03.01.1940
Neðri deild: 99. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 681 í B-deild Alþingistíðinda. (1217)

95. mál, gengisskráning og ráðstafanir í því sambandi

*Ísleifur Högnason:

Gengisl. frá 4. apríl í vor voru keyrð í gegn á einni nóttu. Þannig hefir verið um afgreiðslu mála, að þingfl. hafa keyrt þau í gegn án þess að þm. gæfist tækifæri til þess að athuga þau. Þessi meðferð á málunum er óafsakanleg.

Ég vil nú víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. viðskmrh. sagði um það, að það riði á því öllu öðru fremur að fá ekki neinar deilur landinu. Hæstv. Alþ. ætlar nú að samþ. þessa smávægilegu viðbót á kaupi til handa verkalýðnum, og það má segja, að hún sé alveg í anda vinnulöggjafarinnar.

Verkalýðurinn hefir nú orðið svo fyrir barðinu á þeirri löggjöf, að segja má, að menn hafi svelt heilu hungri.

Hæstv. viðskmrh. sagði, að Framsfl. vildi koma þeirri skipun á þessi mál, að kaupgjald yrði bundið frjálsum samningum; hið sama sögðu einnig hæstv. atvmrh. og hæstv. félmrh. Sem sagt, allir þessir ráðh. mæltu jafnvel gegn l. um það að verkalýðurinn gæti gert sínar ákvarðanir um kaup og kjör. Nú er það vitanlegt, að stríðið er ekki búið að standa lengi, en sú reynsla, sem fengin er, sýnir fyrst og fremst það, að dýrtíðin hefir vaxið geysilega. Í öðru lagi hitt, að einstök fyrirtæki hafa stórauðgazt á stríðinu. Eins og hv. 5. þm. Reykv. sagði, hafa síldarverksm. grætt um ½ millj. kr. á síldarlýsinu einu saman, og það má gera ráð fyrir, að einkafyrirtæki hafi svipaðan gróða. Ennfremur má geta þess, að öll útgerðarfélög, sem hafa skip í siglingum milli landa, hafa grætt mikið fyrir styrjöldina. Að síðustu má geta þess, að togarar, sem hafa veitt ísfisk, hafa grætt stórkostlega. T. d. má geta þess, að í haust munu 3 togarar hafa selt ísfisk, samkvæmt útflutningsleyfi fiskimálan., og munu þeir hafa selt fyrir allt að 770 þús. ísl. kr., gróði á hvern togara var því 250 þús. kr.

Það sér hver maður, hvaða samræmi er í því, að á sama tíma, sem einstök fyrirtæki raka saman of fjár af völdum stríðsins, skuli meiri hl. þjóðarinnar stynja undan dýrtíðinni og ekki geta keypt brýnustu nauðsynjavörur. Ég hefi bent á þetta til þess að sýna fram á, að ef réttlæti væri viðhaft í þessum málum, ætti vitanlega að minnka dýrtíðina með því að lækka tollana á ýmsum vörum, gefa verkalýðnum frjálsar hendur um að hækka kaupið, og að afnema l. um skattfrelsi útgerðarfyrirtækja. En í stað þess að verða við réttlætiskröfu fólksins er Alþ. samþ. enn þyngri byrðar. Það á að halda áfram að hlífa þeim, sem hlaða saman stórgróða af völdum stríðsins, og það er enginn vafi á því, að þjóðin fær að vita um þetta, þrátt fyrir það, þó að gerðar séu ráðstafanir til þess að fólkið fái ekki neitt um þetta að vita, vegna þess að útvarpið er í höndum ríkisstj., sem notar það óspart til áróðurs fyrir sig og sína stefnu. Hæstv. viðskmrh. sagði, að það væri erfitt að finna fullkomið réttlæti í þessum launamálum. Það er áreiðanlega erfitt að finna nokkurt réttlæti í þeim málum eins og högum er nú háttað í þjóðfélaginu. Kaupgjaldið er greitt á hverjum stað á landinu eftir því, hvað sterk verkalýðsfélögin eru. Á Siglufirði og í Reykjavík er kaupið hæst, vegna þess að þar er samtakamáttur verkalýðsins mestur. Aftur á móti í smærri kaupstöðum og kauptúnum er kaupgjaldið ekki nema 90 aur. til 1 kr. á klst. Í sambandi við þetta mál kemur dýrtíðin þyngst niður þar, sem kaupið er lægst. T. d. þar, sem kaupið er 90 aur. eða 1 kr., mundi hækkunin samkv. því, sem þjóðstj. hefir lagt til, verða 9 aur. á kr., eða 9%. Þegar reiknað er út frá verðvísitölu hagstofunnar, er miðað við Reykjavík, en þó ekki við þær nauðsynjavörur, sem eru notaðar meðal hinna lægst launuðu. Þess vegna er ýmislegt, sem veldur því, að verðvísitalan verður hærri en meðaltal um land allt.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. félmrh. sagði í sinni ræðu. Hann sagði í fyrsta lagi, að ef hver flokkur hefði verið einráður um þessi mál, þá hefði afstaðan ef til vill orðið önnur. Þar með vildi hann gefa í skyn, að ef Alþfl. hefði verið einráður, þá hefði hann hagað sér samkv. vilja fólksins. — Það er enginn vafi á því, að hann mundi vilja verða einráður um þessi mál.

Þá er það mjög athugavert, sem kom fram, þar sem hann sagði, að aðrar þjóðir ákveði um kaup og kjör með þvingun. Ég hélt nú satt að segja, að verkalýðurinn í hverju landi væri meiri hl. þjóðarinnar. Það er sami hugsunargangurinn eins og kemur fram hjá ÓTh., Hermanni og öðrum burgeisum. Nei, það eru ekki þjóðirnar, sem leggja þvingun á verkalýðinn, það eru burgeisarnir, sem stjórna. Það er enginn vafi á því, að þm. Alþfl. eru ánægðir með þessa breyt. Þeir munu sjálfir fá hækkun, engu síður en hinir lægst launuðu. En að verkamenn séu eins ánægðir með þessa breytingu, það er ég ekki viss um.

Þá ætla ég að víkja nokkrum orðum að því, sem hæstv. atvmrh. sagði. Hann fór mörgum orðum um sínar fórnir hér á þinginu. T. d. lýsti hann því sem sinni sök, hvað niðurskurður á fjárl. væri mikill.

Ég hefi áður lýst því, hvað mikið tjón útvegsmenn, sérstaklega smáútvegsmenn, myndu bíða við þann niðurskurð, en að togaraeigendur muni bíða eins mikið tjón eins og hæstv. atvmrh. vill vera láta, tel ég alveg fráleitt. Ég efast t. d. um, að það sé svo mikil fórn fyrir hann að skera niður framlag til fiskimálan. og það framlag, sem verja átti til þess að auka mótorbátaflotann. En með aukningu hans fæst meiri fiskur, sem þýðir meiri samkeppni við togaraflotann. Svo vildi ég skjóta því hér inn í, að allar hans fórnir, sem hann talaði mest um, eru í raun og veru engar fórnir fyrir togaraútveginn, það eru beinlínis hagsmunamál hans gegn hagsmunum þjóðarinnar, gegn hagsmunum sjómanna og smáútvegsmanna.

Þá minntist hæstv. ráðh. á ágreining innan Sjálfstfl. um þessar brtt. Því miður hefir manni ekki gefizt kostur á að heyra, í hverju sá ágreiningur væri fólginn. Ég hafði búizt við, þar sem hæstv. fjmrh. var búinn að biðja um orðið, að hann hefði komið í ljós úr því horni, en nú hefir hann fallið frá orðinu. Það er víst af því, að hann hefir ekki fundið þennan ágreining ennþá, sem kann að vera innan Sjálfstfl. Það varð að vísu vart við nokkurn ágreining um það bil að verið var að mynda þjóðstjórnina, en sá ágreiningur hefir ekki komið í ljós síðan. Þegar búið var að koma 2 mönnum úr flokknum í ríkisstj., þá virðist hafa verið fullnægt öllu réttlæti.

Hæstv. atvmrh. var að fjargviðrast út af því að útgerðarmenn hefðu um mörg undanfarin ár háð erfitt strit í baráttu sinni við að halda útveginum gangandi. Ég er nú ekki svo nákunnugur því, í hverju þetta strit hefir verið fólgið, en ég hefi sannfrétt það, að ekki hefir hæstv. atvmrh. lagt á sig mikið strit til þess að borga vexti og afborganir af þeim lánum, sem hvíla á hans fyrirtæki, en það mun vera um 10 millj kr., sem þetta fyrirtæki skuldar. Ég skal ekki draga það í efa, að skuldir hans fari að minnka, ef hann og hans nótar fá að sitja áfram í ríkisstj. Það er ekki vafi á því, að þetta stærsta útgerðarfyrirtæki mokar saman fé síðan stríðið hófst, enda eru allar ráðstafanir, sem þingið gerir, gerðar með það fyrir augum, að þessi mokstur á kostnað almennings fái að halda áfram. Það liggur ef til vill á bak við, að þessar skuldir Kveldúlfs fáist borgaðar að fullu.

Loks kem ég að brtt. á þskj. 684. Ég mælist til þess, að hv. frsm. fjhn. geri nokkra grein fyrir henni, en ég ætla samt, þar sem till. liggur hér fyrir, að fara um hana nokkrum orðum. Brtt. fer í þá átt, að ríkisstj. sé heimilt að ákveða í reglugerð verðlagsuppbót á laun embættismanna og annara starfsmanna ríkisins, svo og ríkisstofnana.

Það væri fróðlegt að heyra, hvers vegna ekki er fylgt sömu reglu við að bæta upp þessi laun og laun verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna. Ég álít, að það sé mjög varhugavert að fela ríkisstj. að ákveða þetta. Ég er ekki í vafa um, að þetta má misnota af vissum flokkum manna við vissar stofnanir, þannig að það getur orðið allt að 100% hækkun á launum sumra, sem kannske sízt þurfa á því að halda. Það er líka hægt að láta menn hafa sama sem enga eða jafnvel enga uppbót, og þannig er hægt fyrir ríkisstj. að hreinsa til hjá ríkisstofnununum með því að bæta ekkert upp laun þeirra, sem henni er illa við. Ég vil mjög eindregið beina því til þingsins, að það íhugi þetta vel, áður en horfið er að því ráði að samþ. þessa heimild handa ríkisstj. til þess að ákveða þetta.

Þá er ennfremur gert ráð fyrir því, að 6. gr. falli niður, en hún er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta: „Útlánsvexti í bönkum og öðrum lánsstofnunum má ekki hækka til 1. jan. 1940.“ –Þessi tími er þegar liðinn, svo ég vildi fá upplýsingar um það, hvort meiningin væri sú, að leyfa bönkunum að hækka útlánsvexti til 1. jan. 1941. Það væri eðlilegt, ef slík hækkun ætti ekki að fara fram, að það kæmi brtt. við þetta á þann veg, að vextir megi ekki hækka til 1. jan. 1941. Ef einhver væri staddur hér úr fjhn., þá væri gaman að fá þetta upplýst.

Um frv. sjálft mun ég ekki fjölyrða að sinni. Ég mun greiða atkv. með þeim brtt., sem þm. Sósíalistafl. hafa borið fram, en ég mun greiða atkv. á móti þeim brtt. fjhn., sem ganga á móti hagsmunum launþeganna.