09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Ásgeir Ásgeirsson:

Ég er meðflm. hv. 6. þm. Reykv.brtt. á þskj. 363 og ég vil þakka honum vörnina í þessu máli.

Hv. 1. þm. Rang. taldi það óviðfelldið, að flokksmenn stjórnarflokkanna kæmi með brtt. við frv., sem ríkisstj. stæði að. Við því er það að segja, að ríkisstj. flytur margt hér á þinginu. sem allir flokksmenn stjórnarflokkanna eru ekki á einu máli um, og ég fæ ekki séð, að einstakir þm. megi ekki fyrir þá sök láta í ljós persónulegar skoðanir sínar í brtt. formi.

Við, sem stöndum að þessari brtt., litum svo á, að stríðsáhættuþóknunin eigi ekki að vera skattlögð, vegna þess, að hér sé ekki um að ræða laun í venjulegum skilningi. Menn geta því mæta vel stutt þessa brtt. án þess að verða hræddir um, hvar slíkt myndi lenda, ef lagt yrði inn á þessa braut, því að stríðsáhættuþóknunin er greidd mönnum, sem einir íslenzku þjóðarinnar taka beinan þátt í því stríði, sem nú geisar. Þetta eru menn, sem fara um hættusvæði hafanna og stofna lífi sínu í voða til að flytja landinu björg og brauð, svo að það er allra sízt ástæða til að skipa stríðsáhættuþóknuninni á bekk með venjulegum launagreiðslum og skattleggja hana með tilliti til þess. Það er alls ekki verið að slá á tilfinningar manna eingöngu með þessari brtt. Að baki henni liggur bæði vit og tilfinning. Brtt. vill ákveða stríðsáhættuþóknunina með tilliti til þeirrar hættu og þeirra sérstöku skilyrða, er sjómannastétt Íslands verður við að búa á tímum þeim, er nú standa yfir, og við, sem stöndum að till., álítum óréttmætt, að áhættuþóknun sjómannanna verði skoðuð sem venjuleg launahækkun, er hægt sé að reikna til skatts og framtals.