03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Þegar í upphafi þingsins var það vitað, að mál þetta myndi verða eitt af vandasömustu málum þingsins. Nú er komið að þinglausnum, og það er fyrst nú, að þingið getur tekið þetta mál fyrir. Ekki svo að skilja, að málið hafi ekki verið hugsað og rætt. Um það hafa verið haldnir fjöldamargir fundir í fjhn. Og að lokum, er málið hafði verið rætt ýtarlega innan flokka þeirra, er standa að ríkisstj., og innan miðstjórna flokkanna, tókst að ná því samkomu- lagi um þetta mál, sem nú birtist hér í brtt. fjhn.

Ég vil taka það fram fyrir hönd Alþfl., og ég þarf varla að segja það, að sama mun gilda um hina flokkana, að ef hver flokkurinn um sig hefði verið einráður um lausn þessa máls, þá hefði hún verið á nokkuð aðra lund en raun ber vitni um í þessum brtt. En ég vil taka það fram um Alþfl., eins og heldur er ekkert undarlegt, að flokkurinn hefir ekki komið fram ýtrustu sjónarmiðum sínum. Ef frv. út af gengislögunum hefði eingöngu verið markað okkar sjónarmiðum, þá hefðu lögin orðið öðruvísi, náð yfir stærra svið og orðið öll á annan veg en í brtt. þeim, sem hér liggja fyrir.

Ég vil leyfa mér að gera hér að umræðuefni 2 eða 3 aðalatriði: 1. Lögbinding kaupgjaldsmálsins, 2. upphæð kaupuppbótarinnar, og 3. sviðið, er bæturnar ná út yfir. Þetta eru þau 3 atriði, er ég tel þýðingarmest í brtt. þeim, er hér liggja fyrir.

Ég vil þá fyrst lýsa því yfir, að það er síður en svo vilji Alþfl., að lögfest verði kaup og kjör í landinu. Það er og hefir verið yfirlýstur vilji Alþfl., að aðilar eigi sjálfir að finna úrlausn á málum sinum og deilum með samningum og samkomulagi sín á milli. Afstaða Alþfl. er óbreytt í þessu máli þrátt fyrir það, að frv. framlengi lögbindingu kaupgjaldsins um 9 mánuði, og ég hefi vitneskju um það, að þótt ráðh. Sjálfstfl. hafi ekki enn lýst afstöðu sinni til þessa máls, þá er þó innan þess flokks ríkjandi sú skoðun, að í framtíðinni eigi sem áður að vera frjálst samkomulag milli verkamanna og atvinnurekenda um kaup og kjör. Það er því gengið út frá því, að sú tilhögun, sem frv. ætlar að koma á, verði ekki til frambúðar. En þá hlýtur sú spurning að vakna hjá mörgum: Hvers vegna er vikið frá þessari reglu nú? Og því er til að svara: Alþfl. og fulltrúar hans líta svo á, að tímarnir, sem vér lifum á, séu óvenjulegir. Ég þarf varla að taka það fram, að í kjölfar hinnar miklu atvinnukreppu, sem geisað hefir, kom stríðið, og það velti úr skorðum þeim aðstæðum, er verið hafa undanfarið. Stríðið skapaði takmarkalausa óvissu um framtíð einstaklinganna og þjóðfélagsins í heild. Við liggjum að vísu langt frá vígvöllum stríðsins, en áhrif þess ganga mjög nærri okkur, og við getum fyrst og fremst ekkert um það sagt, hver muni verða afkoma ísl. þjóðarinnar af völdum stríðsins. Það verkar með sömu óvissu hér á landi sem annarstaðar. Þetta ástand og þessar óvissu horfur hafa gert Alþfl. það kleift að ganga að þessu. Þegar þjóðin lifir í þrotlausri óvissu styrjaldarinnar, verður hún að kosta kapps um að halda uppi friði innan sinna eigin vébanda. Þess vegna hefir Alþfl. heldur viljað þvingun en samkomulag til að ákveða kaup og kjör í landinu á hinu nýja ári. Þess vegna hefir Alþfl. gengið inn á lögbundið kaupgjald. En flokkurinn endurtekur það enn einu sinni, að afstaða hans er óbreytt, að í framtíðinni eigi að verða og verði frjálsir samningar um kaup og kjör, frjáls leikur milli verkamanna og atvinnurekenda.

Þá kem ég í annan stað að sjálfri kaupuppbótinni. Í sambandi við gengisbreytinguna í apríl 1939 voru settar vissar reglur, sem auðvitað gátu ekki orðið til frambúðar. Alþfl. skýrði afstöðu sína til þessa máls þá. En öllum varð ljóst, að verðlags- og gengisbreyt. gerðu það að verkum, að ekki var hægt að viðhafa hin sömu sjónarmið og áður, sérstaklega eftir að styrjöldin hafði skollið á og dýrtíðin vaxið að miklum mun. Því var fyrst hreyft í Alþbl., að ekki dygði að miða uppbótina við síðari helming ársins 1939, heldur yrði að miða hana við þann tíma, er dýrtíðin hafði byrjað á. Ekki varð þó samkomulag um þetta, eins og brtt. bera ljóslega vitni um. Um sjálfa uppbótina óskaði Alþfl. þess, að fullar bætur yrðu greiddar fyrir vissa launaflokka, sérstaklega með tilliti til hinna lægst launuðu. Þetta fékkst þó ekki fram, en hinsvegar varð það að samkomulagi, að kaupuppbótin mætti aldrei nema minna en 75% af dýrtíðarhækkuninni. Þetta atriði er mjög þýðingarmikið fyrir okkur meðan dýrtíðin hefir ekki keyrt úr hófi fram. Þegar við berum okkur saman við samskonar ráðstafanir frændþjóða vorra á Norðurlöndum, þá kemur í ljós, að Danir greiða fulla uppbót fyrir vissa launaflokka, og eftir því eru bæturnar hjá okkur ekki alveg eins miklar. Hjá Svíum og Norðmönnum er kaupgjaldsuppbótin 3/4 af dýrtíðarhækkuninni og getur aldrei farið hærra en 75%. Af þessu er svo að sjá, sem tilhögun okkar fari ekki með öllu eins langt og hjá Dönum, en er áþekk, eða getur orðið litið eitt hærri en hjá Norðmönnum og Svíum. Það getur verið álitamál, hvort leggja hefði átt mikla áherzlu á meiri og fyllri uppbót. Það er líka álitamál, hvort frjálst samkomulag milli verkamanna og atvinnurekenda hefði komið á betri kaup- og kjarabótum en brtt. þessar gera ráð fyrir. Það eru allt saman spádómar, sem litið er leggjandi upp úr. En það er persónuleg skoðun mín, að samkomulagsleiðin hefði ekki fært launþegunum meira í aðra hönd en hér er gert ráð fyrir. Við verðum að minnast þess, að verkalýðsfélögin eru ekki sterkbyggð hjá okkur, og þau myndu því leggja út í töluverða tvísýnu, ef þau færu út í kaupdeilur. En það er annað atriði, sem mjög er mikilsvert í sambandi við þá tilhögun, sem hér liggur fyrir til samþykktar, og það er öryggið um þessa kaup og kjarabót. Og þetta öryggi, þessi vissa er ekki alllítils virði, þegar miðað er við þær vonir um uppbót, sem fengist fyrir frjálst samkomulag verkamanna og atvinnurekenda.

Ef uppbótin er reiknuð út í tölum, þá myndi niðurstaðan verða hér í Reykjavík, að með 12% hækkun á framfærslukostnaði mán. nóv.-des. myndi hækkun kaups verða 13 aurar á klst. Kaup verkakvenna myndi hækka um 8 aura, ef taxti verkakvennafél. „Framsóknar“ er lagður til grundvallar. Þetta er alls ekki svo lítið, og ef borið er saman við Danmörku, þá nam hækkun kaupsins þar hjá almennum verkamönnum ekki eins miklu, en dýrtíðin hefir kannske ekki orðið þar eins mikil og hér á landi. En þetta eru tölur, sem tala. Og það, sem mest er um vert, menn hafa vissu fyrir því að fá þessa kauphækkun jafnskjótt og lögin ganga í gildi. Áþreifanleg vissa og tryggt öryggi verður ekki ofmetið í þessum efnum, og þótt margir hefðu kosið meiri og fyllri uppbót, þá skerðist gildi laganna ekkert við það.

Ég kem þá að lokum að 3. atriðinu, því sviði, er kaupgjaldsbreyt. nær yfir. Samkv. gömlu kaupgjaldslögunum náði uppbótin aðeins til þeirra, sem tóku tímakaup, ófaglærðra verkamanna og sjómanna og til þeirra, sem vinna í fastri vinnu og höfðu 300 kr. og þar fyrir neðan um mánuðinn. Nú er þessum skorðum öllum rutt úr vegi, sem ég fyrir mitt leyti er ánægður yfir. Uppbótin nær nú til allra verkalýðsfélaga, hvort sem um er að ræða útlærða verkamenn innan sérstakra iðngreina eða ófaglærða verkamenn, félög, sem hafa frjálsan félagsskap til að bæta kaup og kjör með samningum, og er því ekki lengur sá greinarmunur, sem áður var í þessum efnum. Ekki er heldur gerður greinarmunur á fjölskyldumönnum og einhleypingum, því að búast mátti við því, þegar til kauphækkunar kæmi, að atvinnurekendur freistuðust til að hafa frekar í þjónustu sinni þá, sem höfðu lægra kaup, þ. e. a. s. einhleypinga, en fjölskyldumenn yrðu útundan. En það er öfugt við það, sem flestir vildu. Og ef þeir hafa lítið upp úr sér, þá kemur það meira og minna niður á heimilum, þar sem þeir dvelja. Ég tel því, að þetta sé til mikilla og verulegra bóta. Að vísu er það svo eins og brtt. greinir, að þar skiptist í flokka með uppbótina. Þeir menn njóta hæstu uppbótar, sem hafa kr. 1,50 á klst. eða minna. En næsthæstu uppbót hafa þeir, sem eru í 2. fl. og hafa kr. 1,51 á klst. og upp í 2,00 kr. Og í þriðja fl. eru þeir, sem hafa 2,01 kr. eða meira á klst.

Ef litið er á 1. fl., sem hefir 1,50 á klst., þá nær það til allra ófaglærðra manna í landinu. Hæsta verkamannakaup til ófaglærðs manns er 1,45 kr. í Reykjavík og Hafnarfirði. En þó að það þekkist hærra annarstaðar á landinu, þá nær það ákvæði jafnt til þess kaups og sérstaks sumarkaups, sem er sumstaðar hærra kaup en aðra tíma ársins, eða kr. 1,50. En um breyt. fastakaups, þegar er að ræða um uppbætur handa mönnum á föstum launum, þá leiðir það af sjálfu sér, að eftir því sem 1. fl. nær lengra upp, þá koma fleiri menn, hvort sem þeir hafa viku-, mánaðar- eða árskaup, undir ákvæði 1. fl. Ég tel, að á þetta megi líta, þegar dæmdar eru þær brtt., sem hér liggja fyrir.

Út af þeirri breyt., að tekið er út úr ákvæðum gengisl. ákvæði um það, að verð á kjöti og mjólk skuli hlíta sömu reglum eins og kaupgjald, þá verð ég að lýsa því yfir fyrir mitt leyti, að ég tel, að það geti ekki komið til nokkurra mála að hækka verð á þessum vörum meira eða jafnmikið og nemur kauphækkuninni yfirleitt. Fyrir því mætti færa frekari rök, sem ég sé ekki ástæðu til að taka fram hér. En í trausti þess, að þær vörur verði ekki hækkaðar eins og kaupgjaldið, þá hefi ég fyrir mitt leyti einnig getað gengið inn á þetta.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta mál eins og það horfir við. Ég hefi gert grein fyrir afstöðu Alþfl. á þeim samkomulagsgrundvelli, sem samþ. var. Það er kannske enginn fullkomlega ánægður með hann. En ég hefi nú gert grein fyrir, hvað unnizt hefir með þessu, og að vissu leyti, hvað þessi löggjöf skapar þó öryggi á þeim tímum, er allt er á hverfanda hveli um afkomu atvinnurekstrarins bæði hér á landi og annarstaðar. Upp úr þessu legg ég talsvert mikið.