22.04.1939
Neðri deild: 46. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

82. mál, útsvör

*Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Ég vildi mótmæla því, sem hv. þm. kom fram með í síðustu ræðu sinni viðvíkjandi einu atriði, sem kom þar fram.

Það liggja fyrir upplýsingar um þetta frá hv. 1. þm. Reykv. í sambandi við frv., sem nú liggur fyrir Alþ., um vaxtaskatt. Og þetta hefir verið á vitorði manna hér í Reykjavík, að mikið hefir verið dregið undan skatti, og á ég ekki þar við þær stofnanir, sem samkv. l. eiga ekki að greiða skatt. Þær vitanlega svíkja ekki undan skatti. Hér er ekki einungis talað um verðbréf, heldur líka innstæður í sparisjóðum og bönkum. Ég hélt, að þetta væri minna heldur en hv. 1. þm. Reykv. sagði það vera, um 40 milljónir, sem sviknar væru undan skatti. Ég hafði haldið, að það væru milli 20 og 40 milljónir. Nú hefi ég ekki aðeins þessar heimildir frá hv. þm., heldur líka aðrar, sem ég hirði ekki að greina hér, þannig að ég álít óhætt að álíta, að það muni vera milli 30 og 40 millj., sem sviknar eru þannig undan skatti.