09.12.1939
Efri deild: 80. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

27. mál, íþróttalög

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Frv. þetta, sem nú liggur fyrir eins og það var samþ. í hv. Nd., þar sem ekki voru gerðar á því verulegar breytingar, a. m. k. ekki á aðaldráttum þess, er samið af nefnd íþróttafulltrúa hér í Rvík og byggt fyrst og fremst á þeirri meginreglu, að öll íþróttastarfsemi utan skólanna sé frjáls og ekki lagðar á þá frjálsu starfsemi neinar kvaðir. Þetta var sú grundvallarregla, sem ég lagði fyrir nefndina í samtali, þegar hún hóf starf sitt. Þetta leynir sér ekki í frv., sérstaklega í V. kafla þess. Ýmis nýmæli eru sett um íþróttir í skólum, þ. á m. um sundkennsluskyldu, sem er stórt nýmæli, og leiðbeiningarstarf innan skólanna. Jafnframt því á að halda uppi leiðbeiningarstarfi fyrir hinar frjálsu íþróttir, og geta íþróttafélögin notið þess eftir því, sem þau óska. Ýmsar réttarbætur eru í VI. kafla og raunar einnig í II. kafla frv., þó að þar sé ekki að fullu gengið frá atriðum, er snerta fjáröflun til íþróttastarfsemi. Þar er t. d. skylt að leggja til af opinberum eignum ókeypis lóðir og landsvæði til íþróttaiðkana.

Ágreiningur hefir orðið í hv. Nd., sem mér virðist aðallega byggður á þeim misskilningi, að hér sé verið að leggja einhverjar kvaðir eða bönd á þá frjálsu íþróttastarfsemi í landinu. Ég vona, að hv. þdm. sjái við athugun að það er misskilningur. Ég ætla ekki að ræða mjög mikið um þetta á þessu stigi, vegna þess, hvernig ég ætlast til, að frv. verði tekið. Það get ég þó tekið fram, að þetta skipulag, sem hér er reynt að skapa, er ekki uppfundning mín né þeirrar nefndar, sem samdi frv., heldur eru fyrirmyndir að því fengnar úr íþróttalöggjöf allra þeirra nálægra þjóða, sem reynt hafa og tekizt hefir að leiða íþróttastarfsemi sína inn á eðlilegar og hollar brautir, hollari en þar, sem iðkendur íþrótta og kappleika eru einráðir um, í hvaða farveg starfsemin leggst. Ég þarf ekki að skýra það, við, sem stundað höfum íþróttir, vitum það, að þær geta orðið bæði til ills og gagns, eftir því hvernig þær eru stundaðar. Því miður rekur maður sig oft á það, að menn hafa stórspillt heilsu sinni með óskynsamlegri íþróttaaðferð. — Meginatriði í málinu er það, að þeim peningum, sem hið opinbera veitir til starfseminnar, sé varið þannig, að heilsa og þrek sé með því eflt, en aldrei niðurbrotið. Þessi skilningur er nú óðum að vakna hjá íþróttamönnum, þótt hann vantaði stundum, meðan hreyfingin var ung, eða hann væri ekki nógu vakandi. Menn þurftu að reka sig á. Nú er kominn tími til að taka í taumana, bæði í skólum og félagsskap, sem nýtur opinbers styrks. Hver sem vill, getur stundað íþróttir, hvernig sem hann vill. Einungis ef hann á að fá styrk, verður hann að hlíta þeim fyrirmælum þessara laga, sem sett eru til að tryggja hollustuáhrif íþróttanna. Ég býst ekki við, að þessu verði mótmælt. Nefnd þeirri, sem hér mun fá málið til athugunar, mun ég senda lög nágrannalanda um þessi mál og önnur gögn, sem notuð hafa verið við samningu frv.

Ég held það megi segja, að frv. sé heldur vel undirbúið. Það, sem mestum ágreiningi hefir valdið, er það, hvort gefa eigi Í. S. Í. einu rétt til þess að vera það viðurkennda sambandsfélag fyrir íþróttastarfsemi í landinu, eða veita Ungmennasambandi Íslands rétt til að vera sjálfstæður aðili jafnframt. Það kann að vera, að hér séu eitthvað skiptar skoðanir, eins og í hv. Nd. En ég er þeirrar skoðunar, að tæplega sé hægt að ganga lengra með Í. S. Í. en gert er í frv., í 24. gr. t. d., þar sem ákveðið er, að öll opinber íþróttakeppni fari fram eftir reglum. sem Í. S. Í. setur, og að það sé eina sambandið, sem hefir rétt til að koma fram af Íslands hálfu gagnvart öðrum þjóðum. Nefndin, sem samdi frv., varð sammála um það, er hún hafði athugað gögn, sem fyrir lágu, um hina víðtæku íþróttastarfsemi ungmennafélaganna í dreifbýlinu úti um land, að útilokað væri annað en viðurkenna samband þeirra sem sérstakan aðila. Þann rétt hljóta allir að viðurkenna hjá samtökum, sem hafa byggt um 30 sundlaugar og baldið uppi lengi hollri íþróttastarfsemi og kennslu víðsvegar um landið, sent fyrsta Ólympíufarana, sem héðan hafa komið, og starfað yfirleitt af þeim myndarskap, sem kunnugt er um ungmennafélögin. Gögn þau, sem n. hafði um íþróttastarfsemi þeirra, verða afhent n., sem fjalla mun um málið í hv. þd.

Það varð samkomulag milli mín og íþróttafélaganna um að undirbúa þetta mál. En nú hefir orð á því leikið, að meðal íþróttamanna sjálfra sé stundum örðugra að ná samkomulagi en meðal annara manna. Þeim sýnist, kannske frekar en öðrum, sitt hverjum og eru ótrauðir að halda fram sínum skoðunum. Þetta hefir hér rætzt að nokkru. Ég hélt, að þegar nefndin var sett til að semja þetta frv., hefði orðið fullt samkomulag um skipun bennar og grundvallaratriði málsins. Þar áttu hlut í forgöngumenn helztu íþróttafélaga í Reykjavík og umboðsmenn fyrir flestar eða allar íþróttagreinar, sem hægt var að ná til. Einnig var í nefndinni íþróttalæknir sá, sem mesta kynning hefir haft hér af þeirri hlið íþróttanna, sem læknisþekkingar þarf við.

Fyrir hönd skólanna var valinn formaður nefndarinnar, Pálmi Hannesson rektor. Umboðsmaður var þar einnig frá ungmennafélögunum. Undirtektir undir málið voru hvarvetna hinar beztu. Svo var það m. a. í flestum eða öllum blöðunum. En nú koma fram mismunandi sjónarmið hjá mönnum, sem ekki hafa verið við athugun á málinu og e. t. v. ekki lesið það svo niður í kjölinn sem þeir hefðu getað og þau rök, sem að frv. liggja, eins og það er samið. Af þessum ástæðum hefi ég ritað hinni stjórnskipuðu nefnd í íþróttamálum bréf, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta. Afrit af því sendi ég stjórn Í. S. Í. og stjórn U. M. F. Í. Bréfið hljóðar svo:

„Reykjavík, 9. des. 1939.

Hér með sendi ég nefndinni til athugunar frv. til íþróttalaga, eins og það var afgr. af neðri deild Alþingis. Jafnframt vil ég taka fram eftirfarandi :

Ég er sannfærður um það, að ákvæði frv. fela í sér hlunnindi til handa íþrótta- og uppeldismálum þjóðarinnar, sem geta orðið þeim mikill ávinningur, enda þótt ekki hafi enn verið gengið frá því, hversu afla skuli fjár til íþróttasjóðs. Virðist mér þess vera að fullu gætt, sem frá öndverðu var ætlun mín, að leggja hvorki kvaðir né hömlur á hina frjálsu íþróttastarfsemi, heldur veita henni aðstoð og leiðbeiningar að því leyti, sem hún kann sjálf að óska.

Mér kom því mjög á óvart, þegar frv. var andmælt í neðri deild á þeim grundvelli, að ýmsir merkir íþróttamenn, að því er skilja mátti, teldu frv. fela í sér þvingun og ófrelsi fyrir hina frjálsu íþróttastarfsemi, enda þótt ekkert þvílíkt ákvæði verði fundið í frv., því að mér er það ekkert launungarmál, að ég skipaði nefndina einmitt með það fyrir augum að fá þar menn, sem væru reyndir að áhuga og afrekum í sem flestum greinum íþrótta, auk þess sem ég taldi sjálfsagt, að Í. S. Í., ungmennafélög Íslands og skólarnir ættu þar fulltrúa.

Nú má telja víst, að þingfylgi fáist til að koma frv. fram, en áður en á það verður reynt, vil ég biðja nefndina að rannsaka, svo fljótt sem auðið er, hvort það sé rétt, sem áður getur, að íþróttamenn séu mótfallnir frv., hve almenn sú skoðun sé og á hvaða rökum hún sé reist. Jafnframt vil ég biðja nefndina að lýsa skoðun sinni á málinu og gera rökstuddar tillögur um það, og gætu þessi atriði öll komið til álita við afgreiðslu málsins í efri deild. Ef það skyldi reynast nokkuð almennur vilji íþróttamanna, að frv. verði stöðvað, mun ég taka það til yfirvegunar, enda þótt mér dyljist, hver rök geta legið til slíks og hvernig setja megi lög til umbóta í íþróttamálum, sem íþróttamönnum séu að skapi og líklegt er, að koma megi fram á Alþingi, ef ekki þykir hlítandi við þetta frv., eins og það hefir verið undirbúið.

Þess skal að lokum getið, að stjórnum Í. S. Í. og Ungmennafél. Ísl. verða send afrit af bréfi þessu.“

Svör við þessu bréfi geri ég ráð fyrir, að gangi til menntmn., sem ég legg til, að fái frv. til meðferðar að lokinni umr. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið á þessu stigi.