22.04.1938
Sameinað þing: 22. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2926)

45. mál, kreppu- og stríðsráðstafanir

Flm. (Einar Olgeirsson):

Það er nú orðið alllangt síðan við kommúnistar lögðum fyrst þessa þáltill. fram. Það mun hafa verið 4. marz, sem hún var lögð fram. Það hefir því dregizt allmikið að taka hana til meðferðar. Hinsvegar er hér um mál að ræða, sem þingið og þjóðina varðar afarmiklu.

Við erum hér á Alþ. að afgreiða fjárlög fyrir árið 1939; og það er vitanlegt öllum, sem eitthvað skyggnast fram í tímann um atvinnulíf og þróun þess, að ný kreppa fer nú í hönd. Það er nú svo komið, að sú venjulega rás í atvinnulífinu í auðvaldsskipulaginu, sem skapar kreppurnar, er nú komin á það stig, að við getum gengið út frá því, að í ár sé að byrja kreppa slík sem sú, er hófst árið 1930 úti í heimi og kom hingað 1931. Og við vitum, hvernig Ísland er undirbúið slíka kreppu. Það er ekkert nálægt því, að við Íslendingar séum ennþá lausir við afleiðingar síðustu kreppu. Fólkið í landinu er svo illa undirbúið til að taka á móti nýrri kreppu nú eins og frekast er hægt að hugsa sér, því að ný kreppa úti í veröldinni mundi hafa þær afleiðingar, að verð á okkar afurðum félli stórkostlega; og þegar svo er komið, verður okkar „verzlunarballans“ mjög slæmur og peningar okkar til þess að kaupa inn erlendar vörur mjög litlir. Vita þá allir, hvað bíður þjóðarinnar, þegar svo er komið — vaxandi atvinnuleysi og yfirvofandi vandræði með að geta selt þær vörur, sem hér eru framleiddar. Það er því vitanlegt, að framundan er nú á næstunni nýtt tímabil álíka og tímabilið 1931–1933 var hér heima, með þeim afleiðingum, sem það hafði þá. Þetta er líka orðið mörgum ljóst, bæði af því, hvernig síldarlýsi hefir fallið stórkostlega í verði og einnig af því, hvað landbúnaðarafurðir hafa fallið í verði; og búast má við, að fleiri afurðir hjá okkur falli í verði, þegar þessi nýja kreppa er að falla yfir.

Gjaldeyrisástandið er líka að sýna það sama. Aldrei nú um langan tíma munu hafa verið eins slæmar horfur um gjaldeyrisástandið eins og einmitt nú. Fyrirboðar kreppunnar hér á landi eru þegar orðnir svo eftirtektarverðir, að enginn vafi er á því, að kreppa kemur hingað bráðum.

Það eru möguleikar á, að nú bráðlega skelli á nýtt heimsstríð; og í raun og veru er það það eina, sem mundi geta haft einhver áhrif til breyt. á þróun þeirrar kreppu, sem nú þegar er að byrja í heiminum. Þess vegna er vitanlegt, að fyrir Ísland mundi heimsstríð eða styrjöld í Evrópu hafa að nokkru leyti lík áhrif eins og kreppa, þ. e. a. s. að því leyti, að landið kæmi til með að verða eins og einangrað atvinnulega. Verður því að grípa til nýrra og mjög róttækra ráðstafana til þess yfirleitt að geta bjargað sér atvinnulega. Við sjáum, hvert sem við lítum, að aðrar þjóðir eru þegar byrjaðar að undirbúa sig undir það, að kreppa eða stríð geti brotizt út þá og þegar. Það er talað mikið um það á þessu þingi, að það verði að fara mikið eftir því hvað Norðurlandaþjóðirnar gera. Noregur og Svíþjóð og Danmörk hafa gert meiri og minni ráðstafanir til þess að mæta yfirvofandi kreppu og stríði. Hinsvegar hefir ekkert verið gert í þessa átt hér heima. Öll þessi þrjú lönd hafa haft ráðstefnur sín á milli til þess að ræða um, hvernig þau gætu komizt af, ef stríð brytist út, hvaða ráðstafanir þau gætu haft um að hjálpa hvert öðru í sambandi við það að tryggja sér matvæli og hráefni og þess háttar, og margar aðrar ráðstafanir hafa verið gerðar í þeim löndum sem undirbúningur til þess að mæta styrjöld með hennar afleiðingum. Auk þess gera þessar þjóðir stórkostlegar ráðstafanir, sem sérstaklega miða að því að búa þær undir að mæta kreppu.

Þar sem einstakir menn draga sitt fjármagn út úr umferð og leggja það ekki í ný fyrirtæki, álít ég óhjákvæmilegt, að þetta þing geri nokkrar ráðstafanir nú í þessu efni. Við vitum, hvernig það kemur til með að verða hér á landi, hvort heldur að ný kreppa skylli á eða heimsstyrjöld. Það þýðir, að Ísland verður að vera miklu meira upp á sig sjálft komið en að undanförnu. Svo framarlega að kreppa brjótist út, og hún virðist vera þegar byrjuð, þá verður ríkisstj. og hið opinbera að gera ráðstafanir til þess, að hægt verði að hefjast handa um ýmsar framkvæmdir, sem nauðsynlegt mundi að gera, ef kreppa skellur yfir, vegna þess að á krepputímum dregur auðvaldið sig út úr í atvinnulífinu og hættir ekki sínu fé á slíkum tímum, þegar minnst von er um arð af atvinnufyrirtækjum. Þau fyrirtæki, sem þjóðfélagið legði í, mundu verða nytsamleg fyrirtæki, sem nauðsynlegt væri fyrir þjóðfélagið að leggja í hvort sem er. Og stefnan mundi verða í þá átt að gera þjóðina fjárhagslega sjálfstæða og óháða umheiminum. Ef stríð brýzt út, er jafnt þörf á því, að hér sé komið upp sem flestum fyrirtækjum, sem gera Ísland óháð umheiminum. Og þá fer þetta saman, að það, sem býr þjóðina undir að mæta yfirvofandi kreppu, verður einnig til þess að búa hana undir að mæta afleiðingum heimsstyrjaldar.

Til dæmis um það, sem hið opinbera þarf að gera í þessu skyni, er hitaveitan, sem Reykjavík hefir sérstaklega verið að berjast fyrir. Það er lífsspursmál, að það mál komist sem fyrst í kring, ekki aðeins fyrir Reykjavík, heldur allt landið. Því að svo framarlega að stríð brjótist út, ríður mjög mikið á því að koma henni upp; t. d. ef England tæki þátt í stríði og kolin yrðu ekki aðeins svo dýr, að varla væri hægt að kaupa þau, heldur gætu þau orðið nær ófáanleg eða alls ekki fáanleg. Þetta mál er því gersamlega fyrir alla þjóðina. Sama gildir um rafvirkjanir, sem mikið hefir verið gert að að undanförnu. Virkjun Laxár er nú í undirbúningi, og undirbúningur hennar kominn langt. Þessu fyrirtæki þyrfti að flýta, til þess að hægt væri að koma upp þeirri rafvirkjun áður en kreppa skellur yfir.

Eitt mál má enn nefna í þessu sambandi. Það eru mikil vandræði, að meiri hluti íslenzka fiskveiðaflotans skuli vera rekinn með kolakyndingu. Ef stríð skylli á, mundi verða mjög erfitt að útvega nægileg kol til þessara skipa. Kolin mundu verða dýr, og einna erfiðast í stríði að flytja kol. Hitt er vitanlegt, að ef hægt væri að koma okkar skipum inn á olíukyndingu, mundi verða þægilegra að útvega olíu en kolin. Hún þarf minna rúm í flutningi, og því minni erfiðleikum bundið að flytja hana á erfiðum tímum. Það er nauðsynlegt að breyta kyndingu okkar veiðiskipa í olíukyndingu og að sú breyt. geti gengið sem allra fyrst fyrir sig.

Einnig má í þessu sambandi benda á okkar landbúnað. Það hefir mikið verið talað um, hversu áríðandi sé að auka garðræktina, bæði kartöflu- og kálrækt. Í raun og veru hefir aldrei verið gert neitt verulegt átak hjá þjóðinni um aukningu garðræktarinnar. Það hefir aldrei verið gert mikið til þess að fá fólkið til að leggja í garðrækt né til þess að koma því til vegar, að þeir, sem vildu leggja í garðrækt, fengju nægilega mikil lönd til umráða til garðræktar, t. d. hér í kringum Reykjavík. Það er ekki vafi á því, að þjóðin gæti með sameiginlegu átaki komið garðræktinni í það horf hér hjá okkur, sem nauðsynlegt er og skammlaust fyrir þjóð eins og okkur Íslendinga. Þá er og mikið verkefni fyrir það opinbera að vinna í sambandi við framkvæmdir í garðrækt á hitasvæðunum í landinu.

Ég býst við, að ef það mál, sem þessi þáltill. fjallar um, þ. e. a. s., hvað hægt væri að gera til þess að standast betur kreppu eða afleiðingar stríðs, væri tekið til athugunar og umr., þá mundi koma margt fram í sambandi við ýmsar okkar ráðstafanir, t. d. í sambandi við gjaldeyrismálin, sem sýndi, að við gætum hagað okkur skynsamlegar í þeim málum en við gerum nú. Nú er t. d. verið að leyfa innflutning á vélum til iðnaðar, til verksmiðja, þar sem þó eru til í landinu verksmiðjur, sem gætu framleitt allt, sem landið þarf af viðkomandi vörum. T. d. um þetta má benda á framleiðslu vinnufata og smjörlíkis. Það hefir verið leyfður innflutningur á framleiðslutækjum til að framleiða þessar vörur, sem nemur (innflutningurinn) tugum þús. kr., á meðan til eru í landinu fyrir framleiðslutæki, sem gætu vitanlega fullkomlega afkastað því, sem Ísland þarf af þessum vörum. Hér er verið að fleygja gjaldeyri til þess, sem þjóðinni verður að engum notum, þjóðhagslega séð, í stað þess að veita leyfi fyrir innflutningi á vörum, sem gætu gert þjóðina óháðari erlendum framleiðendum en hún nú er og til þess að auka þjóðarauðinn og gera okkur tryggari, þegar kreppu og stríð bæri að höndum. Það þarf því að gera ráðstafanir til þess, að innflutningur þjóðarinnar fari eftir einhverju hagfelldu skipulagi, þjóðfélagslega séð, en ekki eftir því, hvaða menn hafa sérstaklega góð sambönd, t. d. í gjaldeyrisnefnd, og hvaða menn hafa sérstaklega góða aðstöðu til þess að geta fengið innflutning, eða hvort einhver maður hefir sérstakan áhuga í einhverri grein til þess að skipta við aðra. Þarna verður að sjá um, að þjóðarhagsmunir sitji í fyrirrúmi fyrir öllu slíku, og að þeir, sem leggja í nýjan iðnað, leggi í þann iðnað, sem þjóðfélaginu er haganlegt sem heild. Ég hygg, að það þurfi að sjá til þess, að almennur áhugi og skilningur á þessu vakni hjá þjóðinni, og sérstaklega er nauðsynlegt, að löggjafarnir og valdhafarnir skilji þetta rétt og starfi í samræmi við það.

Ég held, að þar sem nú vofir yfir kreppa eða stríð og þar með einangrun landsins að verulega miklu leyti atvinnulega, með öllu því þjóðarböli, sem slíku fylgir, þá ættu að vera möguleikar á því að fá samvinnu flests fólks í landinu um að gera það, sem gera þarf í þessum efnum. Okkar till. kommúnista er sú, að skipuð verði 5 manna nefnd, þar sem hver þingflokkur eigi einn fulltrúa, til þess að athuga, í samráði við ríkisstj., hvaða ráðstafanir sé hægt að gera af hendi hins opinbera í öllum þessum málum, sem ég hefi hér minnzt á, til þess að þjóðin geti sem bezt búið sig undir þetta ástand, sem ég hygg, að enginn efi sé á, að verði til staðar hér áður en langt líður, að a. m. k. kreppa skelli yfir. Ég tel alveg vafalaust, að um margt í þessum efnum gætu menn af öllum þingflokkum verið sammála, og það væri a. m. k. ómaksins vert að prófa, hvað menn úr öllum þingflokkum gætu verið sammála um hinar og þessar leiðir fyrir þjóðina til þess að búa sig undir að mæta yfirvofandi kreppu, og einnig stríði, ef það bæri að höndum. Hinsvegar væri slík nefnd vitanlega ekki fær um að undirbúa þær ráðstafanir til fullnustu. Það þyrfti að skipa sérstakar rannsóknarnefndir með sérþekkingu til þess að gera athuganir um mál eins og t. d. hitaveitur, raforkuveitur og þess háttar. Þessi n. gæti vitanlega ekki unnið það. Hinsvegar ætti að vera hægt með þessu móti að fá samkomulag um, hvaða rannsóknir ættu að fara fram og að hverju ætti að stefna til þess að undirbúa þjóðina undir þessa vágesti.

Nú var það upphaflega tilgangur okkar flm. þessarar þáltill., þegar við bárum hana fram 4. marz í vetur, að þessi n. starfaði á meðan þetta þing stæði yfir, og — að svo miklu leyti sem samkomulag næðist í henni — að hún gæti þá haft áhrif á fjvn., þannig að við 3. umr. fjárl. væri hægt að gera brtt. við fjárl. í samræmi við og á grundvelli till. n. þessarar. Það hefði verið tími til þess, ef þáltill. hefði verið rædd nógu snemma á þinginu og samþ. og umrædd n. hefði starfað í samræmi við það, sem ég hefi talað um. En nú hefir þetta dregizt svo lengi, að ég býst við, að þetta sé orðið erfitt. Hinsvegar er varhugavert að afgreiða fjárl. fyrir næsta ár án þess að taka tillit til þess, að 1939 getum við verið komnir inn í kreppu, sem verður að sjálfsögðu engu vægari en sú, sem hófst 1929.

Það væri mjög æskilegt, að n., sem skipuð yrði í þessu máli, gæti komið saman strax og athugað þau atriði, sem koma til greina við afgreiðslu fjárl. En hinsvegar myndi n. verða að starfa aðallega eftir þinglok. Yrði þá líklega að bera fram brtt. við þáltill. um að fella niður það ákvæði, að n. skuli leggja álit sitt fyrir þetta þing.

Ég þykist vita, að hv. þm. muni telja það ómaksins vert að ræða þetta mál, enda er það eitt hið allra mesta vandamál, sem nú liggur fyrir. Í útvarpsumræðunum síðustu var minnzt á, að stríð gæti verið framundan, en síðan hefir ekki verið vikið að því máli hér á þingi, og till. hæstv. stj. hefir ekki verið tekið neitt tillit til þess. En ef stríðið skyldi dragast, kemur kreppan í staðinn nú á næstunni, og því skæðari. Þarf þá ekki síður ráðstafana við hennar vegna.

Ég vona, að þáltill. þessi fái góðar undirtektir í þinginu. En þar sem hún fer fram á, að kosin verði n. til að starfa að þessum málum, og þau eru hinsvegar þess verð, að unnið verði að þeim af öllum flokkum, sé ég ekki ástæðu til, að þáltill. verði vísað til sérstakrar n. hér á þingi, því að það yrði að líkindum ekki til annars en þess, að hún sæist ekki framar á þinginu.