17.04.1939
Neðri deild: 41. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

6. mál, lax- og silungsveiði

*Pálmi Hannesson:

Ég hefi ekki miklu við það að bæta, sem hv. samþm. minn sagði, en vil þó fara nokkrum orðum um þessar brtt. Ég tel þær tvímælalaust hættulegasta fleyginn, sem reynt

hefir verið að reka í veiðil. frá 1932. Að vísu getur fyrri brtt. sýnzt saklaus, og b-liðurinn er það raunar. A-liðurinn felur þó í sér tilslökun um meginstefnu l., sem er sú, að veita ekki nein fríðindi um veiði, nema þar sem um félagsskap er að ræða, og er þar miðað við það, að þar, sem félagsskapur stendur að veiði, sé það tryggt, að ekki sé rányrkja rekin. En aðalatriðið er þó síðari brtt., þar sem reynt er að læða inn ákvæði, sem upphefur höfuðatriði l. Ef útlendingur, sem hingað kæmi, væri spurður, hvað væri það bezta við okkar veiðilöggjöf, myndi hann hiklaust svara: Það, að ekki má veiða lax í sjó. — Þetta vita þeir af biturri reynslu í öðrum löndum. Hv. frsm. talaði um, að illa hefði farið í Noregi. En ég vil benda honum á, að hvergi hefir farið betur en þar, nema á Íslandi. En hann hefði getað vitnað í Svíþjóð, Finnland eða England sem dæmi þess, hve illa hefir farið sumstaðar. Hvarvetna þar, sem sjávarveiði er leyfð, hefir laxinn þorrið. Frá Svíþjóð og Englandi hafa komið málaleitanir um að fá þangað laxaseiði frá Íslandi, og voru nýlega flutt héðan til Englands rúmlega milljón seiði. Til Svíþjóðar var ekki hægt að flytja þau, því að þangað eru ekki svo beinar skipagöngur.

Fyrir nokkru skrifaði ég veiðamálastjóranum norska og spurðist fyrir um skilyrði fyrir því, að hingað væri hægt að fá hrogn í Lagarfljót og talaði um að fá eina milljón. Ég fékk fljótt það svar, að þetta væri ekki hægt. Í Danmörku dettur mönum varla í hug, að hægt sé að koma á veiði í ánum aftur. Þannig hefir veiði þorrið í öllum löndum, nema á Íslandi, þar sem hún hefir farið vaxandi vegna l. um, að ekki megi veiða í sjó. Ef slakað væri til um hársbreidd í þessu, þá myndi þess skammt að bíða, að tekin yrðu stærri spor í sömu átt.

Hv. þm. talaði um, að mörgum þætti hart að mega ekki veiða lax í sjónum, að mega ekki leggja net sín litlu utar en lögheimilað er. Þetta er vitanlega hart, en ef til vill þykir líka sumum útgerðarmönnum hart að mega ekki veiða hér lax til dæmis í reknet. Hv. þm. var með hugleiðingar um það, hvar Atlantshafið byrjaði og hvar það endaði, og skil ég ekki, hvernig jafnglöggum manni getur dottið slík vitleysa í hug. Ef net er lagt til dæmis í Hvítárós, hver getur þá sagt, hvar Atlantshafið byrjar eða endar? En það sér hver maður, að ósinn verður að ákveða einhverstaðar.

Hv. frsm. talaði um, að ákvæði brtt. gætu engum skaða valdið, þó að hún yrði samþ. Eflaust er þó verið að fara fram á þessar undanþágur til þess að menn veiði eitthvað í sjónum. En það er víst, að sá lax, sem veiddur er t. d. úti fyrir Mýrum, verður aldrei veiddur uppi í Hvítá. Sá lax, sem veiddur er í sjó, verður aldrei bændanna fiskur. Og því miður hagar svo til víða, að ef mönnum yrði leyft að veiða í sjó fyrir löndum sinum, þá væri hægt að reka þar mjög hættulega veiði. Sumstaðar fellur sjór með miklum straumi milli lands og eyja, þegar útfall er, svo sem í kjördæmi hv. þm. Laxinn fer gegnum þessi þröngu sund og leitar í strauminn, eins og kunnugt er. Gætu þá þeir, sem eiga lönd að sundinu, þverlagt það með netjum sínum og haft betri aðstöðu en eigendur nokkurrar veiðiár, og hefir þetta vitanlega verið reynt. Þessir menn vilja nú fá lögvernd, svo að þeir geti verið öruggir við þessa veiði sína. Væri hv. frsm. nær að fara til þessara manna og fá þá til að láta af lögbrotum sinum en sækja um vernd þeim til handa.

Ég tel sem sagt síðari brtt. sérstaklega hættulega og bið hv. þingdm. að athuga það, að ef hún næði samþykki, væri þar með brotið stórt skarð í veiðil. okkar, svo að á eftir myndu smjúga stærri ódrættir inn í lögin.