29.12.1939
Sameinað þing: 23. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (1058)

1. mál, fjárlög 1940

*Finnur Jónsson:

Í næturumr. vék hv. þm. V.-Húnv. nokkrum orðum að heimssýningunni í New York. Taldi hann réttara að verja fé landsins til annars þarfara en heimssýningarinnar. Till. um framlagið til heimssýningarinnar hefir komið fram fyrir eindregin tilmæli fulltrúa ríkisstj. í Vesturheimi, Vilhjálms Þórs, og maður skyldi þó gera ráð fyrir, að hv. þm. V.-Húnv. myndi meta tillögur hans í þessum efnum einhvers. En það hafa verið eindregin tilmæli þessa manns, að Ísland héldi áfram þátttöku sinni í heimssýningunni. Viðskipti okkar við Evrópu eru mjög erfið, þau geta farið versnandi áður en lýkur, og okkur er því hin mesta nauðsyn að knýta ný viðskiptabönd við hinn mikla markað Vesturheims. Þátttaka okkar í heimssýningunni gerir okkur hægara um vík að taka upp þessi viðskipti og kynna land okkar þar vestra, og þess vegna tel ég ekki rétt að taka ekki til greina ráðleggingar og tilmæli manns, sem hefir allra manna bezt vit á þessum málum.

Hv. þm. V.-Húnv. vék að aths. mínum við till. meiri hl. fjvn. um kaup á Húsavíkurverksmiðjunni og 200 þús. kr. lán til vegalagningar um Siglufjarðarskarð og Melrakkasléttuveginn. Ég hefi þegar gert grein fyrir afstöðu minni í þessu máli og tel þarflaust að endurtaka ummæli mín.

Hv. þm. S.-Þ. hélt hér eina af sínum stóru ræðum, sem virtist vera boðskapur um, að stórbreytinga væri að vænta hjá háttv. þm. Hann lýsti því átakanlega, að hann hefði í hvívetna barizt fyrir því, að útrýma rógi og lygum, einkum er þær birtust sem árásir í bókmenntum og blaðaskrifum. Mér þykir vænt um, ef um er að ræða alvarlega stefnubreyt. hjá hv. þm. í þessum efnum. Blaðalesendur munu án efa taka því fegins hendi, er hann vill leggja lið sitt til að útrýma því, sem oft hefir einkennt blaðaskrif hv. þm. S.-Þ. frá fyrri árum.

Hv. þm. S.-Þ. eyddi helming ræðu sinnar í að tala um atstöðu mína til verksmiðjumálsins. Ég var því meðmæltur, að verksmiðjan á Önundarfirði væri keypt. En það er ekki rétt, að ég hafi ráðið því, að hún yrði keypt. Ég vil benda þeim, sem hafa gleymt þessu, á að líta í Þingtíðindin frá 1933, þskj. 168. Meiri hl. sjútvn. flutti þá þáltill. um heimild til handa ríkisstj. til að kaupa síldarverksmiðjuna á Sólbakka. Í meiri hl. sjútvn. voru núv. viðskmrh., þm. Barð., þm. Vestm. og undirritaður. 4 af 5 nm. voru flm. till., og þar af voru 2 framsóknarmenn. Það er því minnisleysi hjá hv. þm. S.-Þ., þegar hann heldur því fram, að ég einn hafi sérstaklega staðið að till. Einn af nm., þm. G.-K., var till. mótfallinn. Þegar bornir eru saman möguleikarnir, sem voru fyrir hendi við kaup á Sólbakkaverksmiðjunni, við kaup á Húsavíkurverksmiðjunni, þá verður að minnast þess, að um það leyti og Sólbakkaverksmiðjan var keypt, var von um að geta rekið þar karfaveiðar sem atvinnugrein, og fyrstu árin voru þær veiðar stundaðar. Það er því alrangt að bera þetta tvennt saman án tillits til aðstæðnanna og halda því fram, að ég og Alþfl. hafi svo að segja einir staðið að kaupum á verksmiðjunni.

Hv. þm. S.-Þ. hélt því einnig fram, að ég hefði farið með staðlausa stafi í ummælum mínum um Húsavíkurverksmiðjuna. Samanburður minn á kostnaðinum á Húsavíkurverksmiðjunni og öðrum verksmiðjum var tekinn úr skýrslu Jóns Gunnarssonar, og verður hv. þm. S.-Þ. að eiga við hann um þessar upplýsingar. Þótt ég beri mikla virðingu fyrir sannleiksást og tölvísi hv. þm. S.-Þ., þá sé ég þó ekki betur en að Jón Gunnarsson hafi rétt fyrir sér. Ég benti á kostnaðarmuninn á vinnulaunum í Húsavíkur- og Sólbakkaverksmiðjunni, sem hvorki nemur meira né minna en 1.40 kr. á smálest, og munar þá um minna, þegar síldin er í 3 kr. til sjómanna og útgerðarmanna.

Hv. þm. S.-Þ. talaði þannig um vinnslu á síld. að efasamt er, hvort hægt er að bera mikla virðingu fyrir viti hans á þessum atvinnuvegi. Hann sagði, að ef vit væri í að kaupa verksmiðju á Sólbakka, þá væri svo líka á Húsavík. Það er rétt að því leyti, að ef um sambærilegar verksmiðjur væri að ræða, þá væri auðvitað ekki hægt að gera upp á milli stöðvanna. En þegar um er að ræða verksmiðju, sem vinnur úr 5000 málum síldar, þar sem vinnulaunin eru 0.40 kr. á smálest, og aðra verksmiðju, er vinnur úr 4000 málum og vinnulaunin eru 1.80 kr. á smálest, þá nær samanburðurinn auðvitað ekki nokkurri átt. —

Hv. þm. S.-Þ. talaði um eyjar úti í reginhafi, en svo nefndi hann Siglufjörð og Raufarhöfn. Hann finnur svo til með fólkinu, sem þarna býr, að hann býr til eyjar í landafræði okkar Íslendinga. Nú er það svo um Raufarhöfn, að þangað er veglaust á landi, en það má segja, að þangað sé líka veglaust á sjónum. Á ég þar við, að inn á Raufarhöfn geta ekki komizt nema minnstu skip; stórir línuveiðarar, togarar og flutningaskip komast ekki inn á höfnina. Það er því erfitt um flutninga á síld til Raufarhafnar nema á minnstu skipum og erfitt um vöruflutninga nema á mjög grunnskreiðum skipum. Það er mjög undarlegt, að hv. þm. S.-Þ. skuli ekki hafa komið auga á þessa vegleysu til Raufarhafnar. En stj. síldarverksmiðja ríkisins hefir löngu verið það ljóst, að sú vegleysa, sem fyrst og fremst þarf að bæta úr á leiðinni til Raufarhafnar, er höfnin sjálf. Það þarf að dýpka hana til þess að þar verði öruggt um alla lendingu. Og það hefir verið gerð áætlun um þetta, að slíkt myndi kosta 150000 kr., en efalaust fer þetta verk fram úr áætlun vegna stríðsins, þar sem þessi áætlun var gerð áður en það hófst.

Það er þessi vegleysa, sem hv. þm. S.-Þ. virðist ekki koma auga á, að þurfi að bæta fyrst og fremst úr á Raufarhöfn. Nú er Presthólahreppur, sem á þessa höfn, fátækur og hefir ekki ráð á að leggja neitt fé af mörkum í þetta. Það eru þess vegna allar líkur til að ein af þessum síldarverksmiðjum verði að leggja fram fé í það verk, eða að lána hafnarsjóði Raufarhafnar það fé, sem þarf til þess að dýpka höfnina. Þar kemur enn upphæð í viðbót við það, sem ég var að lýsa hér í gær, að væru hjá síldarverksmiðjum ríkisins til framkvæmda fyrir verksmiðjurnar. Nú hefir hv. þm. S.-Þ. sagt það, að mér færist ekki að tala um, hvernig ætti að verja fé síldarverksmiðjanna; því fé hefði verið varið í ýmsu öðru skyni en til hagsbóta fyrir síldarverksmiðjurnar, þar sem ég hefði staðið fyrir byggingu síldarþróarinnar á Siglufirði, sem hefði kostað 270000 kr.

Eftir því, sem ég man bezt og mínar skýrslur herma, kostaði þróin kr. 232000.00. En fyrir hinn mikla fjármálamann, hv. þm. S.-Þ., munar náttúrlega ekkert um 38 þús. kr., hvorki til né frá. Auk þess er það að segja um þessa þró, að að henni stóð ekki ég einn, heldur stj. síldarverksmiðja ríkisins. Þar á meðal áttu sæti í stj. síldarverksmiðjanna einn af ágætustu stofnendum Framsfl., Þorsteinn M. Jónsson, sem nú á sæti í stj. síldarverksmiðjanna, og Þórarinn Egilson í Hafnarfirði. Og hafa um allar framkvæmdir, sem gerðar voru við síldarverksmiðjurnar, ekki aðeins atvmrh. þáverandi, heldur og viðskmrh. fylgzt með öllum ráðagerðum í þessu efni. Hv. þm. S: Þ. sagði svo, að þetta væri það vitlausasta mannvirki, sem byggt hefði verið á Íslandi. Ég hefi nú aldrei heyrt það, að mannvirki út af fyrir sig hefðu vit, og það er kannske ein af þeim nýju uppfyndingum hv. þm. S.-Þ. En hitt er það, að mannvirki má nota á vitlegan eða vitlausan hátt, og vil ég þá segja það hér, af því að það er sífellt verið að tala um þetta mannvirki hér á þingi, að ef einhver þykist hafa högg í minn garð, þá kemur hann með þetta mannvirki, sem hefir verið notað á mjög vitlausan hátt af stj. síldarverksmiðjanna. Hv. þm. S.-Þ. hélt því fram, að þessi aðferð hefði verið fyrsta tilraun með verkunarform, sem hvergi hefði þekkzt annarstaðar í heiminum. Þessi sami hv. þm. sagði reyndar seinna, að þessi tilraun hefði aldrei verið gerð. Ég veit ekki, hvernig á að samræma þetta. Þá vil ég ennfremur upplýsa það, að á Ísafirði var gerð tilraun með slíkt, og mun hún vera sú elzta, sem gerð hefir verið hér á landi, og mun vera eldri en stjórnmálaferill hv. þm. S.-Þ. Og þó að hv. þm. S.-Þ. segi, að þessi tilraun hefði aldrei verið gerð, þá liggur fyrir vottorð um það frá efnafræðingum síldarverksmiðjanna, að tilraunin hafi verið gerð, og þetta vottorð sýnir ennfremur, að tilraunin tókst eftir atvikum ágætlega. Vottorðið segir, að þann 18. ágúst hafi síld verið lögð í fremsta hólf hinnar nýju þróar. Síldin var blönduð salti og snjó þannig, að í 1148 mál síldar fóru 8,5 tonn fínt salt og 24 tonn ís, eða 5,5 kg. salt og 15,5 kg. ís í hver 100 kg. síldar að jafnaði. Snjórinn var malaður í sérstakri vél, er síðan blés snjónum í drífu yfir síldina, og var hún þannig í mánaðartíma, og var hitinn mældur annanhvern dag niðri í síldinni. Byggingu hólfsins var mjög ábótavant, því að ekki var að fullu gengið frá þrónni. Þann 18. sept. var þessi kælda síld tekin í vinnslu; efnafræðingar verksmiðjanna sögðu, að hún hefði verið í mjög góðu ásigkomulagi, heil og stinn. Hvergi sáust merki til skemmda og enga lykt var að finna úr henni við dálkinn. Um mjölið og lýsið, sem unnið var úr þessari síld, sem var mánaðargömul, er það að segja, að búizt var við, að það yrði nokkuð dekkra en úr nýrri síld, eftir þeim tilraunum, sem áður hafa verið gerðar með frysta síld, en hér virtist ekki nokkur munur. Lýsið var tært og blæfallegt, ljóst á lít, og sama gegnir með mjölið. Virtist það ekki dekkra en venjulegt mjöl úr tiltölulega ferskri síld. Í vottorðinu, sem efnafr. síldarverksm. sendu, segir, að vegna þess, að tíminn hafi verið svo stuttur, hafi því miður ekki verið kostur á að vinna þessa síld sér, og verði þess vegna að taka tölur, sem þar eru gefnar, með varúð, en það gefur góða hugmynd um, að góðum árangri mætti ná með þessari aðferð. Þessi vottorð eru undirskrifuð 24/9 1937 af efnafræðingum verksmiðjanna, Gunnari Björnssyni og Vésteini Guðmundssyni. Og þótt ég beri mikla virðingu fyrir sannleiksást hv. þm. S.-Þ., þá verð ég þó að taka vottorð þessara efnafræðinga fram yfir hans fullyrðingar, sem hv. þm. lét sér um munn fara hér í hv. d.

Ég vil í sambandi við þetta þróarmál segja það, að þróin var byggð með það fyrir augum að reyna að spara landinu nokkurskonar erlendan gjaldeyri og einnig að lengja vinnslutíma verksmiðjanna. Það leikur því ekki á tveim tungum, ef hægt er að geyma síldina um mánaðartíma í kæli, eins og hér var sýnt, að hægt er að gera, og geymslan væri ekki mjög dýr, hvort það hafi ekki verið óþarfi að kaupa allar þær vélar, sem settar hafa verið upp, og byggja allar þær síldarverksmiðjur, sem byggðar hafa verið í landinu, hvort hefði ekki miklu fremur átt að byggja kæliþró fyrir síldina. Því að eins og nú stendur, eru þrær síldarverksmiðjanna það litlar, að það kemur æðioft fyrir, að þeir, sem vinna í verksmiðjunum, og verksmiðjurnar sjálfar hafa ekkert að gera svo og svo langan tíma. Það er því ljóst, að þetta er sú merkilegasta tilraun, sem gerð hefir verið hér á landi í þessum iðnaði. Og það er stórkostleg yfirsjón — að ég segi ekki meira — af stj. síldarverksmiðjanna að hætta við forgöngu í þessu máli með því að halda áfram þessum kælitilraunum, sem gerðar voru á Siglufirði 1937 og tókust eins vel og raun ber vitni samkv. vottorðum efnafræðinga síldarverksmiðja ríkisins. Það má vel vera, að hv. þm., sem hér eru, og öðrum áheyrendum finnist nokkuð undarlegt, að ekki skyldi vera haldið áfram þessum tilraunum, ef þær hafa tekizt eins vel og ég hefi lýst. En mér kemur þetta ekkert á óvart, því að á þeim tíma, sem skipt var um framkvæmdastjóra síldarverksmiðjanna, þá var svo mikil pólitísk úlfúð á milli framkvæmdarstjórans, sem kom, og hins, sem var að fara, að það hefir bókstaflega ekkert verið látið standa óhreyft, sem búið var að gera í síldarverksmiðjunum í tíð Gísla Halldórssonar. Ég get t. d. bent á, að eitthvað það fyrsta, sem gert var eftir forstjóraskiptin, var að rífa niður girðinguna kringum verksmiðjulóðina. Nú vita allir, að á lóð verksmiðjanna er svo og svo mikið af kolum o. fl., og mikils virði, að Pétur og Páll geti ekki vaðið um lóðina og hirt þar allt lauslegt. Þá var líka búið að setja upp tímaklukku til þess að hafa gát á því, að verkamenn mættu stundvíslega til sinnar vinnu. Það hafa verið ráðnir menn til þess í stofnunum ríkisins að líta eftir, að þeir, sem þar störfuðu, mættu stundvíslega til sinnar vinnu. Og svo að segja í öllum fyrirtækjum, þar sem margir menn vinna, mun slíkt þykja nauðsynlegt. En svo mikill áhugi var hjá þessum manni fyrir því, að ekkert fengi að vera óhreyft af því, sem Gísli Halldórsson hafði látið gera, að ekki svo mikið sem þessar klukkur fengu að vera í friði; þær voru allar rifnar niður og seldar, sumar í aðrar verksmiðjur og sumar hafa verið settar upp í fyrirtæki ríkisins hér í Reykjavík.

Ég taldi rétt að skýra þetta mál fyrir hv. þdm. Ég vil vona, að hv. fjvn. sýni sinn mikla áhuga fyrir því, að unnið sé vel og dyggilega í síldarverksmiðjum ríkisins, og það verði litið eftir, hvenær menn koma til vinnu og fara, og séu til þess settar upp á ný stundaklukkur í síldarverksmiðjur ríkisins. Það er langt frá því, að ég sé að gefa til kynna með þessu, að verkamenn slæpist sérstaklega við vinnu sína í síldarverksmiðjum ríkisins, en slíkt þykir alstaðar nauðsynlegt, þar sem margir menn vinna, að hafa svona klukku.

Hv. þm. S.-Þ. sagði ýmislegt furðulegt um starf mitt við ríkisverksmiðjurnar, m. a., að ég hefði stöðugt verið að brjóta stofnlög síldarverksmiðjanna. Nú má það undarlegt heita, ef ráðh. hefði látið það óátalið, að verksmiðjustj. væri alllaf að brjóta stofnl. síldarverksmiðjanna. Hv. þm. S.-Þ. vildi halda því fram, að það væri brot á stofnl. verksmiðjanna, að þær keyptu síld með föstu verði. Þó að ég beri mikla virðingu fyrir sannleiksást þessa hv. þm., þá vil ég þó draga í efa, að hann fari þar óafvitandi með rangt mál. Því að hv. þm. S.-Þ. hlýtur að vera kunnugt um það, ekki síður en öðrum hv. þm., að í l. síldarverksmiðjanna er heimild til þess að kaupa síld föstu verði með leyfi atvmrh. Og ég fullyrði, að aldrei, hvorki í minni tíð né annara í stj. síldarverksmiðjanna, hafi nokkurntíma það ákvæði verið brotið, að fá samþykki þess atvmrh., sem verið hefir í ríkisstj. í það og það skiptið, um að kaupa síld föstu verði. Það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði um þetta, er þess vegna alveg rakalaust og tilhæfulaust. Það má geta þess, að öll þau ár, sem ég sá um síldarverksmiðjurnar, hefir það ekki komið fyrir nema í 2 eða 3 skipti, að fulltrúi Framsfl. legði til, að síldin yrði tekin til vinnslu, en ekki keypt föstu verði.

Þá vildi hv. þm. S.-Þ. halda því fram, að ég og hinir tveir aðrir í stj. síldarverksmiðjanna, Þorsteinn M. Jónsson og Þórarinn Egilson, hefðum gert okkur seka um að velja verðlag á síldina. og hann sagði, að þetta hefði orðið til þess, að landbúnaðurinn hafi borið uppi síldarverksmiðjurnar og líka vexti af sumum lánum þeirra. Þó að ég, eins og ég hefi margsagt, beri mikla virðingu fyrir sannleiksást þessa hv. þm., þá dreg ég þó í efa, að hann fari ekki með vísvitandi rangt mál hér. Hv. þm. S.-Þ. ætti að vera það kunnugt, eins og öðrum hv. þm., að síldarverksmiðjurnar hafa frá fyrstu tíð sjálfar staðið straum af sínum afborgunum og vöxtum. Það eru þess vegna tilhæfulausar blekkingar, þegar hv. þm. S.-Þ. heldur því fram, að landbúnaðurinn verði að bera uppi síldarverksmiðjurnar og vexti af lánum þeirra. Vextir af lánum síldarverksmiðjanna eru á ári hverju taldir til rekstrarkostnaðar verksmiðjanna. Nú virðist hv. þm. S.-Þ. sérstaklega halda fram, að stj. síldarverksmiðjanna, sem hefði setið 1936 til 1937, hefði gert sig seka um glæfralega verðlagningu á síld, og þess vegna hefði landbúnaðurinn orðið að hlaupa undir bagga með verksmiðjunum og borga fyrir þær vexti af þeirra lánum. Ég vil leiða Þorstein M. Jónsson sem vitni í þessu máli. Og hans vitnisburður er ekki úr lakari stað fenginn heldur en úr blaði Framsfl„ Nýja dagblaðinu, er prentað var 19. febr. 1938. Ég hefi þessi ummæli Þ. M. J. hér með höndum, að vísu uppprentuð úr því blaði, prentuð í Alþýðublaðinu sama dag. en nákvæmlega orðrétt prentuð. Þorsteinn M. Jónsson segir þar, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhagsafkoma verksmiðjanna eftir hin tvö síðustu ár, 1936 og 1937, er þá þannig:

1.

Halli greiddur á árinu 1935

kr. 58595.45

2.

Lagt í fyrningarsjóð

— 124215.99

3.

Lagt í varasjóð

— 349291.84

4.

Afborganir

— 276041.66

5.

Tekjuafgangur

— 113164.62

Samtals

kr. 921309.56

Níu hundruð tuttugu og eitt þúsund þrjú hundruð og níu krónur og 56 aurar er það, sem verksmiðjurnar hafa borgað af skuldum og lagt í sjóði hin tvö seinustu ár. Er þetta 22½% af öllu því fé, sem í þær hefir verið lagt.

Skuldlaus eign verksmiðjanna er nú 1444437.74 kr. að meðtöldum fyrningarsjóði. Ef rekstur verksmiðjanna skilar ekki minni tekjum næstu 6 ár en hann hefir gert 2 síðastl. ár, þá verða þær búnar að borga allt það fé, sem nú er búið að leggja í þær.“

Þetta eru nú ummæli Þorsteins M. Jónssonar, fulltrúa Framsfl. og eins af stofnendum Framsfl., þessa trúverðuga manns, sem hv. þm. S.-Þ. hefir nú alveg nýlega verið að skrifa lofgreinar um, og það ekki að ómaklegu, í blöðum Framsfl. hér í bænum. Og beri menn þetta saman við það, að á þessum 2 árum hafi síldarverksmiðjum ríkisins verið glæfralega stjórnað og landbúnaðurinn hafi orðið að borga upp vextina af síldarverksmiðjunum, þá kemur fram svo ótrúlega mikið ósamræmi, að hv. þm. verða að virða mér það til vorkunnar, þótt ég dragi það nokkuð í efa, að hv. þm. S.-Þ. hafi ekki vitandi vits hallað hér stórkostlegar réttu máli heldur en jafnvel dæmi eru til um þennan hv. þm.

Ég get svo farið að stytta mitt mál, m. a. vegna þess, að forseti mun vera búinn að ákveða að fresta fundi eða slíta kl. 7. En ég vildi í eitt skipti reka af höndum mér þann ósóma, sem hvað eftir annað hefir komið upp, bæði hér á þingi af hálfu Framsfl., þrátt fyrir álit fulltrúa þeirra í stj. síldarverksmiðjanna, og ennfremur utan þings af hálfu þeirra sömu manna. Það er eins og sumir þessara manna haldi, að það sé ekki neitt annað en að endurtaka sömu ósannindin nógu oft til þess að almenningur fari að trúa þeim, og mér er ekki grunlaust um, að hv. 1. þm. Eyf., sem hér er að taka fram í fyrir mér, sé einn af þessum trúgjörnu mönnum, sem trúi, ef hann hefir lesið ósannindin nógu oft í sínu flokksblaði eða hefir heyrt þau af vörum formanns flokks sins. (BSt: En hvað um hv. þm. :N-Ísf.?). Ég hefi ekki borið fram nein rök í þessu máli frá sjálfum mér. Ég hefi leitt fram sem vitni, í öðru tilfellinu Jón Gunnarsson, og í hinu tilfellinu Þorstein M. Jónsson, og formaður Framsfl., hv. þm. S.- Þ., hefir staðið berskjaldaður fyrir þeim samanburði, sem ég hefi hér lesið upp eftir Þorsteini M. Jónssyni, sem var í stj. síldarverksmiðjanna á árunum 1936 og 1937.

Eins og ég tók fram í upphafi máls míns. gladdi það mig mikið að heyra hv. þm. S.-Þ. lýsa því yfir hér á þingfundi síðastl. nótt, að hann ætlaði að taka stefnubreytingu og fara að verja kröftum sínum og lífi, að mér skildist. til þess að berjast móti lygi í bókmenntum og blaðaskrifum. Þessi hv. þm. lýsti þessum sinnaskiptum átakanlega fyrir okkur þm., sem hlustuðum á mál hans. Hann sagði, að bærinn hefði andað léttara eftir að hann hafði sýnt þennan drengskap á sinnaskiptastund. Það má vel vera, að hv. þm. S.- Þ. eigi oft eftir að bæta andrúmsloftið í bænum og bærinn eigi oft eftir að anda léttara fyrir hans sinnaskipti. Ég fyrir mitt leyti vildi óska honum þess í þeim málum, sem hann telur sig berjast fyrir, að þetta verði sem allra skjótast og allra oftast, en það hefir því miður ekki komið fram ennþá.