28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (1051)

1. mál, fjárlög 1940

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Um þetta fjárlfrv. fyrir árið 1940, sem hér liggur fyrir, skal ég ekkert segja, því að fæst orð hafa þar minnsta ábyrgð. Hinsvegar liggja fyrir ýmsar brtt., sem ég vildi minnast á, sumpart af því, að ég vildi fá frekari upplýsingar um þær, og sumpart af því, að ég get ekki látið hjá líða að segja afstöðu mína til þeirra, og líka að nokkru leyti gefa upplýsingar, sem mér virðast ekki hafa ennþá komið fyllilega fram.

Það er þá fyrst 41. brtt. á þskj. 587, sem gerir ráð fyrir 2 þús. kr. sparnaði við ríkisskattanefnd með því að greiða nm. þannig, að þeir fái 10 kr. fyrir hvern fund. Þarna mundu engar 2 þús. kr. sparast, þó að þessi brtt. yrði samþ. Fundir eru um 160–170 í n., og þó eru málin ekki afgr. á fundum nema að nokkru leyti, heldur fer mikið af vinnunni fram utan funda. T. d. höfum við nú verið lengi að semja reglugerð um fyrningu, og langmest af þeirri vinnu fer fram utan funda. Svo þegar við erum þannig búnir að velta málunum fyrir okkur, þá höldum við fund um þau. Ég er ekki viss um, ef á að fara að borga okkur þannig 10 kr. fyrir hvern fund, nema við færum þá að halda fundi um þessi mál, sem annars yrðu ekki haldnir fundir um. Hér yrði því ekki um 2 þús. kr. sparnað að ræða, heldur kannske 1000 kr. eða ekki það.

Á sama þskj. 53,a.2 og 53,b.3 er framlag til sama vegar bæði af vegafé og benzínfé. Á þessi vegur að vera á þessum liðum báðum, eða er það af misgáningi, að hann er þarna á tveimur stöðum? Mér þykir ekki líklegt, að hann eigi að vera þannig á tveimur stöðum og vil gjarnan fá upplýsingar um það.

Þá er það 54. liðurinn og raunar fleiri liðir, sem mér finnst bera vott um, að mörgum liðum sé slengt saman í eitt. 54. liðurinn slengir saman styrkjunum til ferjuhalds. Að vísu var lesið upp, hvert fjvn. ætlaðist til, að þetta fé færi, og sama er að segja um styrkinn til dýralækna. Mér líkar þetta heldur illa. Mér líkar heldur illa, þegar verið er að koma af manni sjálfum þeirri ábyrgð, sem maður á að bera, og eins og sé verið að skella því yfir á aðra menn. Við erum kosnir á þing til að ákveða fjárveitingar og greiða atkv. um fjárveitingar. Og að fleygja svo upphæðum þannig í vissa aðila eða stofnanir og segja: „Þetta fáið þið, og, ég skipti mér ekki af, hvert það fer“, líkar mér illa. Mér finnst líka eins og verið sé að fela meira og minna fyrir almenningi, hvað er gert við þetta fé. Hver veit um það utan þings, sérstaklega ef umr. eru ekki prentaðar? Hvernig á þá að verja það að láta þennan og ekki hinn fá styrkinn? Ég vildi biðja hv. fjvn. að athuga, hvort þetta mundi ekki vera bæði hættuleg og röng breyting. Ég held, að þessi stefna yfirleitt sé varhugaverð, og því lakari, sem oftar og meir er í þá átt gengið.

Þá er það 73. brtt. á sama þskj. (587), um að hækka styrk til unglingafræðslu utan kaupstaða úr 22 í 30 þús. Það hefir verið upplýst, að þessi kostnaður hafi farið ört vaxandi og að ógreiddar væru 5 þús. kr. af kostnaði síðasta árs. Nú skilst mér, að 5 þús. við 22 þús. geri 27 þús. og að minni muni kostnaðurinn ekki verða, auk hins ógreidda, fyrst hann hefir stöðugt vaxið. Ég vildi bara benda n. á þetta og að ég er þá hræddur um, að 30 þús. reynist alls ekki nóg.

Á þskj. 619 langar mig til að benda á 23. brtt., frá hæstv. landbrh., um hækkun á framlagi til jarðakaupasjóðs úr 20 í 85 þús. kr. Ég geri ráð fyrir, að ég geti ekki alveg látið þessa till. líða hjá mér, og vona að geta komið brtt. frá mér að á morgun, a. m. k. skriflegri. Lögin um óðalsrétt og lög um jarðakaupasjóð ríkisins ætlast greinilega til þess, að menn, sem taka jarðir sínar á erfðafestu, greiði afgjaldið í peningum. Því er ekki fylgt í framkvæmd. Ég vil fá þarna inn í fjárl. klásúlu um, að það sé gert. Ég tel ástæðulaust að svipta jarðakaupasjóð tekjum og framfylgja ekki lögunum. Ef sjóðurinn fær þessi afgjöld, yrði allt hægara um vík í þessum efnum, og þyrfti þá ekki eins mikil framlög til hans og ella.

Hv. samþm. minn (PHerm) er búinn að tala fyrir 35. brtt. á sama þskj., og þarf ég þar engu við að bæta, skal aðeins segja það, að foreldrar þessa unga bónda hafa átt 11 börn og verið bláfátækir, en hann hefir nú tekið þau til sín með yngri systkinin, það yngsta á 4. ári, og sér fyrir þeim öllum. Þarna hefir hann sýnt óvenjulegan áhuga, og ég held, að líka megi lita á það, þegar að því kemur að greiða atkv. um þessa tillögu.

Á þskj. 636, frá fjvn., er lagt til í 14. lið, að 3900 kr. skuli veittar til greiðslu á skuldavöxtum fjögurra tiltekinna læknisbústaða. Þegar þeir voru reistir, fengu þeir allir samskonar tillög og aðrir læknisbústaðir. Nú vil ég spyrja: Að hverju leyti eru þær sérástæður þarna til staðar, að greiða eigi vexti þessa, en ekki fyrir aðra læknisbústaði, sem ýmist eru verr settir hvað fjölmenni læknishéraðanna snertir eða skuldugri, eða þá hvorttveggja? Hvaða ástæður eru þarna, sem ekki eru annarstaðar? Það langar mig til að fá upplýsingar um, áður en ég greiði atkv. um þennan lið.

Þá langar mig til að segja, að mér er ekki alveg sársaukalaust að sjá, að núna hafa fallið burt framlög til eins þess vegar í mínu kjördæmi, sem lengi hefir staðið í fjárl. og nuddazt fyrir það áfram um nokkra km. á ári. Það er Vopnafjarðarvegur. Ég hefi þó sætt mig við það vegna þess, að úr þessum sama hreppi er verið að leggja veg inn á aðalveginn milli Múlasýslna og Norðurlands, og vantar ekki nema ríflega þá upphæð, sem nú er veitt til hans í fjárl., til þess að honum verði lokið. Um það hefir verið talað við ríkisstj. og farið fram á það, ef ekki skyldi vanta nema 1–2 þús. kr. í viðbót við þær 22 þús. kr. af benzínfé, sem veittar eru til þess að ljúka honum, að þá verði það gert.

Mér er ekki heldur sársaukalaust, að felld er niður fjárveiting til að fullgera bryggju þar norður frá, fjárveiting, sem staðið hefir tvö ár í fjárl. án þess að vera notuð, vegna þess að vantað hefir framlög á móti. En nú er búið að safna til bryggjunnar nokkru fé og fá sýsluábyrgð fyrir láni til hennar. Ég treysti því, þótt upphæðin falli hér niður nú, að endurveiting fáist, þegar um hægist, og að ekki þurfi að liða mörg ár, þangað til hægt er að hrinda þessu í framkvæmd.

Áður en ég lýk máli mínu, vil ég benda á tvær brtt., sem eru ósköp meinlausar að sjá, 36. brtt. á þskj. 619 og 3. brtt. á þskj. 639, frá hv. þm. Vestm. (JJós) og hv. þm. A: Sk. (JÍv), um að verja tekjum af lóðum og löndum í Vestmannaeyjum og Hafnarkauptúni til varnar gegn uppblæstri og landbroti á þessum stöðum, í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Það er nú svo, að þegar maður er búinn að fá lendur á erfðafestu gegn lágu afgjaldi, eins og er t. d. í Vestmannaeyjum, þá eru það dálítið undarleg viðskipti, borin saman við annað, ef ríkið á síðan að verja afgjaldinu til umbóta og eignasköpunar fyrir erfðafestuhafann. Svo þegar land er tekið af honum í lóðir undir hús við stækkun kaupstaðarins, fær hann borgun eins og um eign hans væri að ræða. Ég álít, að í þessu máli eigi ekki að brjóta hinar eðlilegu meginreglur. Þessar lendur eiga að byggjast á erfðafestu með góðum kjörum, og svo eiga mennirnir, sem taka þær, að gæta þeirra við landspjöllum, þarna eins og annarstaðar.

Þá vildi ég spyrja hv. fjvn., hvort ekki sé óumflýjanlegt að taka inn í fjárl. hækkanir á sumum launagreiðslum. Eitt af þeim verkum. sem Alþingi á eftir, áður en því er slitið, er lausn gengismálsins og þess, sem því fylgir. Ég gæti minnt á barnakennara og fleiri láglaunamenn. Er ekki sjálfsagt að horfast í augu við þann virkileika og taka óumflýjanlegustu hækkanirnar inn í fjárl., áður en þau eru samþ.? Hv. fjvn. hefir vafalaust athugað þetta eitthvað. En ég hefði viljað heyra, hvort hún telur ekki rétt, að þetta sé gert.

Þá á ég með hv. þm. Mýr. (BÁ) l4. brtt. á þskj. 637, um að greiða ræktunarsjóði vangoldið framlag til vaxtalækkunar árin 1938 og 1939. Þegar ræktunarsjóðslögunum var breytt og hann var skyldaður til að lækka vexti niður í 5%, var öllum ljóst, að sjóður, sem hefir fengið meginið af starfsfé sínu með verðbréfum, sem 6% vextir eru greiddir af, hlýtur við það að verða fyrir miklum skakkaföllum. Þess vegna var ákveðið, með fullu samkomulagi allra, að heimila ríkissjóði að greiða þennan vaxtamismun. Seinna, þegar mönnum þótti horfa illa með hag ríkissjóðs, var ákveðið að láta falla niður ríkissjóðsgreiðslur til lækkunar á skuldavöxtum mjólkurbúa, rjómabúa og frystihúsa. Það var ekki ætlunin að láta þessa breyting ná til vaxta af bréfum ræktunarsjóðs. En eins og hún var orðuð, má túlka hana þannig, að hún nái einnig til ræktunarsjóðsins, og það hefir orðið svo í framkvæmd. Tjón sjóðsins af þessu árin 1938 og 1939 er orðið 51424 kr.; halli af vaxtamismun bréfanna og lánanna nemur þeirri upphæð. Þegar á allan hátt er þrengt að ræktunarsjóði, eins og nú, og hann er ekki enn búinn að fá það milljón kr. framlag, sem hann á að fá að lögum, en á sama tíma gerðar ýmsar ráðstafanir, sem hljóta beint og óbeint að draga úr starfsemi hans og framkvæmdum, sem hann lánar fé til, þá finnst mér ekki mega minna vera en staðið sé við það, sem einu sinni hefir verið samþ. Við leggjum til, að heimilað sé að greiða á næsta ári hinn vangoldna vaxtamismun ræktunarsjóðs fyrir þessi tvö ár. Og er þá gengið eins skammt og hægt er til þess. að ræktunarsjóður geti skaðlaus haldið sinni starfsemi áfram. Það er ekki hægt að samrýma það, að á sama tíma, sem við viljum með öllum ráðum efla atvinnu í landinu, búum við svo að ræktunarsjóði, að hann getur sama sem ekkert lánað þeim, sem vinna að umbótum til aukinnar atvinnu og framleiðslu. Í því er sú mótsögn, að ég vona, að Alþingi sjái sér ekki annað fært en samþ. þetta.

Loks vildi ég gera þá fyrirspurn um 5. brtt. á þskj. 19, þar sem lagt er til að veita fé til brúargerða, — 20 þús. til brúar yfir Jökulsá á Brú —, hvort það sé tilætlun flm., að það verði brú við Hjarðarhaga eða hjá Brú. Heima í hreppnum er áhugi fyrir báðum þessum brúm, en hvor þeirra sem er kostar svolitið meira en þetta. Mig langar til að vita, við hvora þeirra er átt.