23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Finnur Jónsson:

Ég ætla ekki að ræða einstök atriði þessa frv., en ég vil láta þess getið um leið og það væntanlega verður afgr. frá þessari d., að ég hefði talið viðkunnanlegra, að jafnframt því, sem séð er fyrir húsmæðrafræðslu í sveitum, væri einnig séð fyrir húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, því að þó að þeir skólar, sem hér er gert ráð fyrir, verði starfræktir, þá fullnægir það hvergi nærri húsmæðrakennsluþörfinni hér á landi yfirleitt, og ég hefði talið, að þetta frv. hefði fremur átt heima í menntmn. en landbn., þar sem þetta mál snertir ekkert síður húsmæðrafræðslu í kaupstöðum heldur en í sveitum, og þörfin fyrir húsmæðrafræðslu þar er engu minni.

Ég vil á engan hátt gerast meinsmaður þessa máls, en vil taka fram, að ég treysti því, að þeir, sem nú standa fyrir því, að þetta frv. verði afgr. á Alþingi, vilji einnig taka vel undir, og vildi ég gjarnan heyra undirtektir landbn. um það, hvernig hún mundi vilja taka svipuðu frv. um húsmæðrafræðslu fyrir kaupstaðina, því að ég tel nauðsynlegt, að þessi mál ráðist til lykta jafnframt. Ég vil óska þess, að hv. landbn. svari þessari fyrirspurn.

Ég skal taka fram, að það er húsmæðrafræðsla hjá okkur á Ísafirði, sem hefir nokkurn árlegan styrk, þó tæplega svo háan sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og ekki hefir sá skóli heldur fengið greiddan neinn hluta stofnkostnaðarins. eins og frv. gerir ráð fyrir.

Það er augljóst, að þetta mál snertir ekki síður kaupstaðina en sveitirnar, og væri því æskilegt, að hv. landbn. vildi láta álit sitt í ljós, hvernig hún tæki till. um svipaða húsmæðrakennslu í kaupstöðunum eins og hér er gert ráð fyrir, að sveitirnar verði aðnjótandi.