21.03.1938
Efri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (2899)

14. mál, mjólkurverð

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Þegar þessi till. var rædd hér seinast, var henni vísað til landbn., sem tók málið til meðferðar. Nú liggur fyrir álit hennar í tvennu lagi, á þskj. 81 og 83. Á þskj. 81 er nál. það, sem ég og hv. 6. landsk. höfum skilað, en áður en ég sný mér að því, get ég ekki látið alveg hjá líða að drepa á nokkur atriði, sem fram komu í sambandi við þetta mál, er það var til umr. hér í deildinni. Það er nú svo langt liðið síðan, að ég hefi gleymt nokkru af því, sem ég þyrfti að svara, en nokkur einstök atriði þarf ég að minnast á. Ég skal fyrst drepa á það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, og aðallega tvö atriði í hans ræðu. Skal ég játa ánægju mína yfir því, að mér tókst að sannfæra hann um það, að það hefði verið rétt að hækka mjólkina um 2 aura lítrann þann 13. febr. Tel ég mér það mjög til inntekta, því við munum hér í hv. d., hver skoðun hv. 1. þm. Reykv. var á þinginu fyrir jólin. En það er gott, þegar menn bæta ráð sitt, og gleðst ég af sinnaskiptum hv. þm.

Þetta er mikill fengur fyrir mig og bendir á, hvað ég sé rökviss í málum, og mikil gleði er alltaf, þegar menn snúast frá villu síns vegar; það þekkir hv. 1. þm. Reykv. úr fræðum sínum. Hv. 1. þm. Reykv., sem talaði fyrir hönd flokks sjálfstæðismanna, þess hluta landsmanna, sem alltaf hefir haldið því fram, að það, sem fyrst bæri að keppa að, væri fullt persónufrelsi einstaklinga þjóðfélagsins, og þar greindi þá mest á við aðra stjórnmálaflokka. Menn yrðu að hafa frjálst olnbogarúm og geta notið sín vel. Nú skeður það undarlega, að þessir þm. sjá enga leið út úr mjólkurmálinu aðra en þá, að banna framleiðendum, sem búa fyrir austan Þjórsá og ef til vill fyrir austan Ölfusá og uppi í Borgarfirði, að selja mjólk eða mjólkurafurðir á markaði í Reykjavík, svo að hinir, er nær búa, geti setið einir að þessum markaði.

Það eru mjög fáir menn, sem geta fundið samræmi í því, að þeir menn, sem sjá ekki aðra leið út úr fjárhagsvandræðunum en að einstaklingar eigi að flytja hingað óhindrað vörur frá öðrum löndum upp á krít, þótt enginn gjaldeyrir sé til fyrir þær, skuli nú ekki vilja leyfa mönnum að selja mjólk til Rvíkur, ef þeir búa fyrir austan Ölfusá. Ég dreg þetta fram, svo að það komi skýrt í ljós, og vildi heyra, hvernig þetta samrýmist stefnu Sjálfstfl. almennt, er vill hafa frjálsan athafnarétt, að takmarka þannig mjólkursöluna hingað við svæðið kringum Reykjavík. Hann vill með því tryggja, að ekki komi þangað meiri mjólk en hægt sé að selja.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að hv. 2. landsk. talaði hér af mikilli sannfæringu um það, hvað húsmæður hér í bænum ættu við erfið kjör að búa og erfiðari en lengi áður, en þá taldi hv. 2. landsk. allt ódýrara. Hún talaði fyrir hönd Húsmæðrafélags Reykjavíkur. Það er ekki nema eðlilegt og gleðilegt til þess að vita, að Húsmæðrafélagið skyldi hafa mikinn áhuga á almennu vöruverði í bænum; en við skulum athuga ofurlítið, hvernig frúrnar þekkjast af verkunum. Það kom fyrir í vetur, að Hagtíðindin skýrðu frá því, að um mánaðamótin október og nóv. hafi orðið sú breyt. á vöruverðinu hér í bænum, að allar þarfir 5 manna fjölskyldu hefðu lækkað um 4%. Hagtíðindin — hið óhlutdræga tímarit — segja, að þetta væri af því, að hér hefði verið stofnað kaupfélag, og kaupmenn hefðu til samkeppni við það lækkað margar vörur frá því, sem áður var, á sama tíma sem aðfluttar vörur voru dýrari í innkaupum. Það hefði nú mátt ætla, að Húsmæðrafélagið hefði gert fundarsamþykkt til að láta í ljós ánægju sína yfir batnandi aðstöðu húsmæðra að fá sínar vörur ódýrari en áður. En nú er fróðlegt að sjá, hvort það voru hinar sömu húsmæður í stjórn þessa félags og í kaupfélaginu, sem hafði orkað miklu um lækkun vöruverðsins. Ég forvitnaðist um það, hvaða húsmæður það voru, sem héldu fagnað í Oddfellowhöllinni, þegar Húsmæðrafélagið bauð mönnum sínum á skemmtun þar. En það voru ekki hinar sömu húsmæður, sem voru aðalmennirnir í Kron. Þær höfðu því ekki lagt neinn skerf til þess að koma þessu fram. En ef bændur fengju ofurlítið meira fyrir sína mjólk, kom strax fram óánægja með það. Kemur mér til hugar, að sú umhyggja fyrir vöruverðinu, sem kom fyrir stuttu fram hjá hv. 2. landsk., sé ekki alveg eins einlæg og af er látið. Hér hefir líklega legið eitthvað annað á bak við en að samþ. að lækka dýrtíðina og fá vöruverðið sem mest niður í bænum.

Hv. 1. landsk. talaði um, að hann efaði það, að ég segði rétt frá því, að mjög erfitt væri að auka sölu á mjólk til bæjarins, úr því að hún væri orðin hálfur lítri á mann að meðaltali. Hann tók til dæmis, að í Svíþjóð væri mjólkurneyzlan 245 lítrar á mann. En Svíþjóð er ekki einn bær. Það, sem mestu máli skiptir, er, hve mikil mjólkurneyzlan er þar í stærstu bæjunum, t. d. Stokkhólmi. Ef hann vill gera svo vel og grennslast eftir því í heimildum, verður niðurstaðan sú, að í Svíþjóð nær mjólkurneyzlan í bæjunum hvergi hálfum lítra á mann, að m. k. ekki til ársins 1936. En á Þýzkalandi getur hann fundið 3 bæi, sem hafa jafnmikla mjólkurneyzlu og Reykjavík, og tvo, sem eru þar fyrir ofan. En hvergi annarsstaðar í nágrannalöndum okkar er mjólkurneyzlan svo mikil til ársins 1936. Þó er alls eigi víst nema hún geti orðið meiri hér á landi en nú er. Það breytir allmiklu, að hér eru önnur skilyrði en erlendis, þar sem mjólk er seld, og því líkur til, að hér væri drukkin meiri mjólk.

Á Akureyri var hún lækkuð ekki alls fyrir löngu, en það hafði engin áhrif á neyzluna í bænum. Hér var hún hækkuð þann 13. febrúar. Dagana frá 1. til 13. febr. var mjólkursalan hingað til bæjarins 15088 lítrar að meðaltali á dag. Dagana 13. febr. til mánaðamóta 15185 lítrar, eða hér um bil 100 lítrum hærri. Dagana, sem af eru þessum mánuði, er hún líka ofurlítið hærri en síðustu dagana í febrúar. Það er því ekki sjáanlegt, að þessi hækkun mjólkurverðsins hér hafi haft nokkur áhrif á heildarsöluna í bæinn. Hún hefir verið mjög lík og áður, heldur meiri sala á heilflöskum og í lausri vigt, en minni á hálfflöskum. — Ég hygg ekki, að það hafi verið annað, sem ég hefi ástæðu til að benda á í ræðu hv. 2. landsk.

Viðvíkjandi ræðu hv. 1. landsk. skal ég nú vísa til till. og álits meiri hl. landbn. hvað hana snertir. Till. er í 3 liðum, og við hana er brtt. frá hv. 2. landsk. Fyrsti liður till. fjallar um það, að hlutast væri til um, að neyzlumjólk væri hægt að lækka. Ég benti á það í hinni fyrri umr., að það stæði ekki í valdi landsstj. að gera þetta. Það yrði að gerast með því að breyta um þá menn, sem eru í mjólkurverðlagsnefnd. 1. landsk. mun hafa hugsað sem svo, að ef þeir væru ekki á þeirri skoðun, væri rétt að skipta um menn. En það er ekki á valdi ríkisstj. að gera það, nema aðeins um einn þeirra. Tveir hinir eru kjörnir af bæjarstj. Reykjavíkur, og tveir kjörnir af mjólkursölunefnd, sem kemur fram sem fulltrúi bænda. Það verður því að breyta því, á hvern hátt menn eru kosnir í mjólkurverðlagsnefnd, og til þess þarf lagabreytingu. Ef ætlazt er til þess, að ríkisstj. grípi þar inn í, verður að flytja brtt. á mjólkurlögunum, svo að aðrir menn geti komið þar til greina en nú eru í n. Hinsvegar viðurkennum við það, ég og hv. 6. landsk., sem höfum skrifað nöfn okkar undir nál. meiri hl., að það sé réttmætt að reyna að lækka neyzlumjólk. Annað mál er það, hve mikið verð bændur fá fyrir sína mjólk, og er það mjög veigamikið atriði. Þess vegna er ekki nema sanngjarnt, að ríkisstj. athugi, hvernig menn geti hlutazt til um það, að þarna náist sem mest réttlæti, bæði frá sjónarmiði þeirra, er þurfa að neyta mjólkur, að þeir þurfi ekki að búa við neitt okur, og frá sjónarmiði hinna, er selja mjólk, að þeir fái sanngjarnt verð fyrir framleiðslu sína. Er því lagt til að vísa málinu til stj. Ég skal í því sambandi benda á, að það megi taka til athugunar, hvort ekki sé rétt að gera verðbreyt. á mjólkurafurðum miklu oftar en gert hefir verið. Það hefir ekki verið gert síðan núv. mjólkurskipulag komst á, fyrr en nú um miðjan febrúar. Hér ber að athuga, að það kemur alloft fyrir, eins og um tíma síðastl. haust, að ekki var hægt af öllu þessu svæði að fullnægja mjólkurþörfinni í Reykjavík. Hingað var fluttur rjómi norðan frá Akureyri, og smjör einnig langt að. Þess vegna ber að athuga, hvort ekki sé rétt að lækka mjólkina á þeim tímum, þegar mikið er af henni í næsta nágrenni Reykjavíkur, og því vinna mjólkurvörur úr hlutfallslega miklum hluta mjólkurinnar. Þess vegna ber ríkisstj. að athuga, hvort ekki sé rétt að leggja fyrir þær nefndir, sem að því starfa, að gera miklu oftar verðbreytingar á mjólkinni en gert er.

Annar liður till. fer fram á það, að látin sé fara fram rannsókn á því, hvað heppilegast sé að framleiða hér í nágrenni Reykjavíkur og hvað megi gera til að lækka framleiðslukostnaðinn. Rannsókn þessi heyrir miklu frekar undir búnaðarfélagsskap bænda heldur en ríkisvaldið. Það eru árlega veittir styrkir til búnaðarfélagsskaparins, til að vinna að sérhagsmunamálum bænda. Þetta er hagsmunamál þjóðarinnar, en allra fyrst hagsmunamál bændastéttarinnar, og heyrir frekar til verkahrings búnaðarfélaganna en undir ríkisvaldið. Þar að auki er æfinlega verið að reyna að gera ýmsar athuganir í þessa átt, en ef til vill mætti þó gera meira en hingað til hefir verið gert. Við leggjum líka til, að því sé vísað til stj. að ýta undir búnaðarfélagsskapinn til að gera eins mikið og unnt er að því að rannsaka, hvað megi gera til að lækka framleiðslukostnað við framleiðslu landbúnaðarvara og auka verkaskiptingu milli bænda. Sumar sveitir landsins eru miklu heppilegri til einnar framleiðslu, aðrar til annarar. Viðskiptin færast í eðlilegra horf, og enda þótt mikill meiri hluti bænda hafi bæði kýr og sauðfé, þá eru samt nú til bændur, sem ekki hafa neinar kýr, og aðrir, sem ekki hafa neitt sauðfé. Bændur hafa fengið aukin skilyrði til viðskipta með bættum samgöngum, og geta þá fremur unnið að þeirri framleiðslu á hverjum stað, sem bezt borgar sig. Er það verkefni búreikningahaldsins, sem stutt hefir verið af Búnaðarfél. Ísl. og ríkisstj., að sýna bændum á ýmsum jörðum, að aðstaðan sé misjöfn til ýmsrar framleiðslu, og leggja rækt við ýmsar greinar búnaðar, allt eftir staðháttum á hverjum stað. Smám saman mun komast á meiri verkaskipting í framleiðslunni hjá bændum, en hún þarf að koma frá þeim sjálfum, en ekki ofan frá með lögboði. Við leggjum því til að vísa öðrum lið till. líka til stj. og að hún í samráði við stjórn búnaðarfélagsskaparins reyndi að ná sem fyllstum og fullkomnustum árangri af þeim rannsóknum og athugunum, sem gerðar eru, og styðja að aukinni verkaskiptingu meðal bænda.

3. liður till. fer fram á það, að láta athuga, hvað heppilegast sé að gera til þess að auka mjólkurneyzluna í Reykjavík. Við flm. erum sammála um það, og allir, sem um þetta mál hafa talað, að það sé mjög mikilsvert, ekki eingöngu fyrir heilbrigði þeirra manna, sem eiga að neyta mjólkurinnar, heldur og líka fyrir bændur, sem mjólkina selja, að sem mest af mjólk seljist sem neyzlumjólk, og neyzlumjólkin verði þess vegna aukin. En nú er svo komið, að sala á neyzlumjólk er alveg í höndum einnar n. annarsvegar og að mjólkurafurðir eru að miklu leyti í höndum hennar líka, og við væntum, að það verði alveg í höndum hennar, því það þarf að vera og er stefnt að því. Og þessi n. hefir það til athugunar, hvernig þetta verði gert, og þá líka, hvort hægt væri að stuðla að aukinni mjólkurneyzlu. Út af því, sem hv. 2. landsk. var að tala um, að hafa hér fleiri mjólkurtegundir, þá teljum við líka, að þessum lið beri að vísa til ríkisstj. Menn eiga að líta á það, að þeir, sem hafa framkvæmdirnar — þ. e. a. s. mjólkursölun. — gera sitt ýtrasta til að athuga möguleikana og nota þá án þess að telja verði, að ríkisstj. sem slík geti gripið inn í og farið sjálf að ganga á milli og bjóða mjólkina til sölu. Það er ekki í hennar verkahring. Við leggjum þess vegna til, að till. í heild sé vísað til ríkisstj. til athugunar. — Ég hygg, að það sé ekki ástæða til að taka meira fram nú; minni hl. mun gera grein fyrir sínum till., og fæ ég þá væntanlega tíma til þess seinna að tala um þær. En í sambandi við brtt. á þskj. 28, frá hv. 2. landsk., skal ég í viðbót við það, sem ég sagði og sem er innifalið í 3. lið í nál. okkar meirihlutamanna, benda á það að eftir því, sem ég veit bezt, er hér alltaf til sölu í bænum bæði undanrenna og áfir, en það mun ekki vera í nærri öllum búðum. Og þegar við lítum á það, að yfirleitt hefir verið reynt að haga því svo til, að mjólk, sem kemur úr næsta nágrenni, sé seld sem neyzlumjólk, og undanrennan og áfirnar verða því að koma langt að, þaðan sem mjólkin er unnin, og með tiltölulega mjög dýrum flutningi, miðað við verðmæti, þá er það vorkunnarmál, þótt ekki sé tekið meira en reynslan hefir sýnt, að eftirspurnin er fyrir; þegar meira en helmingur af verði áfa og undanrennu, sem þarf að sækja austur fyrir fjall og upp í Borgarnes, fer í flutningskostnað. En hér er ekki hægt að vinna úr öðru en því, sem ekki selst upp, og því tilfellst í bænum lítið af áfum og undanrennu. En þó ekki sé hægt að fá mikið af þessum vörum, þá eru þær til í ýmsum búðum og alltaf hægt að hringja í samsöluna. — Hv. 2. landsk. var líka að tala um, að það vantaði barnamjólk, ógerilsneydda. Eftir því, sem ég bezt veit, er þessi mjólk líka alltaf til og á flöskum, og menn geta alltaf fengið hana. — Þá var hv. þm. að tala um það líka, að það mætti ekki selja mjólk, sem væri mjög slæm. Það er víst fylgt þeirri reglu á mjólkurmarkaðinum síðan mjólkursölunefnd tók til starfa, að selja ekki yfirleitt þá mjólk, sem ekki getur staðizt við flokkun að vera í fyrsta eða öðrum flokki. Sem neyzlumjólk er sú mjólk aldrei seld, sem kemur í 3., 4. og 5. flokk. Þess vegna er þetta, sem hv. 2. landsk. var að tala um, nú þegar að nokkru leyti framkvæmt, þó að kannske megi athuga, hvort ekki megi framkvæma það fullkomnar en gert er. Og það er ætlazt til, að það sé gert með því að vísa því til ríkisstj. og hún hlutist til um, að mjólkursölun. athugi þetta sem bezt og fullkomnast.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar að sinni. En ég geri ráð fyrir því, eftir að minni hl. hefir talað. að ég þurfi að segja eitthvað seinna.