12.04.1938
Neðri deild: 47. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í D-deild Alþingistíðinda. (2976)

90. mál, laun starfsmanna ríkis og ríkisstofnana o. fl.

*Flm. (Stefán Stefánsson):

Hæstv. fjmrh. boðaði það hér, að það mundu verða sett ný launal. með tíð og tíma með tilliti til þeirrar starfsmannaskrár, sem fylgir fjárlfrv., og ennfremur með tilvísun til þess, að nú hefði verið skipuð 5 manna n., sem í eru embættismenn, til þess að skipa starfsmönnum ríkisins í launaflokka. Mér kemur það nokkuð kynlega fyrir sjónir, að nú, ekki nema 3 árum eftir að launamálanefnd sat á rökstólum og gerði till., skuli verk þessarar n., sem starfaði undir forsæti hæstv. forseta Nd., vera talið svo lítils virði, að þar þurfi að breyta öllu um. Ég get ekki skýrt þetta öðruvísi en þannig, að þetta sé nokkurskonar vantraust á þá n., sem að þessu starfaði. Aðstæðurnar eru ekki svo breyttar, að ástæða sé til þess að gerbeyta öllu í þessu efni.

Þá taldi hæstv. fjmrh. með öllu óhæfilegt, að þessi till. yrði samþ. Ég vil spyrja hann, hvers vegna hann telur það. Ég geri ráð fyrir og vil vona, að hv. fjvn. beri fram hliðstæða till., og er þá nokkur ósvinna, þó að fleiri en ein till. liggi fyrir um þessi mál, sem að einhverju leyti fari í mismunandi átt og ríkisstj. getur svo unnið úr?

Þá talaði hæstv. fjmrh. um það, að laun þeirra manna, sem tækju laun samkv. launal., væru ekki lægri heldur en annara starfsmanna ríkisstofnananna. Þessa fullyrðingu hans vil ég draga mjög í efa, og ég veit með vissu, að þetta er alls ekki svo. Ég vil í þessu sambandi minna á ríkisstofnanir eins og Landsbankann og Búnaðarbankann. Í áliti sínu getur launamálanefnd þess, að starfsmenn þeirra stofnana séu hæstlaunuðustu starfsmenn hjá ríkinu, og af sparnaðartill. n., sem námu alls um 700000 kr., var 250000 kr. sparnaður á rekstri bankanna í landinu. N. telur sem sé, að starfsmannatala og launagreiðslur við þessar stofnanir séu svo óforsvaranlegar, að það sé vel frambærilegt að lækka launin um 1/4 millj. kr.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að einkastofnanir tækju menn frá ríkisstofnununum með því að bjóða þeim hærri laun, og ríkið yrði að greiða starfsmönnum sínum svo há laun, að það þyldi samkeppnina við einkastofnanirnar. Ég tel alls ekki gerlegt, að ríkið leggi inn á þessa braut, og ég álít, að þingið eigi ekki að láta sér koma slíkt til hugar og hafi ekki leyfi til þess. Ef einkastofnanir taka vinnukraft frá ríkinu með því að bjóða hærri laun en það, þá á að koma í veg fyrir það með því móti að leyfa einkastofnununum ekki að greiða sínum starfsmönnum meira en svo og svo há laun. Það getur ekki komið til nokkurra mála að miða laun starfsmanna ríkisins við laun tiltölulega fárra manna við einkafyrirtækin, og ef einhver hætta væri á því, að ríkið missti starfsmenn til einkastofnana, sem ég geri ekki svo mikið úr, því að það er takmarkað, sem þær geta tekið við, verður að takmarka rétt einstaklinga til þess að greiða sínum starfsmönnum óhæfilega há laun.

Þá talaði hæstv. ráðh. um það, sem ég minntist á, að þið hefði átt sér stað, að menn hefðu verið teknir í ríkisstofnun í gustukaskyni. Ég mun ekki að þessu sinni nefna dæmi um það, en það kann að gefast tækifæri til þess seinna á þessu þingi, en mér er vel kunnugt um, að við ríkisstofnun hafa menn verið settir gegn till. þeirra, sem stofnuninni hafa veitt forstöðu.

Það voru svo nokkrir liðir þessarar þáltill., sem hæstv. ráðh. gat að engu, svo sem ákvæðið um margföld laun og um birtingu á yfirliti um ferðakostnað og dagpeninga og fleira, sem hefði þó verið æskilegt, að hann hefði getið að einhverju, en ég vil halda því fram, að þessi till. eigi fullkomið erindi í þingið og að það sé ekki verjandi að drepa hana. Ég held, að till. geti verið fullkomið aðhald fyrir ríkisvaldið um að lagfæra þessi launamál og það, sem þeim viðkemur, og koma þeim í það horf, sem ríkisstj. ber skylda til að gera.