19.12.1939
Efri deild: 88. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

4. mál, bráðabirgðabreyting nokkurra laga

*Erlendur Þorsteinsson:

Þegar þetta mál var til 2. umr., tók ég eftir því, að brtt. þær, sem þá lágu fyrir, voru teknar aftur til 3. umr., og liggja þær því hér fyrir enn. Ég gerði ráð fyrir því, að fjhn. tæki þær til athugunar áður en þessi umr. færi fram, en þetta hefir ekki orðið, — af hvaða ástæðu það er, veit ég ekki. Ég vil vekja athygli á fjórðu brtt. á þskj. 402, sem er um það, að 400 þús. kr. útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem áður hefir gengið til fiskimálasjóðs, verði af honum tekið. Þessi brtt. mun vera borin fram með tilliti til þess, að ekki er gert ráð fyrir, að neinu verði varið af þeim styrk til byggingar nýrra skipa, enda er það ólíklegt vegna þess ástands, sem nú er. Það má vel vera, að unnt sé að segja með nokkrum rökum, að ekki sé þörf á að veita fé til slíks nú.

En ekki mun af veita að halda áfram byggingu hraðfrystihúsa, einkum í mörgum hinna Smærri veiðiþorpa, því að það eru einmitt smáveiðiþorp og smáútgerðarþorp, sem geta alveg lifað á því, ef þau hafa möguleika til þess að notfæra sér markaði fyrir hraðfrystan fisk. En nú á seinni tímum, a. m. k. áður en stríðið byrjaði, hafði tekizt að auka markað fyrir hraðfrystan fisk erlendis, og nú á stríðstímunum, ef á annað borð er unnt að halda uppi siglingum, er einkar hentugt að flytja út þann fisk, því að hann er bæði verðmætari og ekki eins plássfrekur eins og ísaður fiskur, þar eð hér er um flattan eða beinlausan fisk að ræða.

Tveir hv. þm. í Nd. báru .fram brtt. við fjárl. um, að varið yrði úr ríkissjóði til fiskimálasjóðs 100 þús. kr. á næsta ári, og yrði þeim peningum varið til þess að halda áfram að koma upp hraðfrystihúsum. En ef frv. yrði samþ. eins og það liggur hér fyrir, þá er ekki hægt að gera þetta með brtt. við fjárl.

Ég tel eðlilegt, að hv. tillögumaður taki aftur þessa till., þar sem sá hluti hv. fjvn., sem sæti á í Nd., ætti að vera einfær um að koma með brtt., ef með þarf, um það, að þetta 100 þús. kr. tillag renni til fiskimálasjóðs, en ekki verði tekin nein afstaða til þess hér í þessari hv. d. að taka alla þessa upphæð af fiskimálasjóði.

Hv. 2. þm. S.-M. tjáði mér, að hann myndi bera fram skrifl. brtt., ef hv. flm. taka ekki till. sína aftur, og er sú brtt. um, að í stað 400 þús. kr. komi 300 þús. kr., eða í fullu samræmi við það, sem komið hefir fram í hv. Nd. Ég vænti, að hv. dm. greiði atkv. með þessari brtt. með fullum skilningi á nauðsyn þess, að framkvæmdir þessar geti haldið áfram.