29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í D-deild Alþingistíðinda. (2914)

14. mál, mjólkurverð

*Magnús Jónsson:

Ég vildi aðeins bera af mér þær sakir, sem á mig hafa verið bornar undir þessum umr. alveg að tilefnislausu, að ég hefði farið óvirðingarorðum um hinn látna form. Alþfl., sem nú liggur á líkbörunum. Slíkt er vitanlega hin mesta fjarstæða. Það, sem ég sagði, var aðeins það, að það væri engin óvirðing, þó að hann hefði flutt sig frá einn kjördæmi í annað og staðið þar í kosningabaráttunni, sem mest var þörfin fyrir flokkinn. Að í þessum ummælum mínum geti falizt nokkur óvirðing við hinn látna foringja, er fjarri öllu lagi. Enda er slíkt svo fjarri mér sem frekast getur verið, því að það var betra á milli okkar en svo, að mér gæti dottið nokkuð það í hug, sem gæti orðið til þess að lítilsvirða minningu þessa mæta manns, hvað þá meira. Hitt mun rétt, að Alþfl. hefir ekki öðrum jafngóðum manni á að skipa, og er því ómetanlegur skaði fyrir flokkinn, að hans skyldi ekki njóta lengur við. Taktleysið var því hjá 11. landsk., en ekki mér, með því að ætla að reyna að koma þeirri sneið, sem hann og aðrir alþýðuflokksmenn áttu að fá, yfir á hinn látna flokksmann þeirra. Ég segi því bara: Taki þeir sneið, sem eiga.

Hv. 1. þm. N.-M. og hv. 3. landsk. skal ég fullvissa um það, að mjólkurhækkunin í vetur verður ekki síðasta mjólkurhækkunin þeirra félaga. Það er hlutfallið á milli mjólkurframleiðslunnar og neyzlumjólkurinnar, sem verður að vera í réttu horfi, til þess að hægt sé að halda mjólkurverðinu niðri, alveg eins og hv. 11. landsk. tók réttilega fram. En það fer ekki saman hjá þessum hv. þm. að viðurkenna þetta, en fylla þó flokk þeirra manna, sem fylgja allt annari stefnu í þessum málum. Það er vitanlega skakkt hjá hv. 1. þm. N.-M., að þessi síðasta mjólkurhækkun komi mjólkurframleiðendum til góða; hún fer þvert á móti beint í þá miklu hít, að bæta upp vinnslumjólkina.