23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Sveinbjörn Högnason:

Hv. 10. landsk. fann ástæðu til að kveinka sér undan ummælum, er ég lét falla um deilu þá, er staðið hafði um skólastað á Suðurlandsundirlendinu um mörg ár. Hv. þm. sagði, að þetta efni væri of viðkvæmt mál, og virðist mér framkoma hans benda til, að hann muni hafa haft rétt að mæla, en ég álit, að við eigum að láta okkur vítin að varnaði verða og ekki leggja sama þránd í götu jafngóðu máli og húsmæðrafræðslunni, sem við viljum allir koma áfram. Þegar sama hætta og áður hefir komið í ljós virðist vofa yfir góðu máli, eigum við ekki að Iáta það þegjandi framhjá fara.

Um það, að ég hefði ofsagt þegar ég sagði, að um tugi ára hefði þessi togstreita staðið í vegi fyrir því, að við fengjum skóla á Suðurlandsundirlendinu og að enn í dag eimdi nokkuð eftir af þessari togstreitu í þeim héruðum, sem að skólanum eiga að búa, þá vil ég aðeins benda á, hve hv. 10. landsk. er þetta viðkvæmt mál, og þá mun það eins geta verið viðkvæmt enn í hugum fleiri manna.

Í eitthvað 50 ár var skólinn tafinn af þessari togstreitu um það, hvar hann ætti að standa. 50 ár liðu þar til Laugarvatnsskóli var kominn upp frá því að fram kom till. um sameiginlegan skóla á Eyrarbakka. Öll þessi ár urðu Árnes- og Rangárvallasýsla að vera skólalausar vegna þessarar togstreitu. Þegar hv. þm. segir, að ekki beri á þessu lengur, þá er það e. t. v. vegna þess, að hann þekkir ekki til nema í Árnessýslunni, og þar hafa menn eðlilega gleymt þessu fyrr, þar sem þeir báru sigur úr býtum og fengu skólann til sin. Sennilega hverfur þetta smátt og smátt vegna þess, hve skólinn hefir reynzt góður og fengið gott orð á sig, hve staðurinn hefir reynzt heppilegur og mikið mannval valizt að skólanum, en það er ekki alveg horfið enn úr Rangárvallasýslu. Ég vil biðja þm. að líta á, hve lítil aðsókn hefir í raun og veru verið að skólanum úr Rangárvallasýslu. Það er eingöngu vegna þessarar miskliðar. Ég hygg því, að ég hafi sízt ofmælt í þessu efni. Því er ekki ástæða til að stofna svipuðu máli í samskonar hættu, máli, sem við viljum þó allir, að nái fram að ganga.

Hv. þm. Borgf. sagði, að í þessu máli hefði aðeins verið að ræða um héraðakryt. Ef hann hefir megnað að tefja mál í áratugi, hve lengi getur þá togstreita milli 6 aðilja tafið málið? En að því stefnir einmitt með till. hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr., því þar er sagt, að skólinn skuli vera í sambandi við einhvern héraðsskólanna, og þeir eru, eftir því sem ég bezt veit, sex talsins. Ég vil biðja menn að gera sér þetta vel ljóst, því þessu ágæta máli er stórhætta búin, ef brtt. hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf. nær fram að ganga. Hvaða samræmi er líka í því, þegar hv. landbn. hefir getað komið sér saman um alla hina skólastaðina, Hallormsstað, Laugar, Laugaland, Blönduós, Staðarfell, Laugarvatn og Reykholt, að þá skuli ekki eins mega ákveða stað þessum eina skóla. Getur ekki eins orðið ágreiningur um, hvort þessir staðir séu þeir heppilegustu, á sínum tíma?

Þar sem aðeins eru heimildarlög, sem á að samþ. fyrir þessum eina skóla, þá er ennþá meiri ástæða að leggja ekki slíkan þröskuld í veg hans og láta hann ekki skrölta lausbeizlaðan milli sex staða á landinu.

Þar sem ég þykist vita, að hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr. séu þessu máli velviljaðir, vil ég mælast til, að þeir taki brtt. sína aftur, þegar þeir sannfærast um, að þeir geta ekki gert málinu meira ógagn á annan hátt en með henni.