14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í B-deild Alþingistíðinda. (616)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Það hafa orðið allmiklar umr. um brtt. n. og málið yfirleitt, og vil ég svara þeim fyrir n. hönd.

Ég skal fyrst minnast á aths. hv. 7. landsk. Mér var að vísu kunnugt um þær áður, þar sem hann á sæti í n. Tjáði hann sig fylgjandi þessu frv., en minntist á þörfina á því að leysa á sama hátt skólaþörf húsmæðraefna í kaupstöðum. Hv. 6. þm. Reykv. kom einnig inn á það sama. Ég get svarað þessu fyrir mig og býst við fyrir n. hönd þannig, að við sjáum vel

þörfina á því, að húsmæðraskólum verði komið á fót í kaupstöðum á næstunni. En fyrir n. lá ekkert frv. um það atriði. N. leit þannig á, að það sé réttara og heppilegra, eins og hv. þm. V.- ísf. kom að nokkru leyti inn á, að hafa þessa fræðslu hvora fyrir sig. Aðstaðan til menntunar kvenna í sveitum og kaupstöðum er svo gerólík, að það verður að hafa allt annað fyrirkomulag á skólum í sveitum heldur en í kaupstöðum. Þess vegna er það miklu eðlilegra, að það séu sérstök 1. um sveitaskólana og svo önnur um kaupstaðarskólana. Þessu vil ég halda fram, þó hv. 6. þm. Reykv. teldi ekki, að það væri neitt annar blær á þeirri fræðslu, sem húsmæður í sveitum þurfa að fá og húsmæður í kaupstöðum. Það er nokkuð víðtækari verkahringur, sem sveitahúsmæður þurfa að taka að sér heldur en húsmæður í kaupstöðum. Það eru miklu fleiri störf, sem þær þurfa að leggja hendur á en húsmæður í kaupstöðum, svo menntun þeirra verður að vera með nokkuð öðru sniði. Annars get ég fyllilega tekið undir með báðum þessum hv. þm., að það er full ástæða til að leysa einnig þetta atriði, um menntun húsmæðraefna í kaupstöðum. En ég sé ekki ástæðu til að breyta þessu frv. eða tefja framgang þess á neinn hátt.

Þá vil ég minnast með nokkrum orðum á aths. hv. þm. Dal. Þær féllu að nokkru leyti saman við aths. frá hv. 2. þm. Árn. Það er fyrst það atriði, sem fleiri hafa einnig minnzt á, að þeir vilja fella till. n. um að breyta aldurslágmarkinu úr 16 upp í 18 ár. Ég get ekki fallizt á, að það sé rétt. Ég lít þannig á, að það nám og það starf, sem því fylgir og þessum konum er ætlað, sé svo mikið og ég vil segja erfitt, að það veiti ekki af því, að það sé nokkurn veginn tryggt, að þær konur, sem ætla sér að stunda þetta nám, séu búnar að ná nokkurn veginn fullum þroska, bæði líkamlega og andlega. En það er ekki hægt að jafnaði að gera ráð fyrir því, að 16 ára stúlkur séu búnar að ná þeim þroska, sem tryggi það, að námið komi þeim að fullum notum fyrir lífið. Þess vegna lít ég svo á, að það sé ekki rétt að setja aldurstakmarkið mjög lágt. Ég skal ekki segja, hvort ég og n. getum fallizt á að hafa það víð 17 ára aldur. Ég skal bera undir n. þá ósk hv. þm. V.- Ísf., að taka þetta atriði nánar til athugunar fyrir 3. umr. og taka till. aftur þangað til. Ég vil undirstrika það, sem ekki hefir verið nægilega veitt eftirtekt af þeim hv. þm., sem hafa gert aths. við þetta atriði, að það er veitt full heimild til þess í þessari sömu gr. að veita undanþágu frá þessu ákvæði, ef sérstaklegar ástæður mæla með því. Hv. þm. Dal. sagði, að sumar stúlkur færu að gegna húsmóðurstörfum 18 ára, þar sem þær giftust á þeim aldri. Ég vil nú segja, að það sé frekar undantekning, að stúlkur giftist svo ungar nú á tímum. En það er rétt, að þetta getur komið fyrir. En ég hygg þá, að það sé ein af þeim ástæðum, sem yfirstjórn skólans er skylt að taka til greina og færa aldurstakmarkið niður, ef stúlka, sem ætlar að sækja skólann, er kominn að því að ganga í hjónabandið. Undanþáguákvæðið yrði þá notað.

Þá hafa bæði hv. þm. DaI. og hv. 2. þm. Árn. og einnig fleiri hv. þm., sem tekið hafa til máls, haldið því fram, að ekki væri rétt að svipta þá skóla styrk, sem ekki hefðu eitt ár eða svo fulla 10 nemendur. Nú er gr. ekki þannig orðuð, að það sé skylt að svipta þá styrknum, heldur er aðeins heimild til þess. Við orðuðum gr. þannig með tilliti til þess, að ráðh. sé ekki skylt að nota þessa heimild, þó það komi fyrir, að skóli hafi ekki þessa nemendatölu. En við vildum hafa þessa heimild til þess, að það væri ekki skylt að halda uppi skóla ár eftir ár, ef svo lítil aðsókn væri að honum, að nemendatalan færi niður fyrir 10. Það er þannig hægt án þess að brjóta l. að setja þann skóla út úr starfi, sem ekki hefir þá aðsókn, sem svarar þessu lágmarki. Hinsvegar get ég vel fallizt á þá miðlunartill., sem kom frá hv. þm. V.-Ísf., að taka til greina meðaltal nokkurra ára. Mun n. athuga þetta fyrir 3. umr. En það er fjarri því, að það sé ákveðið, að undir öllum kringumstæðum skuli svipta skóla styrk, sem þannig er ástatt um.

Hv. þm. Dal. sagði, að það væri siður en svo, að skólarnir væru verri eða minna gagn væri að þeim fyrir nemendurna, þó nemendurnir væru fáir. Þetta er vitanlega hárrétt. Ég geri ráð fyrir, að bezt væri tryggð menntun húsmæðraefna og annara, sem menntunar njóta, ef hægt væri að hafa 4–5 kennara handa hverjum nemanda. Þá væri sennilega séð fyrir því, að nemandinn fengi þá menntun, sem hann gæti tekið á móti. En hefir þjóðfélagið efni á því að halda uppi ótakmarkaðri fræðslu fyrir nemendur? En það er af því, að við álitum, að þetta skólahald, eins og annað skólahald í landinu, sé svo dýrt, að takmörk verði að vera fyrir því, fyrir hvað fáa nemendur skóli skuli haldinn á hverjum tíma. Þetta er fjárhagslegt atriði í þessu máli, að hafa þessa lágmarkstölu, en vitanlega gætu nemendur fengið fræðslu, þó þeir væru fáir, ef kennarafjöldinn væri sá sami og áður. — Þetta atriði minntust þeir á jöfnum höndum, hv. þm. Dal. og hv. 2. þm. Árn.

En svo voru það fleiri atriði, sem hv. 2. þm. Árn. gerði miklar aths. við. Það var sérstaklega 7. brtt., við 7. gr., sem honum fannst, að við hefðum breytt til hins verra. Ég vil neita þessu. Það var ekki meining okkar, enda höfum við ekki breytt gr. verulega hvað efni snertir. Það voru nokkrar orðalagsbreytingar, sem við gerðum og okkur virtist vera til bóta. Það eru t. d. orðin „hjálp í viðlögum“. Það er rétt, að þau orð eru búin að fá nokkuð ákveðna merkingu í málinu, en okkur virtist það óviðkunnanlegt lagamál. En orðin, sem við ætluðum að setja í staðinn, hafa fallið í burtu. Við ætluðum að setja „hjúkrun sjúkra“, sem okkur fannst viðkunnanlegra lagamál.

Þá talaði þessi hv. þm. og einnig aðrir um það, að orðið „hannyrðir“ næði ekki yfir „handavinnu“. En okkur fannst orðið „handavinna“ óviðkunnanlegt lagamál, því það er svo margt, sem má taka undir það.

Þá var eitt atriði, sem hv. 2. þm. Árn. ræddi mikið um, og það er, að við höfum fellt úr frv. orðin „hirðing húsdýra“. Hann hélt, að okkur hefði fundizt of mikið nýjabragð að þessu til þess að við gætum fellt okkur við það. Ég held þvert á móti, að okkur hafi fundizt það of gömul lumma til þess að við gætum fellt okkur við að hafa það í frv. árið 1938. Áður tíðkaðist það mjög, að kvenfólk tæki upp störf karlmanna, þegar þeir fóru í verið, og, mun þetta sérstaklega hafa átt sér stað í Arnessýslu. Það má vera, að það sé svo enn þar. En í öðrum héruðum tíðkast slíkt áreiðanlega ekki. Ég held, að kvenfólk nú á tímum láti yfirleitt ekki bjóða sér slíkt. Ég býst við, að námsgreinar skólanna reynist nógu erfiðar, þó ekki sé farið að bæta við námsgrein, sem tilheyrir körlum einum, eftir þeirri venju, sem nú tíðkast í sveitum landsins og annarsstaðar. Það er gott fyrir konur og aðra að geta verið sem mest sjálfbjarga og geta hirt kindur og kýr og geta þannig losnað við karlmennina. En ég geri ráð fyrir, að hér eftir eins og hingað til verði einhver sambúð milli karla og kvenna. Þess vegna verðum við að hugsa okkur þá verkaskiptingu milli karla og kvenna, að þeir vinni yfirleitt karlmannastörf og læri þau á sínum skólum, en konur læri ekki skepnuhirðingu í sínum skólum. Víð getum ekki hugsað okkur að þær læri skepnuhirðingu í sínum skólum, en karlmenn grautargerð í sínum skólum. Við getum ekki lagt út í líka grautargerð í löggjöf.

Þá minntist hv. þm. á það, að við hefðum fellt úr frv. ákvæðið um, að þessar námsgreinar skyldu kenndar eftir því, sem við yrði komið. En við vildum tryggja það, að þegar gerð væri löggjöf og ákveðinn ríflegur styrkur til þessara skóla, þá væri það tryggt, að skólarnir væru meira en nafnið tómt og þeir kenndu þær námsgreinar, sem konum er ætlað að nema.

Þá ræddi hv. þm. um það, að við hefðum fellt úr sömu gr. ákvæði um, að konum skuli kennd meðferð ungbarna. Það var ekki af því, að við teldum það ónauðsynlegt, heldur af því, að við álitum, að það væri ekki tryggt, að það væri alltaf ungbarn við hendina, svo að kennslan gæti orðið verkleg. Við kunnum ekki við að setja ákvæði, sem gerði það að skyldu, að það skyldi fæðast barn á þessum skólum, svo stúlkurnar gætu lært meðferð ungbarna á því. Við töldum, að þá meðferð ungbarna, sem hægt væri að kenna í þessum skólum, mætti heimfæra undir orðið „uppeldisfræði“. Einn þáttur uppeldisfræðinnar er meðferð ungbarna og hjúkrun þeirra, bæði andleg og líkamleg. Það orð nær út yfir það, sem hv. þm. ætlast til og hægt er að krefjast.

Þá hefir einnig verið rætt töluvert um ákvæðið um að heimila skólunum að taka skólagjald, þó að það sé mjög takmarkað frá því, sem verið hefir hingað til. Aðalástæðan fyrir því, að við höfum sett þetta í frv., er sú, að við höfum fengið rökstutt álit frá sumum aðstandendum húsmæðraskóla hér á landi um það, að skólarnir geti ekki staðið undir sér fjárhagslega með þeim styrk, sem þeim er ætlaður í frv., ef þeir fái ekki að taka skólagjöld. Þeir verði annaðhvort að fá hærri ríkisstyrk eða héruðin eða einstaklingar verði að leggja þeim til fé. Við töldum fjárhag ríkissjóðs ekki þannig, að hægt væri að leggja á hann þyngri byrði en gert er með frv. Það er heldur engin trygging fyrir því, að aðstandendur skólanna séu færir um að leggja á sig aukin útgjöld frekar en margir nemendur, sem sækja skólana. Um bændaskólana, sem nefndir hafa verið í þessu sambandi, er það að segja, að þeir eru ríkisskólar, en hitt eru skólar, sem aðrir standa undir, og það er ekki venja að gera sömu kröfur til þeirra skóla, sem haldið er uppi af einstaklingum, eins og til ríkisskólanna. Þess vegna álitum við, að það geti komið til mála, að konur greiði skólagjöld, þó það sé ekki gert á bændaskólunum. Námið á bændaskólunum er líka þyngra og dýrara, og þar að auki eru lagðar þær kvaðir á nemendur þeirra, að þeir vinni nokkurn tíma á skólabúunum, sem mun samsvara fyllilega því skólagjaldi, sem konum er ætlað að greiða.

Það er rétt, að konur fá lægra kaup en karlmenn. En að konur eigi örðugra með að útvega sér atvinnu heldur en karlmenn, get ég ekki tekið undir. Hvað mikið atvinnuleysi, sem er meðal karlmanna, þá er rifizt um kvenfólk í þau störf sem þær ganga að, bæði úti og inni. Ég held því, að það nái engri átt að rökstyðja þetta með því, að konur eigi örðugra með að afla sér atvinnu heldur en karlmenn.

Hv. þm. talaði um, að á unglingaskólunum væri það venja, að konur greiddu lægra gjald fyrir mat og þjónustu heldur en karlar. Ég býst við, að þetta komi nokkuð af sjálfu sér. Ef nemendur hafa matarfélag með sér, þá kemur í ljós, hvað konur eru neyzlugrennri en karlmenn. Þetta mun sýna sig í rekstri skólanna.

Hv. 10. landsk. hafði ýmislegt að athuga við till. n., og þótti honum n. ekki hafa lesið málið nægilega ofan í kjölinn. Það má vel vera, að n. hafi ekki tekizt að komast eins langt niður í kjalsogið og hv. þm. En n. gerði sér far um að skilja málið, eftir því sem hún hafði ástæður til, og kemur skilningur hennar á málinu fram í brtt. Hv. þm. verður að viðurkenna, að n. hafi athugað frv. ekki svo lítið, því það sýna brtt. n. Honum þóttu ýms ákvæði frv. óákveðin, og þá sérstaklega ákvæðið um það, hvernig skipa skuli skólaráð og hverjir teljist stofnendur. Það er satt, að þetta er óákveðið. En við teljum ekki mögulegt að ganga svo frá þessum l., að öll slík ákvæði verði svo skýr, að ekki verði um deilt, enda er ekki til þess ætlazt frekar í þessari skólalöggjöf en annari, og þess vegna eru ákvæði um að setja reglugerð um þau atriði, sem l. ná ekki til. Ef það er eitthvað óákveðið, hverjir skuli teljast stofnendur, þá er ætlazt til, að úr því verði skorið með úrskurði yfirstjórnar skólanna. Fyrir þetta verður ekki synt, hversu rækilega, sem hv. þm. vilja skoða málið niður í kjölinn.

Hv. þm. sagði, að hann vildi láta gilda sömu reglur um húsmæðraskólana í sveitum og bændaskólana. Ég hefi svarað þessu nokkurn veginn. Það er ekki hægt að láta gilda sömu reglur um skóla, sem reknir eru af ríkinu, og þá skóla, sem reknir eru af einstaklingum eða félögum.

Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið, að það þýddi ekki að gera sig breiðan gagnvart landbn. og koma með brtt. við brtt. hennar. Það er skylda hv. þm. að gera brtt, við það, sem hann álítur, að sé varhugavert, hvort sem það er landbn. eða önnur n., sem flytur það. Við munum alls ekki fyrtast við hann, þó hann komi fram með brtt. við álit okkar. Við munum taka til greina það, sem við getum fallizt á, en hitt ekki. Atkv. og vilji þdm. verður svo að ráða úrslitum, þegar til atkvgr. kemur.