29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í D-deild Alþingistíðinda. (2911)

14. mál, mjólkurverð

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Það er svo langt liðið síðan seinustu umr. fóru fram, að ég, sem hafði skrifað lítið hjá mér, er sjálfsagt búinn að gleyma mörgu af því, sem þá var sagt. Ræðu hv. 11. landsk. held ég, að ég þurfi engu að svara. Hann talaði um reikninga mjólkursölunefndar, og virtist hafa lesið þá líkt og ákveðin persóna (sem hv. 1. þm. Reykv. kannske þekkir bezt í deildinni) er talin lesa biblíuna. Ég get ómögulega verið að leiðrétta þann lestur, býst ekki við, að það hafi neina þýðingu. Aftur á móti get ég ekki komizt hjá að svara því, sem hv. þm. Hafnf. sagði. Hann virtist halda fram, að það væru mikil óheilindi hjá mér, og Framsfl. líklega öllum, í þessu máli. Og hann vildi halda því fram, að breyt. á l. frá í vetur væri orsökin til þessarar mjólkurhækkunar, breyt. hefði komið á stað þessum óskum manna hér í nágrenninu, sem ég skýrði frá áður, um að hækka mjólkina. Sama virtist koma fram hjá hv. 11. landsk., og nú síðast hjá hv. 3. landsk. Og meira að segja, hv. 11. landsk. vitnar í sínu nál. í l. og talar um mjólkurverðiagsnefnd, sem hefði verið skipuð eftir þessari lagabreyt., sem alls ekki var, heldur eftir l. eins og þau voru, og átti ekkert skylt við lagabreyt. Til þess að sýna hv. þm. Hafnf. enn á ný, að þetta er misskilningur, skal ég benda honum á, að mjólkursölunefnd barst bréf þ. 9. okt., þ. e. daginn áður en Alþingi kom saman, frá Mjólkursamlagi Kjalarnesþings, þar sem segir: „Þar sem fyrirsjáanlegt er, að framundan eru mjög erfiðir tímar fyrir bændur á samlagssvæðinu vegna hækkandi verðlags á öllum aðfluttum vörum, hærra kaupgjalds og mjög slæms og lítils heyfengs, og þar af leiðandi óeðlilega mikil fóðurbætisgjöf óumflýjanleg til að forðast niðurskurð á búpeningi og stórminnkandi mjólkurframleiðsla, þá skorar fundurinn á mjólkurverðlagsnefnd að hækka útsöluverð mjólkur nú þegar úr 38 aurum í 43 aura pr. lítra, og hlutfallslega á öðrum mjólkurafurðum, enda komi sú verðhækkun öll óskipt til framleiðenda“. Það var því áður en þingið kom saman, sem ræddi og samþykkti þessa lagabreyt., sem þessi áskorun var send. Og svo er verið að tala um, að hækkunin hafi verið gerð vegna laganna, og að í skjóli þeirra sé verið að leika einhvern skollaleik. Þarna getur hv. þm. séð, að krafan er komin fram af allt annari ástæðu.

Í sambandi við þetta vil ég víkja nokkuð að sama hugsanagangi hv. sessunauts míns, 3. landsk. Hann sagði í sambandi við mjólkurhækkunina, að eitthvað annað væri uppi á teningnum hjá okkur þegar sjómenn ættu í hlut eða einhverjir aðrir en bændur; kaup sjómanna vildum við ekki hækka. Nú skulum við bara líta á, hvernig þetta er. Það er viðurkennt bæði af honum og öðrum hér í hv. deild, að það hafi verið mjög svipuð dýrtíð 1929 og 1930 og sé nú. Og hvaða verð fengu bændur hér í nágrenninu fyrir mjólkina 1929 og 1930? 1929 voru það 32,85 aurar að meðaltali fyrir mjólkurlítrann, 1930 33,46 aurar að meðaltali, 1931 27,67 aurar, 1932 24,35 aurar, 1933 24,23, 1934 24,86 aurar. Þetta fengu þeir í raun og veru að meðaltali á verðlagssvæði Mjólkurfélags Reykjavíkur. Hvað er það, sem þarna verður? Lækkun mjólkurverðsins í útsölu og eins til bænda um leið og allt annað lækkar úr 252 og niður í 225. Svo fer þetta aftur upp á við, og nú er vöruverð hér um bil sama og var 1929 og 1930. Og kjör sjómanna voru óbreytt frá 1929, utan einhverrar smábreyt., sem gerð var 1935 eða 1934. En eftir að mjólkurskipulagið kom til framkvæmda 1935, hefir mjólkin lækkað í verði til neytenda um 2 aura, en bændur fá einum eyri meira til sín. Þarna var einn eyrir til bænda móti tveim aurum til neytenda. Þetta var ekki þakkað, og virtist þykja lítið í þessa lækkun varið. Meira að segja var talað um mjólkurverkfall og ýmislegt í sambandi við það. Nú aftur á móti, þegar allt er komið í sama horf og var 1929, þá er aftur hækkað útsöluverð um 2 aura, sem gefur eitthvað meira til bænda. En það er ákaflega langt frá því, að það gefi þeim aftur kaupið, sem þeir fengu 1929 og 1930, þegar þeir fengu 32,85 aura og 33,46 aura, þegar mjólkin var seld í bænum á 50–55 aura. Ég hugsa því, að ef hv. þm. lítur á þessar tölur, þá sjái hann, að hefði kaup sjómanna átt að hreyfast á sama hátt og kaup bænda að því er mjólk snertir, þá hefði það átt að lækka verulega 1934 til þess að hækka eitthvað nú, þar sem mjólkin lækkaði til bænda nær um einn þriðja úr 33 aurum, meðan kaap sjómanna stóð í stað; og nú er mjólkurhækkunin ekki nema lítil, þegar hitt er komið í sama horf og áður. Þess vegna er þetta ekki sambærilegt. Og hækkunin nú stendur ekki að neinu leyti í sambandi við mjólkurlögin út af fyrir sig, heldur í sambandi við, að allt hækkar. Þessi litla hækkun, sem ekki er nema partur af hinni almennu hækkun, sem er 11–12%, það er nú kreppti hnefinn, sem hv. 11. landsk. talaði um. Nei, þetta er enginn krepptur hnefi, heldur ósköp vingjarnlegt handtak, sem tekið var af fjöldanum eins og við var að búast, en ekki svarað með neinum krepptum hnefa.

Þá var hv. þm. Hafnf. að tala um það, hvernig hafi verið þegar nefndin ákvað verðhækkunina, og vítti réttilega, hvað sér hefði verið seint boðaður fyrri fundurinn, sem haldinn var, með símskeyti sama dag. En um seinni fundinn fékk hann að vita með fyrirvara, og var ekkert í vegi, að hann gæti komið þá, hefði hann kært sig sérstaklega um. En það segir sig nokkurn veginn sjálft, að hér er um að ræða tvær nefndir, aðra, sem ákveður útsöluverð í Reykjavík, og hina, sem ákveður útsöluverð í Hafnarfirði. Þrír menn eru þeir sömu í báðum nefndunum, formaður og fulltrúi framleiðenda. En svo komu frá bæjarstjórn Reykjavíkur tveir menn og aðrir tveir frá bæjarstjórn Hafnarfjarðar, þegar verðið var ákveðið fyrir Hafnarfjörð. Þegar búið var að ákveða verðið fyrir Reykjavík og þeir þrír menn, sem voru í nefndunum báðum, voru sammála, þá er það rétt, að ég sagði við hv. þm., þegar hann spurði, hvort það væri mikils varðandi, að hann kæmi, að það hefði litla þýðingu, því að þótt Hafnfirðingarnir vildu annað verð í Hafnarfirði, þá myndu hinir þrír menn, sem búnir voru að samþ. verðlagið í Reykjavík, enga breyt. gera. Þetta sagði ég með góðri samvizku, að það skipti engu máli, hvort hann kæmi á fundinn, og ég viðurkenni fullkomlega að hafa sagt það.

Ég tel mig nú hafa sýnt hv. þm. Hafnfj. það, og sömuleiðis hv. 3. landsk., að það er ekki lagabreyt. frá síðasta þingi, sem hefir skapað þessa mjólkurhækkun, heldur eru það fyrst og fremst kröfur bænda, sem hafa verið rannsakaðar og fundnar að hafa við réttmæt rök að styðjast. Kröfurnar eru komnar fram áður en síðasta þing var sett og áður en farið var að hreyfa við nokkrum breyt. á mjólkurl. Í öðru lagi hefi ég sýnt hv. 3. landsk., og hv. 11. landsk. líka, vona ég, að mjólkin hefir lækkað til bænda um hér um bil einn þriðja frá því, sem var, og á meðan var kaup sjómanna, sem alltaf er verið að bera saman, í sama horfi og það var í vetur áður en samningum var sagt upp. síðan hefir mjólkin aftur hækkað um einn sjötta af því verði, eða varla það.

Hv. 2. landsk. þarf ég ekki að svara. Hv. þm. vildi sannfæra mig um það, að það væri ákaflega einlægur hugur Húsmæðrafélagsins í Reykjavík að vinna að því, að öll dýrtíð hér í bænum mætti fara minnkandi. Ég vona, að þessi einlægi hugur verði nú til þess, að t. d. þessar góðu frúr vinni kröftuglega að því að auka viðskiptin við KRON, sem að dómi Hagtíðindanna hefir lækkað verðlag á lífsnauðsynjum að meðaltali um 4%, og að dómi ýmissa annara meira, og að þær beiti sér duglega fyrir auknum viðskiptum við slíka stofnun, svo að hún geti lækkað verðið enn meira, svo að hægt sé að taka aftur vel í taumana, ef með þarf, eins og s. l. haust út af okri kolasalanna. Þá vona ég, að þessar húsmæður standi með þeim, sem vilja lækka dýrtíðina, og styðji þá duglega að verki, en kaupi ekki bara hjá hinum. Ég vona ennfremur, að næst þegar verður mjólkurlækkun og tímarnir breytast niður á við, þá svari blessaðar húsmæðurnar ekki með því að gera mjólkurverkfall og hætti að drekka mjólk, heldur svari með því að kaupa meiri mjólk heldur en þær hafa áður gert, eða hegði sér öfugt við það, sem þær gerðu 1934.

Ég skal hér leiðrétta atriði frá fyrri ræðu minni viðvíkjandi mjólkurneyzlu erlendis. Eftir nýkomnum norskum skýrslum hefir heppnazt á árinu 1936 og aftur 1937 að koma neyzlunni í Oslo upp yfir 1/2 lítra á mann. Varð hún milli 0,5 og 0,6 lítra, og er það fyrsti bær á Norðurlöndum, sem kemst svo hátt, og vannst þetta fyrir ákaflega öfluga útbreiðslustarfsemi og auglýsingar. Af því að ég sagði, að enginn bær á Norðurlöndum seldi meira en 1/2 lítra á mann, þykir mér hlýða að láta þessa leiðréttingu koma fram.