09.12.1939
Neðri deild: 79. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

113. mál, skatt- og útsvarsgreiðsla af stríðsáhættuþóknun

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hefi ekki miklu við að bæta það, sem áður hefir verið sagt.

En ég vil leiða athygli að því að því er snertir laun sjómanna, að í fyrsta lagi er skattaívilnunin, sem farið er fram á í frv., nokkurnveginn óbreytt samkv. þeim óskum, sem ég hefi orðið var við frá þeim sjómönnum, sem ég hefi átt tal við, enda eru laun þeirra almennt ekki hærri en svo, eftir að þetta ákvæði hefir gengið í gildi, að sá skattstigi, sem þeir lenda í, verður mjög lágur. Þar af leiðandi getur ekki orðið um stórar upphæðir að ræða fyrir þá, hvor leiðin sem farin er. En fyrir hina hærra launuðu sjómenn munar þetta mjög miklu. Við höfum í ríkisstj. borið fram þær kröfur, sem gerðar voru á kostnað alls almennings, þar sem við vitum, að þeir, sem þess njóta, eru alls góðs maklegir.

Ég vil spyrja hv. 6. þm. Reykv., hvaða leið hann hefir bent á til hagsbóta fyrir atvinnulausa iðnaðarmenn og hvaða bjargráð hann hefir fyrir hina láglaunuðu stétt í þjónustu ríkisins. Út af niðurlagsorðum í ræðu hans vil ég segja, að ef hann veit margar leiðir til þess að skera niður „humbugið“, sem hann kallar, bið ég hann að benda á þær leiðir eins og hann bendir á leiðir til þess að rýra tekjur ríkisins af því þær eru fremur til vinsældar fyrir hann. En hér er, eins og greinargerðin sýnir, verið að bera fram tillögur, sem eru til ógagns og skerðingar á tekjum ríkissjóðs, en hann hikar ekki við að bera þær fram til þess að afla sér vinsælda. Ég geri ekki ráð fyrir, að það sé á færi þessa þm. að koma með skýrslur um þessi efni, svo það er ekki sanngjarnt af mér að mælast til þess. Ég geri ráð fyrir, að hann láti okkur í té leiðbeiningar sínar, annaðhvort í tillöguformi eða hann komi þeim þannig á framfæri, að við fáum aðstöðu til þess að dæma um, hve auðvelt sé að stefna þeim til hagsbóta fyrir ríkissjóð. Um þetta mál vil ég segja það, að það er ekki aðalatriðið í þessu sambandi, að skattarnir séu hærri hér en annarstaðar, en hitt, að skattþyngslin hvíli jafnt á öllum stéttum þjóðfélagsins. Um leið og kaupgjald þessara manna, sem allir eru sammála um, að séu alls hins bezta maklegir, hækkar, og án þess að það upplýsist, að Íslendingar hafi samskonar aðstöðu til þess að rísa undir þessari kaupgjaldshækkun, hafa Íslendingar einir, að því er ég bezt veit, tekið upp þann kostinn að bæta fríðindum þarna ofan á. að nokkru leyti frá almenningi í landinu. Mér finnst þetta vera hin augljósasta viðurkenning sem alþingismenn geta gefið fyrir því, að þeir telji, að þessir menn séu alls góðs maklegir. Við breytingar á útgjöldunum verður að hafa hliðsjón af því, að alþingismenn leggja inn á þá braut að skera niður framkvæmdir, sem allir þingmenn eru sammála um, að séu nauðsynlegar.

Ég hafði ætlað mér að bera fram frv., og geri það ef til vill síðar á þinginu, um að allar tekjur vitamálasjóðs yrðu lagðar í sjóð, sem einungis færu til vitamála, en eins og menn vita, hefir komið miklu meira í vitamálasjóð heldur en varið er til vita. Í stað þess að leggja þetta frv. fram hefi ég lagt til að felld væru niður þau smávægilegu útgjöld, sem fara áttu til vitabygginga, og að dregið yrði úr landvörnum og strandferðum, að ekki yrðu byggðir nýir bátar og dregið úr öðru til viðreisnar sjávarútveginum. Allt þetta ber vott um, að ég álít, að það þurfi að hafa meiri gætni en áður. Þegar við lítum á þessar myndir, er brugðið upp annari mynd. Hún er sú, að ein stétt á að fá kauphækkun, 100–250%, og að þingið leggur til, að þessi eina stétt njóti alveg óvenjulegra skattaívilnana. Þegar þetta er athugað, held ég, að það sé óþarfi fyrir nokkurn þm. að óttast, að ríkisstj. gangi þess dulin, að þessi stétt er alls góðs makleg. Ætla ég, að með þessu frv. séu borin fram svo mikil fríðindi fyrir sjómannastéttina á kostnað annara. Ég skal vera tilbúinn til að standa frammi fyrir hverjum sem er og sanna, að Alþingi getur ekki gengið lengra; ég skal standa frammi fyrir fulltrúum sjómannanna og sýna þeim og sanna, að þeir fá full laun fyrir störf sín, og einnig, að lengra var ekki hægt að ganga með tilliti til annara stétta í þjóðfélaginu, því nú standa margar stéttir þjóðfélagsins svo höllum fæti, að þingmenn mega hafa af því áhyggjur. Sjómennirnir hafa tekið á sig áhættu, sem aðrir mundu ef til vill ekki þora að taka á sig. Þeir gengu einir stétta út í þetta stríð, og fyrir það njóta þeir trausts og virðingar, og ég skal fullyrða, að sjómennirnir meta það hugarfar, sem kemur fram í garð stéttarinnar, engu síður en þó skattarnir væri lækkaðir lítillega. Ég legg til, að frv. verði samþ. óbreytt, en till. þeirra hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. V.-Ísf. verði felld.