Júdasarpeninga verður aldrei til farsældar fyrir íslenzka alþýðu. Það voru því engin hollráð, sem Herm. Jónasson var að prédika í gær, þegar hann sagði, að undir merki þessara manna myndi íslenzk alþýða sigur vinna.

Þetta er rauði þráðurinn í samsæri afturhaldsins gegn einingu alþýðunnar. En við höfum líka okkar hernaðaráætlun. Og sá er munurinn á okkar afstöðu og andstæðinganna, að við þurfum engu að leyna. Allt launbrugg andstæðinganna verður að fara fram í skugganum, vegna þess að þeir hafa fólkið á móti sér; þar eru brugguð ráðin gegn yfirgnæfandi meiri hl. þjóðarinnar. — Okkar ráð aftur á móti eru ráð alþýðunnar sjálfrar, framkvæmd af alþýðunni sjálfri.

Fyrsta verkefnið er að koma í veg fyrir, að vinnulöggjafarfrv. verði að lögum. Og ef það skyldi verða að lögum, að það komi aldrei til framkvæmda. — Þar næst að skapa þá órjúfandi samheldni, sem skapar okkur sigurinn, þrátt fyrir gerðardóma, í þeim kaupdeilum, sem fyrir dyrum standa, sérstaklega í sambandi við síldarvertíðina. Þar næst að sjá til þess, að á alþýðusambandsþinginn í haust verði alþýðan í svo glæsilegum meiri hluta og klofningsmennirnir í svo ömurlegum minni hl., að það takist að sameina verkalýðshreyfinguna í einn sterkan flokk og eitt öflugt verkalýðssamband — en klofningsmennirnir verði svo rækilega einangraðir, að þeir verði með öllu skaðlausir, ef þeir ekki vilja beygja sig undir meiri hlutann og hyggja á skemmdarverk.

Slík sameining verkalýðsins er fyrsta skilyrði þess, að takast megi raunverulegt samstarf verkamanna og bænda og annara vinnandi manna í landinu, samstarf til djarfra átaka, til að mæta þeim vandræðum, sem framundan eru, til þess að koma sjávarútveginum á heilbrigðan grundvöll, til að framkvæma hagsmunamál bændanna, til að auka atvinnuna, til að gera landið okkar fjárhagslega sjálfstætt, til að endurbæta alþýðutryggingarnar og koma fram öðrum nytjamálum.

Sú stjórn, sem nú situr, er bráðabirgðastjórn — einskonar vandræðastjórn í millibilsástundi stjórnmálanna. Hún getur ekki orðið langlif. En í stjórnartíð hennar mun fara fram örlagarík glíma milli krafta alþýðunnar og afturhaldsaflanna. Og allt veltur á því, hver ber sigur af hólmi í þeim leik.

Ræða hæstv. forsrh. í gærkvöldi var að ýmsu leyti mjög athyglisverð. Hann vill samvinnu Framsfl. og verkalýðshreyfingarinnar með einu litlu skilyrði — þ. e. a. s. með því skilyrði, að hann — eða ef til vill réttara sagt afturhaldið í Framsfl. — fái að ráða stefnu verkalýðshreyfingarinnar. Hann sagði, að þar, sem æsingamenn ráði verkalýðshreyfingunni, þar sé verkalýðurinn réttlaus, en þar, sem hinir hógværu menn fari með völd, þar hafi hann mest réttindi. Með æsingamönnunum átti hann við kommúnista — með hóglátu mönnunum átti hann við sósíaldemókrata og alveg sér í lagi klofningsmennina í Alþfl., þá herra Stefán Jóh. Stefánsson, Jón Axel Pétursson, Ólaf Friðriksson, Guðmund R. Oddsson, Guðmund úr Grindavíkinni og aðra slíka.

Hvað sanna tilvitnanir hæstv. forsrh. í útlönd? — Lítum á staðreyndirnar. Í sovétlýðveldunum, því landinu, þar sem kommúnistar höfðu forystuna í verkalýðshreyfingunni, hefir verkalýðurinn sigrað og leyst af hendi hið mesta stjórnmálaþrekvirki, sem veraldarsagan þekkir.

En í löndunum, þar sem sósialdemókratar hafa farið með forystuna, eins og í Þýzkalandi, í Austurríki og á Ítalíu, þar hefir fasisminn sigrað, — verkalýðshreyfingin er þar lögð í rústir, menningin og réttindi fólksins eru þar troðin undir fótum. Sömu örlög vofa yfir Norðurlöndum, ef ekki verður rönd við reist. — Svona hafa hollráð Hermanns Jónassonar reynzt erlendis. Og hvernig hafa þau reynzt hér? Hér á landi hafa hægri foringjar Alþfl. beinlínis hlýtt fyrirskipunum manna í Framsfl. og erlendra manna, sem hæstv. forsrh. hefir gert að dýrlingum sínum. Ég hefi í fyrri hluta ræðu minnar lýst því að nokkru, hverskonar blessun fyrir verkalýðshreyfinguna þessi stefna hefir fært. Af völdum þessarar stefnu er verkalýðshreyfingin klofin og lömuð og liggur í sárum. Það situr því sízt á Hermanni Jónassyni að tala í kennimannlegum tón, rétt eins og hann talaði til verkalýðsins í nafni sjálfs himnaföðurins.

Nei, íslenzkur verkalýður hefir nú fengið svo dýrkeypta reynslu, að hann veit, að honum er það ekki hollt að láta Hermann Jónasson — og því síður Jónas frá Hriflu — segja sér fyrir verkum. Það, sem fyrir liggur, er að lækna verkalýðshreyfinguna af þeim sárum, sem skjólstæðingar Hermanns Jónassonar hafa veitt henni.

Og í krafti þeirrar reynslu, sem verkalýðssamtökin hafa nú öðlazt, munu þau rísa upp aftur sameinuð, voldug og sterk, og það mun verða hlutverk þeirra að sameina alla hina vinnandi þjóð Íslands í eina fylkingu á þeim örlagaríku tímum, sem nú eru framundan landi og þjóð.