29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (805)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. 5. landsk. segir, að það sé ekki takandi mark á útsvarsstigunum, því að það sé ýmist bætt við þá eða dregið frá þeim. En það skiptir ekki máli í þessu tilfelli; þótt dregið sé frá Vestmannaeyjastiganum 20%, eins og ef til vill hefir komið fyrir, þá breytir það ekki hlutfallinu milli greiðslnanna. Vestmannaeyjastiginn ber það með sér, að hann er mjög hár á hátekjumönnunum, og hærri en annarsstaðar. Þess vegna skiptir það ekki máli, þótt stiganum sé breytt prósentvis, því að með þessu er ekki verið að skattleggja frekar þá, sem lægst eru launaðir, eins og hv. 5 landsk. vildi halda fram við 1. umr. Hinsvegar nær það engri átt, að bætt sé við útsvarstigann í Rvík 100–150%. Það má ekki l. samkvæmt hækka útsvörin frá ári til árs um meira en 20%. Það mun hafa komið fyrir, að þau hafi verið hækkuð prósentvís. Það skiptir máli í þessu sambandi, hvort hann er til að þyngja á almenningi og létta á þeim, sem mestar tekjur hafa, eða öfugt. Og Vestmannaeyjastiginn ber það greinilega með sér, að það verður aldrei hægt að nota þennan tekjuauka hér til að létta af þeim, sem mestar hafa tekjurnar. — Ég held, að ég þurfi ekki að taka fleira fram um þetta atriði.