21.03.1938
Neðri deild: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Sjútvn. hefir haft þetta mál til meðferðar og borið frv. saman við nokkur eldri hafnarl., og sömuleiðis hefir hún sent það vitamálastjóra til umsagnar. Í fskj., sem fylgir nál. á þskj. 102, er birt bráðabirgðakostnaðaráætlun, sem vitamálaskrifstofan hefir gert um hafnarbætur á Raufarhöfn.

Þessi brb.kostnaðaráætlun er reiknuð út eftir þremur leiðum, eins og hv. þm. geta séð á þskj., og er við þær nokkuð mismunandi kostnaður, en hér vantar áætlun um nokkurn bryggjukostnað, sem mun verða talinn óhjákvæmilegur síðar meir, og þær upphæðir, sem eru tilteknar í frv., eru miðaðar við, að þær framkvæmdir séu gerðar.

N. er sammála um að mæla með, að frv. verði samþ. með þeim lítilsháttar brtt., sem hún hefir gert og eru hér á þskj. Í fyrsta lagi er ábyrgðarheimild ríkissjóðs færð til samræmis við þær reglur, sem teknar hafa verið upp í hafnarlög frá síðasta þingi, að ríkissjóður er ábyrgur fyrir 2/3, kostnaðar, og er það jafnmikið og tillag hafnarsjóðs.

Þá er orðabreyt. við 3. gr., sem ekki skiptir miklu máli. Sömuleiðis er lítilsháttar breyt á 4., 7. og 10. gr. Breyt. á 10. gr. er aðeins leiðrétting, og í 7. gr. er gert ráð fyrir, að kosning manna í hafnarnefnd fari fram að afstöðnum reglulegum sveitarstjórnarkosningum og séu allir nm. kosnir í einu. Nm. voru allir sammála um, að heppilegra væri að hafa slíkt ákvæði í hafnarl., vegna þess hvernig sveitarstjórnarkosningum er nú háttað.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en mæli með því f. h. n., að frv. verði samþ. með framkomnum brtt.