03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (1205)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Það hefir orðið að samkomulagi í ríkisstj., að ég segði nokkur orð til að skýra efni brtt. á þskj. 673. Það er ekki vegna þess, að það komi meira við mínu ráðuneyti en hinum, heldur vegna þess, að þær eru gerðar í sambandi við mál, sem flutt er af mínu ráðuneyti, þ. e. a. s. breyt. á l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi. Um leið og ég geri í stuttu máli grein fyrir aðalbreytingunum, sem felast í þessum till. frá gildandi lagaákvæðum, mun ég segja nokkur orð um afstöðu Framsfl. til málsins. Síðar munu svo aðrir ráðh. skýra sín sjónarmið og sinna flokka.

Samkv. l. um gengisskráningu og ráðstafanir í því sambandi er ákveðið, að til 1. apríl n. á. skuli kaupgjald breytast eftir ákveðnum reglum, þannig, að ef framfærslukostnaðurinn hækkar um 10%, þá hækki kaupgjald sem nemur af hækkuninni, en ef hækkunin verður meiri, þá um 2/3 af því, sem fram yfir er. Þessi ákvæði voru að sjálfsögðu miðuð við þá dýrtíðaraukningu, sem menn bjuggust við, þegar gengisl. voru samþ., og það ástand, sem líklegt þótti, að af þeim gæti leitt. Síðan gengisl. voru sett hefir svo skipazt, að ófriður brauzt út og verðhækkun mun því skella á þetta land eins og önnur. Þá heyrðust strax raddir um, að gengisl. ættu ekki lengur við um kaupgjald, þar sem dýrtíðin myndi verða miklu stórfenglegri en hægt var að búast við af völdum gengislækkunarinnar. Þessu varð ekki í móti mælt; það var komið allt annað ástand, og það var, að ég hygg, samróma álit allra, að þessi ákvæði yrðu að breytast.

Það, sem fyrst kom til greina í sambandi við endurskoðunina, var það, að í gömlu gengisl. er gert ráð fyrir að taka meðaltal af vísitölu framfærslukostnaðarins eins og hann var mánuðina júlí-desember 1939 og bera saman við vísitöluna í desember árið áður. Hinsvegar er talið, að dýrtíðin af völdum styrjaldarinnar myndi fara að koma fram í nóvember og úr því. Varð því fyrsta krafan það, að í stað þess, að áður átti að miða við vísitöluna júlí-desember, yrði miðað við vísitöluna nóv.-des. Að nánar athuguðu máli held ég, að allir hafi talið þetta sanngjarnt. Lá því næst fyrir, að vegna þessa nýja ástands yrði að breyta ákvæðum gengisl. um kaupgjald að verulegu leyti, og varð ekki hjá því komizt, að þetta þing gerði það. Það hefði verið æskilegt, ef hægt hefði verið að koma á samningum milli atvinnurekenda og verkamanna svo fljótt, að Alþingi hefði ekki þurft að mynda sér um það neina skoðun. En til þess hefðu samningar þurft að komast á fyrir áramót, og ég hygg, að það hafi verið álit þeirra manna, sem kunnugastir eru þessum málum, að það væri algerlega ókleift. Það varð því ekki hjá því komizt, að Alþingi setti þarna um ný ákvæði. Þá var spurningin um það, hvort þau ákvæði ættu að gilda aðeins til 1. apríl þessa árs eða lengur. Að mjög vel athuguðu máli varð það ofan á, að fyrst Alþingi komst ekki hjá því að breyta ákvæðum gengisl., eða segja skoðun sína á því, hvernig uppbótunum skyldi háttað, sem menn hlytu að taka til hliðsjónar við samninga, þá þótti skynsamlegast að láta ákvæðin gilda til næsta árs, með það fyrir augum að tryggja mönnum hér fullan vinnufrið á þessu fyrsta styrjaldarári, sem kalla má, þótt ófriðurinn hafi nú staðið 3 mánuði af síðastl. ári.

Það er skoðun Framsfl., að einmitt meðan menn eru að átta sig á ástandinu, þá sé hættast við árekstrum, en eftir því sem reynslan kennir mönnum meira um ástandið eins og það raunverulega er, þá verði meiri líkur til, að menn geti með frjálsum samningum komizt að niðurstöðu, sem er í samræmi við það ástand, sem kann að skapast.

Ég vil segja það, að þótt Framsfl. hafi fallizt á að fara þessa leið, að framlengja ákvæði gengisl. til 1. janúar 1941, þá er hann mótfallinn þeirri stefnu, að kaupgjald sé sett fast með l., og hann hefði miklu fremur óskað, að samningar hefðu getað komizt á milli verkamanna og atvinnurekenda, sem tækju við af l., enda er það eðlilega áhugamál okkar að koma málinu á þann grundvöll að nýju. Þótt þetta hafi orðið ofan á að þessu sinni, af því að styrjöld hefir brotizt út og enginn veit, hver framtiðin verður, þá riður okkur á því, fremur öllu öðru, að fá ekki neinar verulegar deilur, og þess vegna höfum við fallizt á þetta. Ég ætla að taka það fram og vil að það komi skýrt fram nú þegar, að Framsfl. er þessarar skoðunar. Ég þykist vita, að einhverjir muni það verða, sem væna okkur um að þetta, sem ég nú hefi sagt, hafi ekki verið mælt af fullum heilindum, af því að það ráð var upp tekið að láta þessi ákvæði gilda fyrir allt árið, en þótt við verðum vændir um slíkt, þá getum við ekki annað en lýst vilja okkar um fyrirkomulag þessa máls. Reynslan verður svo að skera úr um það, hvort við höfum ekki sagt þar hug okkar allan.

Þegar átti að meta, hvað sanngjarnt væri að bæta upp kaupgjaldið miðað við dýrtíðina, kom ýmislegt til greina, svo erfitt var að finna það fullkomna réttlæti í þeim efnum. Fljótt á litið mun sumum hverjum finnast sanngjarnt, að dýrtíðin sé undir öllum kringumstæðum bætt upp að fullu, en ég hygg, að við nánari athugun á málinu hljóti menn að sjá, að þetta er mjög einhliða sjónarmið. Ég vænti, að menn skilji, að þótt engum detti í hug, að laun verkamanna séu of há, þá verður það að viðurkennast, að það er lítt hugsanlegt, að hægt sé að tryggja eina ákveðna, allstóra stétt í þjóðfélaginu fyrir því, að hún verði ekki fyrir barðinu á þeim örðugleikum, sem dýrtíðin af völdum stríðsins hlýtur að orsaka. Það er varla hægt að halda því fram, að eðlilegt sé, að á þetta verði fallizt. Ef á þetta væri fallizt, þá væri ekkert tillit tekið til þess, hvað fært er og hvernig þeim mundi þá farnast, sem eiga afkomu sína undir framleiðslunni og sölu afurðanna. Ég vil henda á niðurstöðu þessa máls í síðasta ófriði. Þá kom í ljós, að verðlag á íslenzkum vörum, sem fluttar voru til útlanda, var snöggt um minna en verð á erlendum vörum, sem fluttar voru til landsins. Það er ekki vafi á því, að ef þá hefði t. d. gilt ákvæði um, að allt kaupgjald í landinu skyldi hækka í beinu hlutfalli við framfærslukostnaðinn, þá hefði það orðið óbærilegt fyrir framleiðsluna.

Síðan ófriðurinn brauzt út hefir verðlag á þeim vörum, sem við flytjum til útlanda, hækkað meira en verðlag á þeim vörum, er við flytjum inn til landsins. Framsfl. álítur líka eðlilegt, að í kaupgreiðslu sé tekið tillit til þess, hvernig framleiðslunni vegnar með tilliti til verðlags og greiðsluskuldbindinga. Í því sambandi hefir Framsfl. tjáð fylgi sitt þessum lagabreyt. og bent á, að æskilegt væri að fá fastan mælikvarða í kaupgreiðslumálum í framtíðinni í þetta horf. Í sambandi við samningana um þetta mál var vakið máls á þessu, en þótt þetta væri æskilegt, var samt ekki hægt að taka það til greina nú; þess vegna stendur ekkert um það í till., en nokkrir flokksmenn fluttu till. í Sþ. um að gera vísitöluna að reikningslegum grundvelli kaupgjaldsins og færa kaupgreiðslumálið í það horf. Við í Framsfl. höfum getað gengið inn á að velta dýrtíðinni yfir á kaupgreiðendur með kauphækkun að því tilskildu, að vísitala verðlagsins sýndi, að atvinnuvegirnir gætu þolað það.

Um efni breyt. er þetta að segja í stuttu máli: Gengislækkunin er miðuð við júlí–nóv. Bæta skal upp 80% af hækkuðum framfærslukostnaði, en þó skal heildaruppbótin aldrei nema meiru en 75% af kaupgjaldinu. Helmingsuppbót á kaupgjaldinu er látin standa sem almenn regla. og undir hana má ekki fara. Lögin afnema almennt bann gegn kauphækkun, en í stað þess eru sett ákvæði um, að ekki megi hækka kaupgjald til verkalýðs- og stéttarfélaga umfram það, sem ákveðið er í lögunum. Vegna þessarar breyt. fellur burt 5. gr. gömlu gengislaganna, um verð á ísl. framleiðsluvörum, og kaupgjaldið sett inn í gengislögin til að slá því föstu í sambandi við gengislögin, að eitt verði látið yfir báða ganga, verkamenn og bændur. Það er ástæða til að gera þetta, þar sem búast má við meiri verðbreyt. nú en áður, og í raun og veru eiga ekki að gilda sömu ákvæði um verðbreytingar á kaupgjaldi og framleiðsluvörum. En í tíð gömlu gengislaganná var ekki búizt við stórum sveiflum. En þegar búast má við sveiflum, þá eiga ekki að gilda sömu reglur um kaupgjald og afurðir. Ég efast ekki heldur um, að nefnd sú, sem stofnuð er til að verðleggja afurðirnar, muni reyna fyrir sér um það, hvað hæfilegast verði og bezt henti bæði framleiðendum og neytendum, og taki sjónarmið beggja til greina. —

Ég held, að ég hafi lýst nægilega höfuðatriðum þessara breyt. og fjölyrði ekki frekar um þau.

Framsfl. hefir sem aðili að þessu máll verið ljós sú áhætta, sem framleiðendum og atvinnuvegunum í landinu getur stafað af þessum kaupgjaldsbreytingum. Menn munu varla hafa búizt við, að kauphækkunin yrði svo mikil, sem raun er. á — 80% fyrir alla venjulega vinnu. Framleiðendur eiga hér allt á hættu, og enginn veit fyrirfram, hvort þeir geta risið undir henni. En Framsfl. gengur að þessu í þeirri trú, að ekki sé fært að velta dýrtíðinni allri yfir á bök hinna lægst launuðu. Þess vegna gengur flokkurinn inn á þessar kaupgjaldsbreyt., þrátt fyrir alla þá óvissu, er framtíðin ber í skauti sér. Framsfl. hefir kosið ákveðna tryggingu fyrir því, að kaupuppbótin yrði í hlutfalli við verðlag á ísl. framleiðsluafurðum og að skilyrði væri til, að atvinnuvegirnir myndu bera sig.