03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég get verið sammála hv. þm. Borgf. um, að sanngjarnt sé að verja nokkrum hluta af hugsanlegum tekjuauka þeim, sem annars er ætlaður til Suðurlandsbrautar, til þess að leggja í brautina milli Suður- og Norðurlands, en mér finnst hinsvegar nokkuð einstrengingslegt að vilja ákveða með l., í hvaða kafla þessi styrkur, sem um getur í brtt. á þskj. 399, skuli fara, því að það er vitanlegt, að það eru margir kaflar á Norðurlandsbrautinni, sem hafa þörf fyrir nokkra aðgerð.

Mér finnst því rétt, að það sé í höndum framkvæmdarvaldsins á hverjum tíma að ákveða það fé, sem ef til vill á þann hátt yrði varið. Ég er hv. þm. alls ekki sammála um, að það sé undir öllum kringumstæðum víst, að leiðin milli Suður- og Noðurlands muni liggja um Akranes frekar en Borgarnes, og mætti færa fyrir því mörg rök, sem ég mun þó ekki gera nú.

Af þessum ástæðum leyfi ég mér að bera fram brtt. við brtt. hv. þm. um það, að ákveða ekki þann stað, þar sem þessu fé yrði varið, og legg ég því til, að orðin „er liggur vestan Hafnarfjalls og sunnan Andakílsár“ falli burt. Vil ég leyfa mér að færa hæstv. forseta þessa brtt.