07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1939

*Eiríkur Einarsson:

Þessar fjárlagaumræður hafa að miklu leyti farið fram fyrir auðum stólum, og ætti maður því ekki að hafa orð sín fleiri en þörf gerist. Ég er ekki aðalflm. að neinni brtt. við fjárl. Ég er aðeins meðflm. að einni einustu till., þar sem hv. þm. Vestm. er aðalflm., og af því að hann er kunnugri þessu máli en ég, og mun mæla fyrir till., þá gef ég haft þessi orð þeim mun færri. Þetta er II. brtt. á þskj. 485, um það, að veittar verði 2000 kr. umfram það, sem samvinnunefnd samgöngumála leggur til, til þess að halda uppi reglubundnum ferðum á milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar. Samvinnunefnd samgöngumála gat ekki fallizt á að taka þessa fjárveitingu upp í till. sínar, og þar sem henni þóknaðist ekki að gera það, skrifaði ég undir þetta nál. hennar með fyrirvara, því að ég álít, að þessi styrkbeiðni eigi við eins góð rök að styðjast eins og sitt hvað annað, sem varð að till. hjá n. — Þegar verið er að ákveða styrki til flóabátaferða, þá álít ég, að það megi ekki einblína um of á það, hvort það er strjálbýli eða fjarlægðir, sem um er að ræða, heldur í samræmi við það, hve margra þarfir það eru, sem koma til greina, og þegar um ferðir er að ræða á milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar, kemur síðarnefnda atriðið til greina. Vestmannaeyjar hafa þá legu, sem allir vita, en á suðurströndinni eru fjölmennar og blómlegar byggðir, sem hafa mikla viðskiptamöguleika við Eyjarnar. Það er því sérstök þörf fyrir, að Alþ. hjálpi til að gera þessar ferðir kleifar og framkvæmanlegar. Það mun meðflm. till. geta skýrt enn betur en ég, að Vestmannaeyingar hafa mikla þörf fyrir ýmsar landbúnaðarafurðir, og er þá sjálfsagt að leita í þeim efnum til byggðanna í Árnes- og Rangárvallasýslu, en í Rangárvallasýslu er um sandalendingu að ræða, sem er miklu meiri örðugleikum bundin en þó þarna á Stokkseyri, þar sem innsiglingin hefir stórum bætzt á síðasta ári. — Ef duglegum manni, eins og hér á sér stað í sambandi við þessa umsókn, væri hjálpað til þess að halda uppi reglubundnum ferðum með bát sínum þarna á milli Stokkseyrar og Eyja, ætti það að geta orðið til þess að örva viðskiptin þarna á milli, og orðið til beins og óbeins gagns í framtíðinni. — Ég tel hart, ef hið háa Alþ. sér sér ekki fært að tryggja það, að þessar samgöngur megi verða, þar sem Vestmannaeyjar og suðurströndin hafa þá aðstöðu, sem allir vita, og ekki hægt að eiga það víst, að neinn verði til þess að halda uppi regluhundnum ferðum, nema hann sé að einhverju leyti styrktur til þess. Ég get því látið máli mínu lokið um þessa till., en vænti þess fastlega, að hv. þm. sjái sér fært að greiða þessari till. atkv. sitt.

Eins og ég gat um, er þetta eina till., sem ég hefi borið fram, en fyrst ég reis úr sæti mínu, gel ég ekki á mér setið að fara fáum orðum um örfáar till., sem hér liggja fyrir, af því að það eru þær till., sem ég hefi sérstakan áhuga fyrir að lýsa, hvaða afstöðu ég hefi til.

Tiltölulega snemma á þessu þingi skrifaði ég fjvn. bréf og mæltist til þess við hana, að hún veitti nokkurn styrk í viðurkenningarskyni til tveggja ágætismanna austanfjalls, sem hafa hvor á sínu sviði unnið, mér er óhætt að segja, afreksverk. Annar maðurinn er Jón Sturlaugsson á Stokkseyri, sem hefir verið hafnsögumaður þar, í þeirri vandasömu lendingu, um áratugi, og ekki aðeins farizt það prýðilega úr hendi, heldur hefir hann reynzt bjargvættur margra manna frá bráðum bana. Sennilega mun hann hafa bjargað frá drukknun ekki færri en 60 manns fyrr og siðar, eða rúmlega það, og hefði það einhverntíma þótt frækilega aðgert. Hann hefir mér vitanlega ekki fengið neinn opinberan styrk fyrir þessi afrek sin. Hann mun að vísu hafa verið sæmdur einhverju heiðursmerki. Maðurinn er gamall, fátækur og heilsulaus, og fyndist mér mjög sæmilegt fyrir Alþ. að kunna að viðurkenna þetta. — Þessu hefir fjvn. svarað á þann veg, að hún hefir ætlað honum 300 kr. viðurkenningu í 18. gr. fjárl. Ég verð að segja, að hún vill ekki alveg ganga fram hjá þessum manni í því að sýna honum viðurkenningu, en lítið er það, úr því að hún tók þessa till. upp í fjárl. á annað borð. Og lítið er það, þegar maður ber þetta saman við þann fjölda manna, sem ætlaður er drjúgur styrkur á sömu gr. fjárl. fyrir allt annarskonar störf. Náttúrlega verður maður að líta svo á, að ýmsir þessara manna séu maklegir hinnar beztu viðurkenningar, en það er sá andi hér á Alþ., að meta þessi störf, bókmenntaviðleitni ýmiskonar, langtum meira en hin verklegu afrek. Ef þeir hefðu staðið hlið við hlið, og það ætti að meta það, hvor ætti viðurkenningu frekar skilið, afreksmaðurinn Þorgeir í Vík eða Henrik Ibsen, sem kvað um hann, þá hefði eftir þessum mælikvarða Henrik Ibsen átt allt saman, en hinn mátt hverfa úr veröldinni með alla erfiðleikana án þess að hafa fengið nokkra viðurkenningu. Svona er það með þessa menn. Að vilja ekki sýna manni eins og Jóni Sturlaugssyni, sem hefir bjargað mörgum mönnum með því að stofna lífi sínu í voða, meiri viðurkenningu en þetta, það er skilningsleysi, það er rangt. Jón Sturlaugsson, hann er hetjutýpan, og ef skáldin þyrftu að taka sér menn til fyrirmyndar, þá er tilvalið að taka mann eins og Jón Sturlaugsson.

Hinn maðurinn, sem ég minntist á í erindi mínu til fjvn., er bóndi þarna fyrir austan, Jón Gestsson í Villingaholti í Flóa, sem hefir unnið sér það til ágætis, að smíða spunavélar, af því að hann er svo listfengur; og með þessum störfum hefir hann flestum öðrum fremur örvað heimilisiðnaðinn þar um slóðir. Hann er nú kominn að fótum fram og að mestu hættur að geta unnið að þessu handverki sínu. Þætti mér því maklegt, að honum hefði verið sýnd einhver viðurkenning, en n. hefir ekki séð sér það fært, og ég get þá ekki verið að bera fram brtt., hvorki að því er snertir Jón Sturlaugsson eða þennan mann, bara til þess að láta fella þær. Það þýðir ekkert. Ég vona, ef þessir öldruðu merkismenn eiga líf fyrir höndum, þá komi þing eftir þetta þing, og þá megi leiðrétta þetta. Ég vil láta þess getið, að fjvn. hefir í mörg horn að líta og verður að hafna mörgu, en ég tel, að sumt hefði frekar mátt liggja í láginni en það, sem ég hefi gert hér að umtalsefni. Ég skal svo ljúka máli mínu um það.

Ég kann fjvn. þakkir fyrir að hafa tekið upp í brtt. sínar dálítinn styrk til Þorstelns Bjarnasonar frá Háholti. Hann hefir notið styrks áður á fjárl., og þessar 300 kr., sem hann hafði áður, hefir fjvn. þóknazt að taka upp aftur. Hann hefir lagt stund á söfnun örnefna hér á Suðurlandi, og hefir miklu áorkað í örnefnasöfnun, sem annars hefði verið hætta á, að hefði glatazt.

Hérna sé ég í brtt. á þskj. 400, einnig frá fjvn., að það er mikilsvarðandi málefni, sem hún hefir tekið þar til úrlausnar. Það er 124. brtt. á því skjali, um að velta mjólkurbúi Ölfusinga fjárhagslegan stuðning. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. sé það mál nokkuð kunnugt, og mér finnst fjvn. hafa hagað till. sínum skynsamlega. Það er ætlazt til, að þetta verði gert til bráðabirgða, og ég álít, að eins og sakir standa, hafi varla verið hægt að hafa aðra aðferð en þarna er höfð, og vænti, að hv. þm. taki þessu með skilningi og að till. nái fram að ganga.

Þá er á sama þskj., frá fjvn., till um heimild handa ríkisstj. til að semja við Búnaðarbankann um Flóavegalánið. Ég skoða það litið annað en formið að samþ. þetta, því að sýslufélag Árnesinga hefði fyrir löngu átt að vera laust við þetta lán, þó að það sé komið í óefni vegna misgánings.

Alveg sama er að segja um næsta lið, 5. liðinn, að færa niður viðlagasjóðslán til Miklavatnsmýraráveitunnar, því það er vitanlegt af reynslunni, að ýmsir, sem áttu að henni að búa, hafa ekki orðið hennar aðnjótandi, og því er rétt að þessir menn njóti skuldaskila á láninu.

Hér var einhversstaðar einn liður, sem mér leikur hugur á að minnast aðeins á. Það er sameiginleg till. frá nokkrum hv. þm. um að styrkja íþróttafélag í sambandi við kaup á eigninni Kolviðarhóli. Ég á ómögulegt með að láta annað í ljós en að mér væri það fagnaðarefni, ef hv. Alþ. sæi sér fært að verða við þessari till. Og ég get sagt af hverju. Það er af því, að Kolviðarhóll hefir verið rekinn undanfarna áratugi af miklum dugnaði og fórnfýsi fyrir marghrakta ferðamenn, sem hafa leitað þarna gistingar og ávallt fengið hinar beztu viðtökur. Nú eru breytt viðhorf, og nú þarf þessa ekki við. En frú Valgerður Þórðardóttir, ekkja Sigurðar Daníelssonar, er svo margs góðs makleg, að henni væri það styrkur, ef íþróttafélaginu væri hjálpað til þess að kaupa Hólinn. Það væri ekki nema makleg viðurkenning, og ættu hv. þm. því fremur að verða við þessari till.

Hérna er ein till. frá hv. 2. landsk., um að verja a. m. k. 30 þús. kr. af ágóða áfengisverzlunarinnar til þess að koma upp sjúkraskýli handa mönnum, sem hafa orðið fyrir heilsutjóni af völdum áfengisnotknnar. Ég álít, að hún sé svo sanngjörn og eigi við svo mikil rök að styðjast, að það megi ekki þegja hana fram af sér. Eg veit, að ríkið þarf á sínu að halda, og því veitir sízt af áfengisarðinum, en þessi arður er þannig fenginn, að ríkinu ber siðferðisleg skylda til að miðla einhverju af þessu fé til þess að hjálpa þeim aftur í land, sem lent hafa í flugstraumnum vegna þess, hve auðvelt er að fá þessa munaðarvöru, sem hefir orðið miklum fjölda til skemmdar og eyðileggingar.

Ég skal svo að síðustu minnast á eina till. Það er IX. till. á þskj. 485, frá þeim hv. þm- Borgf. og hv. þm. Mýr., um það að heimila ríkisstj. annaðhvort, að undangenginni rannsókn, að reisa rafmagnsstöð við Andakílsárfossa og leiða þaðan rafmagn til Akraness og Borgarness og nágrennis eða flytja rafmagn til þessara staða frá Sogsvirkjuninni, og taka lán til þeirra framkvæmda. Þetta kemur hér inn á fjárlagabrautina á síðustu stundu, málefni sem áður hefir verið til umr. hér á Alþ. í sambandi við raforkulög, sem nú eru til umr. í hv. Ed. Ég man, þegar þess var getið af öðrum félaganna, hv. þm. Mýr. eða hv. þm. Borgf., að þeir myndu flytja till. í þessa átt, að því var haldið fram, að það yrði til þess, að aðrir kæmu á eftir. Ég get vel fallizt á þá till., sem kom fram undir umr. málsins, ef ég man rétt frá hæstv. fjmrh., um það, hvar ætti að byrja á þessum framkvæmdum, að þessi lagasetning, sem hér hefir legið fyrir og nú er í hv. Ed., sé einskonar rammi utan um þetta málefni, en síðan yrði sérstök löggjöf sett um hverja einstaka virkjun, að undangenginni rannsókn. Ég get fallizt á, að þessi leið sé eðlileg, og að þessa leið eigi að fara, en úr því að svona till. er komin fram við fjárl., eins og ég minntist á, frá hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr., þá tel ég sanngjarnt og,rétt, að svipuð till. og komi annarsstaðar frá. Eg vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. við fjárl., sem hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Við 22. gr. XII. Nýr liður: Að koma því til vegar, að flutt verði rafmagn frá Sogsvirkjuninni til Selfoss, Eyrarbakka og Stokkseyrar og taka nauðsynlegt lán til þeirra framkvæmda.“

Ég hirði ekki um að skýra þessa till. nánar. Hún er komin fram að gefnu tilefni, og vil ég því, um leið og ég lýk máli mínu, afhenda hana hæstv. forseta.