05.04.1938
Efri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 614 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Páll Zóphóníasson:

Það er nú svo langt liðið síðan þetta mál var hér síðast til umr., að ég hefi gleymt mörgu af því sem ég ætlaði að svara. Vil ég þó ekki láta hjá líða, að leiðrétta ummæli hv. 1. þm. Reykv. Hann hefir haft þau orð eftir mér, að ég telji, að sá grundvöllur, sem skipulag jöfnunarsjóðs væri reist á, sé rangur. Hann hefir misskilið mig, hafi hann skilið orð mín svo. Ég sagði, að ef Vestmannaeyingar hefðu meiri þörf fyrir að fá þetta vörugjald en aðrir kaupstaðir landsins, en fengju hinsvegar ekkert úr jöfnunarsjóði, þá gæti það aðeins stafað af tvennu. Annaðhvort væri þörfin ekki eins mikil og af væri látið, eða skalinn, sem fylgt væri við úthlutun úr jöfnunarsjóði, væri ekki réttur. Ef hv. 1. þm. Reykv. og aðrir, sem telja þetta vörugjald nauðsynlegt, álíta, að Vestmannaeyingar hafi orðið afskiptir, þá er það þeirra að finna, að slíkt sé á rökum reist, og koma með brtt. við reglurnar, sem greitt er úr jöfnunarsjóði eftir. Það var sagt hér í deildinni af hv. 1. þm. Eyf., að ástæðan fyrir því, að Vestmannaeyingar fengju ekkert úr jöfnunarsjóði, myndi vera sú, að skattamat á fasteignum væri hærra þar en í öðrum kaupstöðum landsins. Ég skal engan dóm leggja á það, en á hitt skal ég benda, að þegar síðasta fasteignamat fór fram, voru það góðir og gegnir menn, er framkvæmdu það. Mennirnir, sem við það fengust, munu ekki hafa verið langt frá Sjálfstfl. Matið var þó svo hátt, að það var lækkað um 10% til samræmis við hina kaupstaðina. Ég hygg, að ástæðan muni liggja, í öðru en því, að fasteignamatið sé of hátt. Ég býst við, þegar þessir menn gerðu matið þetta hátt og var síðan lækkað, hafi það verið orðið í nokkurnveginn samræmi við hina kaupstaðina.

Það gladdi mig að heyra það hér, að hv. 1. þm. Reykv. fór ekkert dult með það, að Sjálfstfl. hefði verið á móti fátækralöggjöfinni. Hingað til hafa forráðamenn þess flokks haldið því fram, að þeir hafi ekki verið móti slíkum breyt. Hitt vita menn, að Sjálfstfl. hefir alltaf verið á móti því, að ríkið hefði tekjur af einkasölunum, og það kom ekki eins á óvart að heyra 1. þm. Reykv. halda slíku fram. Sjálfstæðismenn hafa stundum haldið fram, að það hafi eingöngu verið hinir flokkarnir, sem voru á móti breytingum á framfærslulögunum.

Ég held, að þetta frv. eigi ekki rétt á sér, þótt viðurkennt sé, að Vestmannaeyingar hafa meiri sérstöðu en íbúar annara kauptúna á Íslandi, því að þeir skipta minna við menn úr öðrum hreppum vegna legu eyjanna og aðstöðu, en þó hafa þeir dálitil viðskipti við aðra landsmenn. Ég gæti ef til vill samþ. þetta vörugjald handa Vestmannaeyjakaupstað um eins árs bil, en til frambúðar verð ég aldrei með því.