06.11.1939
Neðri deild: 53. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 652 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

Finnur Jónsson:

Það er ekki ástæða til að fara að vekja upp verulegar umr. um gengisbreytingarlögin. Það má þó segja, að með þeim hafi verið farið inn á nýja braut, þar sem reynt var að binda saman hagsmuni útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna um að halda niðri dýrtíðinni í landinu, en að það sé reynt að halda niðri dýrtíðinni, getur komið verkamönnum að sama gagni og kauphækkun. Nú get ég vel skilið það, þar sem hv. 3. þm. Reykv. hefir sérstakra hagsmuna að gæta sem heildsali, að hann hafi engan áhuga fyrir því, að gerðar séu sérstakar ráðstafanir til að reyna að halda niðri verðiagi á innfluttum vörum. Það brýtur í bága við alla hans lífsstefnu, að tekin sé upp sú leið að reyna að hnýta saman hagsmuni útgerðarmanna, sjómanna og verkamanna í þessum efnum.

Hv. þm. sagði, að það hefðu allir vitað, að þessum l. skyldi ekki tjaldað nema til einnar nætur, þar sem stríðið hafi verið fyrirsjáanlegt.

Ég ímynda mér, að það hafi fáir um það vitað, hvenær stríðið myndi brjótast út, nema ef þessi hv. þm. kynni að hafa fengið fréttir um það. að stríðið ætti að byrja á þessum tíma. Það getur verið, að hann standi svo nálægt félaga Stalín, að hann geti fengið sérstakar fréttir um það, að hann ætlaði í lok ágúst að gera samning við Hitler. Aðrir en hann hafa a. m. k. ekkert um þetta fengið að vita fyrirfram. En hitt er mönnum nú ljóst, að þessi hv. þm. hafi farið með fleipur í vor, þegar hann sagði í þingræðu, að það að lækka gengið um 20%, eins og ákveðið var í l., væri sama sem að stela 20% af launum verkamanna og sjómanna, því að dýrtíðin af völdum gengislaganna nam ekki fyrstu 3 mánuðina nema 2–3%, en ekki 20% eins og hann bjóst við í þingræðu, en það er nú orðið ljóst, að hann hefir rangt fyrir sér. Að flm. og aðrir hér í þinginu hafi vitað, að þetta myndi breytast vegna yfirvofandi ófriðar, er ekkert annað en ósannindi. Allir hv. þm. vita, að það, sem hleypti stríðinu af stað, voru óvæntir samningar, sem gerðir voru milli stórveldanna og hann og hans flokksmenn hafa tekið að sér að verja.

Ég geri ráð fyrir, að ef hv. 3. þm. Reykv. hefði vitað, að ófriður vofði yfir, hefði hann látið það í ljós og þá komið með brtt., er málið var hér til umr., um að fella niður lögfestingu á kaupi verkamanna, vegna væntanlegrar dýrtíðar. Það er ekki von, að hv. þm. upplýsi það hér á Alþingi, þó hann hafi þagað yfir svo mikilsverðu atriði. — Það væri ekki nema eftir annari framkomu hans hér á landi gegn verkalýðnum og allri þjóðinni þessi síðustu ár.