01.03.1938
Neðri deild: 11. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í D-deild Alþingistíðinda. (2956)

17. mál, síldarverð

Pétur Ottesen:

Menn rekur vafalaust minni til greina, hvaða afstöðu ríkisstj. og ríkisvaldið tæki í sínar hendur að greiða fyrir, að hér yrði komið upp síldarverksmiðju. Þá var ekki ágreiningur milli flokkanna hér á Alþ. um nauðsyn þessara framkvæmda. og ekki heldur um, að aðstoð ríkisvaldsins væri nauðsynleg, þar sem einstaklingar virtust ekki hafa bolmagn til að koma upp svo stóru fyrirtæki. t m hitt var ágreiningur milli flokkanna, Sjálfstfl. annarsvegar og sósíalista og Framsfl. hinsvegar, hvernig ætti að reka þessa verksmiðju. Framsfl. og sósíalistar vildu láta reka verksmiðjuna þannig, að ríkið hefði yfirtökin um rekstur hennar, með því að ráða, hverjir skipuðu stjórn verksmiðjunnar, og þar af leiðandi bæri ríkið ábyrgð á rekstrinum. Sjálfstfl. vildi, að þegar ríkisvaldið væri búið að koma þessu fyrirtæki upp, þá yrði það selt í hendur samvinnufélagi sjómanna og útgerðarmanna, sem tæki við fyrirtækinu og setti auðvitað fulla tryggingu fyrir fé ríkissjóðs. Með því hefði verið komizt hjá öllum deilum á Alþ. um það, hvernig ætti að haga rekstri fyrirtækisins að því er það snertir, hvort leggja ætti síldina inn hjá fyrirtækinu og verðið svo reiknað út eftir að búið væri að draga frá vinnslu og sölukostnað síldarinnar, eða kaupa síldina föstu verði og þar með væru viðskipti verksmiðjunnar og síldareigendanna klár og kvitt með því, að ákveðið verð sé greitt í hvert sinn, án tillits til þess, hver niðurstaðan yrði fyrir verksmiðjuna. Eða þá, hvort greiða ætti áætlað verð, sem síðar fengist uppbót á eða dregið yrði frá, allt eftir því, hvernig tækist um sölu afurðanna. Ég verð að segja fyrir mitt leyti, að ég tel ekki álitamál, hvort samvinnufélag framleiðendanna sjálfra ætti að stjórna þessu fyrirtæki eða því ætti að vera stjórnað af mönnum, sem hafa pólitísk völd í það og það skiptið. án tillits til, hvort þeir hafa til að bera þá hæfileika, sem til þarf til að geta rekið fyrirtæki sem þessi. En í stjórn verksmiðjanna hafa ekki verið valdir menn eftir því, hvort þeir væru færir um að stjórna þeim, og því eru sjómenn hræddir við að eiga meira undir rekstrinum en nauðsynlegt er, meðan málum er þannig skipað. Allt þetta væri hægt að laga með því að hverfa að þeirri till., sem Sjálfstfl. bar fram í öndverðu, að verksmiðjurnar verði seldar í hendur samvinnufélagi sjómanna og útgerðarmanna. Þá þyrfti ekki að deila um það hér á hv. Alþ., hverjir ættu að fara með stjórn þessa fyrirtækis; sú deila væri leyst, og væru þá verksmiðjurnar reknar með sama fyrirkomulagi og önnur samvinnufélög, þannig að það verð fengist fyrir vöruna, sem hún endanlega seldist fyrir, og erum við hv. þm. V.-Húnv. algerlega sammála um, að það sé eðlilegasta verzlunaraðferðin.

Ég vildi óska, að þau átök, sem orðið hafa um þetta mál á Alþ., gætu orðið til þess, að gaumgæfilega væri athugað, hvort ekki er hægt að mynda samvinnufélag um verksmiðjurnar og reka þær óháðar ríkisvaldinu, og teldi ég það heillavænlegan árangur. Það þýðir ekki að tala um það sem neitt bjargráð fyrir landið, að verksmiðjurnar greiði svo og svo hátt verð fyrir síldina, án þess að það fáist út úr rekstri þeirra. Það yrði aðeins tilfæring á verðmætum, en niðurstaðan fyrir þjóðarbúskapinn yrði alveg sú sama í báðum tilfellum. Ef verksmiðjurnar yrðu reknar af samvinnufélagi, yrðu valdir þeir menn til að stjórna þeim, sem færastir væru til þeirra starfa.

Ég vil aðeins í þessu sambandi vekja athygli á þessu viðhorfi, sem að því er mér virðist felur í sér þá beztu úrlausn á þessu máli, sem við nú getum búizt við að fá, úr því sem komið er með þennan rekstur. Það er náttúrlega langskemmtilegast, að ríkisvaldið þurfi ekki að skipta sér af slíkum atvinnurekstri sem þessum, og það er vitanlega alveg glöggur og skýr spegill af ástandi atvinnuveganna í landinu, að ríkisvaldið skuli nokkuð þurfa að fara inn á þessa braut, því að þar, sem ástandið í atvinnuvegunum er svo heilbrigt, að einstaklingarnir hafa bolmagn til þess að gera þetta, er það tvímælalaust langbezta og heillavænlegasta leiðin, að þessi spursmál séu leyst þannig, algerlega framhjá afskiptum eða íhlutun ríkisvaldsins. Þess vegna eru það ekki annað en athyglisverð og varhugaverð sjúkdómseinkenni í atvinnurekstri þeirrar þjóðar, þar sem ríkisvaldið þarf að grípa inn í, eins og hér hefir verið gert. Þetta eru sjúkdómseinkenni, sem vitanlega bera vott um allt annað ástand heldur en það, sem verður að telja ákjósanlegt fyrir hvert þjóðfélag.