10.03.1939
Efri deild: 15. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (1251)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Ég vil alls ekki fallast á, að með þessu frv. sé rofinn nokkur samningur við bæjar- og sveitarfélög, því að framlagið til jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga er fullkomlega eins mikið og tekjur þeirra hefðu getað orðið samkv. þessum l. eins og þau voru í fyrstu, og meira til.

Hvað snertir niðurfellingu kola- og salttollsins, sem hv. 1. þm. Reykv. talaði um, þá virðist það vera ákaflega eðlilegt, þar sem milliþn. hefir starfað í sjávarútvegsmálum. (MJ: Hvar eru hennar till?). Þær eru að vísu ekki komnar enn, en að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir, að þær komi og að þær verði til einhverrar frambúðar. En þessu frv. hefir ekki verið ætlað að gilda nema um eitt ár, þó að það kunni að verða framlengt aftur. Það sýnist því miklu eðlilegra, að þær kjarabætur, sem Alþ. sér sér fært að láta sjávarútveginum í té, komi í löggjöf, sem ekki sé hrein og bein bráðabirgðaráðstöfun, eins og þetta frv. í raun og veru er, þó að það hafi verið nokkrum sinnum framlengt. Annars skal ég í þessu sambandi benda á það, úr því að hv. 1. þm. Reykv. virðist tortryggja það, að nokkrar till. komi frá milllþn. í sjávarútvegsmálum, að þetta frv. er ekki komið neitt nálægt því að verða að l. Og ef það sýnir sig, þegar líður á þingið, að engar till. koma frá n., þá er hægt að bæta þessum ákvæðum um kola- og salttollinn, sem verið hafa í frv. undanfarið, inn í frv. En ég tel slíkt ekki tímabært nú, þar sem að sjálfsögðu verður að gera ráð fyrir, að till. komi frá þessari n.