03.01.1940
Neðri deild: 101. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (1292)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Út af ummælum hv. 1. þm. Rang. skal það upplýst, að það er að vísu svo, að bæjarráð hefir sérstaka heimild til að gefa eftir smæstu útsvarsupphæðir, en bæjarstjórn og bæjarráð fjalla um allar hærri eftirgjafir, og það með nafni. Í langflestum tilfellum er farið eftir till. skattstofunnar og niðurjöfnunarnefndar og engin niðurfelling er framkvæmd án þess, að hún sé borin undir skattstofuna og niðurjöfnunarnefnd, enda eru flestar niðurfellingarnar leiðréttingar skattstofunnar sjálfrar, sem hún leggur til, að verði gerðar.

Það vill svo vel til, að hér er einn hv. þm. Alþfl., sem á sæti í bæjarstjórn, hv. þm. Seyðf., og einnig hefir hæstv. félmrh. átt sæti í bæjarstjórn um lengri tíma, og hafa þeir báðir um þessi mál fjallað þar, svo minni hl. bæjarstjórnar á hér nægilega marga fulltrúa, þar sem form. Framsfl. er hér einnig.