08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

1. mál, fjárlög 1940

*Ásgeir Ásgeirsson:

Þar sem ekki liggur neitt hér fyrir við þessa umr. fjárlfrv. þrátt fyrir hinn ákaflega langa tíma, sem fjvn. hefir haft til starfa síns, er ekki hægt að tala um þessar till. almennt. Ég vildi fyrst minna á þær brtt., sem ég flutti á þskj. 408, ásamt hv. þm. Barð. Það er nú svo, að starfsfé fiskimálanefndar af utanaðkomandi ástæðum hefir rýrnað allverulega; a. m. k. eru ekki líkindi til, að n. veiti nokkurt fé til byggingar nýrra skipa. Hinsvegar er útlit fyrir, að bæta þurfi starfsmönnum við hraðfrystihús, því jafnvel á næsta ári er útlit fyrir, að markaður verði vaxandi fyrir hraðfrystan fisk. Við hv. þm. Barð. höfum talið, að það, sem mælir gegn till. fjvn. um niðurskurð á framlagi til fiskimála, sé það, að víða á landinu eru til gömul íshús, sem með tiltölulega litlum kostnaði mætti breyta í hraðfrystihús. Hraðfrysting fiskjar með flökun er sá hlutur, sem hefir mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn og líklegur er til að auka hann þegar á næsta ári. Þess vegna má telja nauðsynlegt að veita meira fé í þessu skyni en fjvn. hefir áætlað.