29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í D-deild Alþingistíðinda. (2913)

14. mál, mjólkurverð

*Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson):

Ýmislegt hefir komið fram í fyrri ræðum, bæði hjá hv. þm. Hafnf. og hæstv. forsrh., sem ég kannske hefði viljað svara, en þar sem svo langt er um liðið, þá held ég, að ég sleppi því nú. En nokkuð af því kom aftur fram hjá hv. 1. þm. N.-M., nefnilega sá málflutningur, að formælendur mjólkurhækkunarinnar halda fram, að við með mjólkurlækkuninni séum að ráðast á kaup bænda. Þetta er mesti misskilningur. Hv. 1. þm. N.-M. ætti að vera það manna ljósast, að sú meinsemd, sem þarf að uppræta, er það, að vinnslumjólk aukist. Ef það tekst að auka neyzlumjólk og minnka vinnslumjólk, þá er það víst, að slíkt gefur bændum betri árangur heldur en það fyrirkomulag, sem nú er. Það er einmitt þetta, sem er aðalmeinið, að taka verður svo mikinn skatt af neyzlumjólkinni til að bæta upp vinnslumjólkina í mjólkurbúunum, sérstaklega þá mjólk, sem er unnin í osta, eins og reikningar samsölunnar bera greinilega með sér. Og það eru miklu sterkari líkur fyrir okkar máli en hans, — að það sé hægt að auka mjólkurneyzluna í bæjum án þess að hafa áhrif á vinnslumjólkina. Þá fengju bændur hærra verð heim fyrir sína mjólk en nú með því að hækka mjólkurverðið. Okkar till. beinist því einmitt í þá átt að auka kaup bænda, en ekki skerða. Hv. 1. þm. N.-M. má ekki einblína á tölur á pappírnum. Hann verður að gera sér grein fyrir, hvað fram er að fara í raun og veru. Bændur í nærsveitunum fá ekki neina hækkun, þó að jafnvel þessi hækkun sé orðin til neytenda, heldur mun hún verða notuð til að greiða syndirnar frá 1936. En með því að auka vinnslumjólk mun verða dregið úr sölu neyzlumjólkur. Þessa staðreynd verður að horfast í augu við, en það dugir ekki að einblína á einhverjar tölur á pappírnum. Það er þetta, sem ég kallaði hnefahögg framan í vilja neytenda í bæjunum til að leita samstarfs við framleiðendur, þegar mjólkin er hækkuð í verði, svo að hún verður eðlilega eitthvað minna keypt; og gæti slíkt einnig orðið til þess a. m. k. að vekja andúð þeirra, sem mest hafa stutt Framsfl. og bændur að þessu skipulagi. Ég veit, að hv. 1. þm. N.-M. skilur, að sá árangur, sem samsalan hefir náð, hefði ekki náðst nema fyrir velvilja neytenda í Reykjavík. Og ég veit hann hlýtur líka að skilja, að þegar við bendum á leiðina til þess, að bændur fái meira með lækkuðu verði og aukinni sölu, þá sé það skylda hans og annara, sem vilja bændum vel í þessu máli og vilja samstarf framleiðenda og neytenda, að taka þá í hina útréttu hönd og gera það, sem í hans valdi stendur, til að auka samvinnuna, en blína ekki á einhverja 2 aura á pappírnum, sem raunverulega koma ekki til framleiðenda.

Vegna ummæla hv. 1. þm. Reykv. út af þessum „sveitarflutningi“, sem ég gat um, vil ég taka fram, að þótt ég viðhefði nú þessi orð, þá var ekki meining mín að lítilsvirða hv. 6. landsk. En ég vil taka það fram, eins og hv. 3. landsk. gerði, að þar stóð öðruvísi á en um Jón sál. Baldvinsson, því að hv. 6. landsk. var tekinn úr sínu örugga sæti til að rýma fyrir manni úr öðrum flokki. Allt annað er, þegar þm. flytur sig milli kjördæma fyrir sinn flokk eingöngu. Mér varð nú á að segja „sveitarflutningur“, en það var alls ekki meiningin að tala um þurfamenn í því sambandi, þó að segja mætti með nokkrum rökum, að sá, er sætið fékk, hafi orðið þurfamaður Sjálfstfl. í þessum kosningum.

Ég vil svo að endingu, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp till., sem samþ. var á aðalfundi kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis. Hún sýnir, hversu mikinn vilja neytendur í bænum hafa til þess að leita samstarfs við framleiðendur og reyna að finna leiðir til þess að framleiðsla bænda borgi sig, en að þeir selji þessa góðu og hollu fæðu við sem vægustu verði. Till. hljóðar svo: „Aðalfundur KRON felur félagsstjórninni að halda áfram athugunum sínum á möguleikum fyrir því, að unnt sé með aukinni mjólkurneyzlu að lækka mjólkurverðið í Reykjavík og nágrenni án tjóns fyrir framleiðendur mjólkurinnar. Komi það í ljós, skorar fundurinn á félagsstjórnina að leita samkomulags við mjólkursamsöluna um lækkun mjólkurverðsins, gegn því að kaupfélagið vinni að því meðal meðlima sinna og annara neytenda, að þeir auki við sig neyzlu mjólkur og mjólkurafurða. Telur fundurinn, að kaupfélagið eigi í þessari baráttu sinni fyrir lækkun mjólkurverðsins að leita samvinnu við alla aðra fulltrúa neytenda og aðra þá, sem áhuga hafa á þessari verðlækkun“.

Ég vildi jafnframt beina því til hv. 2. landsk., að beita sér fyrir því í Húsmæðrafélaginu, að mjólkurneyzla aukist, en að það félag láti ekki í té samskonar hjálp og það að sumu leyti beitti sér fyrir árið 1935.