16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Þetta frv. er tilraun til þess að leysa þá deilu, sem nú er milli botnvörpuskipaeigenda og sjómanna á þeim skipum. Eins og hv. þdm. er kunnugt, hefir deila þessi staðið síðan um síðustu áramót, og það hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að ná sáttum í deilunni. Fyrst og fremst var það verk unnið af sáttasemjara ríkisins, sem reyndi að sætta deiluaðilja með þeim árangri, að hann lagði fram till., sem fulltrúar aðilja, sjómanna annarsvegar og útgerðarmanna hinsvegar, treystu sér ekki til þess að mæla með við sína umbjóðendur. Eftir að sáttasemjari hafði á þennan hátt gefizt upp við að leysa deiluna með sáttum skipaði ríkisstj., svo sem kunnugt er, þriggja manna nefnd, sem hæstiréttur útnefndi, til þess að leita áframhaldandi sætta í deilunni milli þessara aðilja, og var sáttasemjari ríkisins formaður þeirrar nefndar. Þessi nefnd starfaði rúman viku tíma og leitaði sátta meðal aðilja, en þær sáttatilraunir enduðu á þann hátt, sem kunnugt er, að sáttasemjari lagði fram í samráði við nefndina sáttatill., sem var felld af sjómönnum með nokkrum atkvæðamun. Já sögðu 226, en nei 284. Útgerðarmenn samþ. till. með skilorði, og ég ætla ekki að fara inn á það, hvort líta ber á svar útgerðarmanna sem samþykki eða ekki. Samkvæmt þeim l., sem fjalla um sáttaumleitanir í vinnudeilum, er svo fyrir mælt, að svara beri spurningum játandi eða neitandi, og það er ekki ætlazt til, að hægt sé að setja skilorð með þeim svörum. Eftir að málið hafði þannig strandað, fekk ég bréf frá sáttasemjara, þar sem hann skýrir mér svo frá í niðurlagi þess bréfs, að hann telji ásamt nefndinni, áframhaldandi sáttatilraunir í málinu þýðingarlausar, og það verður að líta svo á, að þessi alvarlega deila sé í rann og veru komin á það stig, að áframhaldandi sáttatilraunir í málinu séu þýðingarlausar. Vegna þess virðist ekki vera um nema tvennt að velja, þegar saltfisksvertiðin, einn af aðalatvinnuvegum þjóðarinnar, er nú byrjuð; annarsvegar að halda áfram sáttatilraunum um óákveðinn tíma, vitandi það, að allar líkur eru til þess, að vertiðin tapist að miklu leyti eða öllu leyti, eða hinsvegar, að Alþ. grípi inn í og reyni að ráða þessu máli til lykta. Ég get í þessu sambandi upplýst það, að einmitt nú í morgun bárust mér þær fregnir, að það liti út fyrir, að fiskur væri kominn á aðalstöðvar togaranna, og það er þess vegna fyrirsjáanlegt, að lausn þessa máls getur ekki beðið, nema því aðeins, að af því hljótist stórkostlegt tjón fyrir alla þjóðina og fyrst og fremst fyrir þau bæjarfélög, sem eiga hlut að máli. Ég þarf ekki að lýsa því fyrir þessari hv. þd., hve geysilegt þetta tjón mundi verða, ef saltfisksveiðarnar stöðvuðust. Við vitum, að af því mundi leiða atvinnuleysi fjölda sjómanna og fólks í landi, en afleiðingarnar af því mundu verða skortur í bæjunum, aukning sveitarþyngslanna, sem erfitt yrði fyrir bæina að rísa undir, ef ekki ókleift, og jafnframt mundi þetta valda þjóðinni tapi á erlendum gjaldeyri svo millj. skipti, sem við megum sannarlega sízt án vera á þessum erfiðu tímum. Ennfremur kostar það þjóðina stórfé að láta þessi dýru atvinnutæki liggja ónotuð, og að lokum mundi það sennilega valda því, að við töpuðum að nokkru leyti markaðssamböndum, þar sem við eigum í samkeppni við nágrannaþjóðirnar um saltfisksverzlun, vegna þess að við gætum ekki fullnægt eftirspurninni nú á þessu ári, og keppinautarnir mundu þess vegna komast inn í markaðssamböndin í okkar stað. Tjónið, sem af þessu leiddi, yrði svo stórkostlegt, að ég er þeirrar skoðunar og sá flokkur, sem ég er fyrir, að Alþ. geti ekki látið þessi mál afskiptalaus og beri skylda til þess að reyna að ráða þeim til lykta, og það nú þegar, við höfum sýnt fyllstu þolinmæði og gert þær ýtrustu tilraunir til sátta, sem mögulegt er að gera. Ég viðurkenni, að samningsréttur einstaklinganna í þessu máli, eins og öðrum málum, er mikils virði, og hann ber að viðurkenna sem almenna reglu, en það getur verið um svo alvarlega deilu að ræða, sem hefir svo alvarlegar afleiðingar fyrir heildina, að þessi samningsréttur verði að víkja fyrir hagsmunum heildarinnar, sem eru stærri í þessu tilfelli heldur en samningsrétturinn. Því er þess vegna á engan hátt lýst yfir, heldur þvert á móti, með flutningi þessa frv., að ekki beri framvegis sem hingað til að virða samningsréttinn, en ég hefi sýnt fram á það með nokkrum rökum, að hér er um svo sérstakt mál að ræða, að í þessu sérstaka tilfelli verður samningsrétturinn að víkja fyrir enn meiri nauðsyn. Ég get líka bent á það, að einmitt meðal þjóða, sem virða samningsréttinn meira heldur en flestar þjóðir aðrar, og einmitt meðal flokka í þessum löndum, sem telja sig virða þennan samningsrétt delluaðilja í kaupgjaldsmálum alveg sérstaklega, hefir orðið að gripa til samskonar aðgerða í svipuðum málum, þar sem talið er, að hin almenna regla um samningsrétt verði að víkja fyrir hinni stóru nauðsyn, sem getur borið að, þegar alvarlegar og sérstakar deilur eru á ferðinni, sem mundu verða þjóðfélaginu hættulegar og jafnvel ofurefli, ef þær væru látnar halda áfram óleystar. Ég get í þessu sambandi bent á það, að t. d. í Noregi, þar sem alls ekki hefir verið gengið inn á þá reglu að lögleiða gerðardóm sem almenna reglu til þess að skera úr kaupdeilum, voru 1919, í alvarlegri deilu, sett samskonar l. og hér er lagt til. Þau voru þá sett á þann hátt, að verkamenn í Noregi beittu sér sérstaklega á móti þeim. Þannig var þá ástatt í þinginu, að kommúnistar höfðu talsvert mikið fylgi í þinginn, og bæði jafnaðarmenn og kommúnistar beittu sér á móti l. Það var kallað saman sambandsþing þessara flokka, til þess að skera úr, hvort þeir ættu að tilnefna mann í dóminn, og það var samþ., að þeir gerðu það og hlýddu landslögum, og jafnframt var ákveðið, að það kaup, sem goldið var, þegar l. voru sett, skyldi gilda þangað til gerðardómurinn kvæði upp sinn dóm og tæki jafnframt ákvörðun um, hvort kaupið ætti að hækka. Það sýndi sig, þegar gerðardómurinn kvað upp sinn dóm, að verkamenn voru ánægðir með dóminn, og síðar, þegar samskonar l. voru sett 1920, þá var það gert með atkv. kommúnista og jafnaðarmanna gegn atkv. atvinnurekenda. Nú fyrir fáum dögum gerðust þau tíðindi í Noregi, að það kom þar upp alvarleg flutningadeila, sem hefði getað haft það í för með sér, að flutningar til Lofoten hefðu stöðvazt, en það hefði haft þær afleiðingar, að Lofoten-veiðin hefði stöðvazt að miklu eða öllu leyti. Eftir að leitað hafði verið sátta, eins og hér hefir verið gert í þessu máli, samþ. þing Norðmanna með öllum atkv. þm. úr öllum flokkum að setja gerðardóm, sem þessi f., sem hér er lagt til að setja, eru sérstaklega sniðin eftir. Þau rök voru færð fram fyrir setningu gerðardómsins, að stöðvun Lofoten-veiðanna væri svo alvarleg tíðindi fyrir norsku þjóðina, að ekki væri hægt að komast hjá því að setja gerðardóm um þetta atriði og leysa, deiluna þegar í stað, og það var gengið lengra í þessum gerðardómi, því að það var jafnframt ákveðið, að allar deilur, sem kynnu að risa út af þessum flutningum, skyldu einnig afgerðar með gerðardómi. Það má jafnframt benda á það, að í Danmörku hafa „radikalí“ flokkurinn og jafnaðarmannaflokkurinn einnig sett samskonar l. 1933, 1934 og 1936. Þá voru uppi alveg sérstaklega alvarlegar atvinnudeilur, sem jafnaðarmenn og hinir „radikölu“, sem vinna saman um ríkisstjórn í Danmörku, töldu sér skylt að setja löggjöf um vegna þess, hvað áframhald deilunnar hefði reynzt alvarlegt fyrir hina dönsku þjóð. Alveg sama má benda á í Frakklandi, þar sem sama leið hefir verið valin undir svipuðum kringumstæðum. Ég bendi á þetta til þess að sýna, að allar þessar þjóðir, og reyndar fleiri, sem viðurkenna samningsrétt aðilja í þessum málum, og flokkar, sem viðurkenna samningsréttinn alveg sérstaklega, hafa orðið að grípa til þess í alvarlegum vinnudeilum, sem fyrirsjáanlegt var, að hættulegar voru fyrir þjóðfélagið, að brjóta þessa almennu reglu, láta hana víkja fyrir þjóðarnauðsyninni, þó að ekkert sé fjær þessum þjóðum heldur en að viðurkenna gerðardómsleiðina sem hina almennu leið til þess að leysa kaupdeilur. Ég vil benda á það, að þegar nú er gripið til þess að fara þá leið, sem hér um ræðir, er ekki ætlazt til þess, að hún verði notuð sem almenn leið í slíkum málum, en ég álít, að eins og á stendur, sé ekki aðeins til þess fullur réttur, ef litið er á málið frá því sjónarmiði, að hinir smærri hagsmunir verði að víkja fyrir hinum stærri, heldur knýjandi nauðsyn. Og ég vil fullyrða, að í öllum þeim tilfellum, sem settir hafa verið gerðardómar meðal þeirra þjóða, sem ég hefi nefnt, gildir það, að fá þeirra eða ekkert hafa verið jafnalvarlegar kaupdeilur eins og þessi deila er fyrir okkur. Það má m. a. benda á það, að þetta seinasta tilfelli, sem leyst hefir verið á þennan hátt hjá Norðmönnum, Lofoten-veiðarnar, eru ekki nema lítið brot af því fyrir norsku þjóðina, sem saltfisksveiðarnar er fyrir okkur Íslendinga.

Ég sé ekki ástæðu til þess að færa fram öllu fleiri rök fyrir nauðsyn þessa máls og ekki til þess að fara inn á einstakar gr. frv., sem heldur ekki á við við 1. umr.

Það má vera, að hægt sé að benda á einhverja aðra leið í þessu máli. Að sjálfsögðu megum við ekki meðhöndla þetta mál hér á þingi á svipaðan hátt og kaupdeilur. Það verður að reyna að flýta fyrir málinu, og ég vil óska þess, að allir flokkar þingsins hjálpi þar til. Og ég vil vænta þess, að allir flokkar megi festa sér svo vel í huga alvöru þessa máls og nauðsynina á lausn þess, að þeir geti orðið sammála um að ráða fram úr því. Ég álít, að það sé aldrei ástæða til að óska eftir því og vænta þess af þm., að þeir taki á málum án pólitískra skoðana, ef það er ekki nú, þegar um svona alvarlegt mál er að ræða. Og ég vil að óreyndu vænta þess, að það verði gert. Ef unnt er að benda á einhverja aðra leið til lausnar málinu, án þess að töf hljótist af, er ekki nema sjálfsagt að taka allt slíkt til athugunar.

Með þessum orðum vil ég óska þess, að málinu verði vísað til 2. umr., því að ég tel æskilegt, að það þurfi ekki að vísa því til n. En ef það hinsvegar yrði gert, móti von minni, vil ég benda á það, að þeir, sem það gera, verða vitanlega að taka ábyrgðina af þeirri töf á sig, og ég vil þá óska þess, að n. afgreiði það á örstuttum tíma, þannig að það yrði hægt að halda áfram umr. um málið hér á þingi í dag.