28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

19. mál, bókhald

*Thor Thors:

Ég vil ekki hafa þetta langt mál. Flm. frv. og ég erum sammála um það, eins og greinilega hefir komið fram í umr., að í sjálfu sér sé æskilegt, að tvöfalda bókhaldið sé viðhaft, og reynslan mun verða sú, að í flestum tilfellum mun það verða notað. En ég sé ekki, hvaða nauðsyn er á því að lögbjóða þetta eina form frekar hér á landi en t. d. hjá nágrannaþjóðum okkar, þar sem aðiljarnir eru látnir sjálfráðir um, hvaða tegund bókhalds þeir nota. Kostir tvöfalds bókhalds fram yfir einfalt eru þó nokkrir frá sjónarmiði þjóðfélagsins, þ. e. a. s. að það gefur glöggt yfirlit yfir afkomu fyrirtækjanna. Næst sá tilgangur frv. með því að láta 8. gr. standa, þar sem fyrirskipaðir eru þó nokkrir yfirlitsreikningar, og það ákvæði frv. stæðist með fullum rétti, enda þótt fært væri einfalt bókhald.

Það er nú vitanlega svo, að réttar færslur geta raskazt við tvöfalt bókhald, ef það er ekki í höndum þaulkunnugs manns, og þá er alltaf erfiðara að greiða úr þeirri flækju, sem upp kemur síðar, en þegar um einfalt bókhald er að ræða. — Ég vil svo leggja áherzlu á það, að í raun og veru er frekar lítill ágreiningur hér á ferðinni, aðeins spurningin um það, hvort við eigum að lögbjóða þetta form, eins og flm. frv. vill, og veita svo nokkrar undantekningarheimildir frá því, eða hvort við eigum að láta aðiljana sjálfráða um, hvaða form þeir nota, og það tel ég að öllu leyti langeðlilegustu og aðgengilegustu leiðina í þessum málum.