13.12.1939
Efri deild: 83. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1735)

48. mál, dragnótaveiði í landhelgi

*Magnús Gíslason:

Ég er hv. n. þakklátur fyrir það, að hún hefir tekið þetta litla frv., sem ég og hv. 2. þm. S.-M. bárum fram, upp í frv. það, sem borið var fram í Nd. Enda þótt hv. n. hafi gert dálitla breyt. á því, tel ég ekki, að það muni þess vegna síður ná tilgangi þeim, sem tilætlunin var að ná með frv.

Eftir því, sem ég þekki til, og þá aðallega á Austfjörðum, þá er almennur vilji fyrir því að fá hafnarsvæðin friðuð, og tel ég sjálfsagt, að hlutaðeigandi sýslumenn myndu veita slíkar heimildir. Ég vil aðeins geta þess, eins og ég minntist á áður, að þar sem ég þekki bezt til, er það almennur vilji manna að fá sett lög um það, að dragnótaveiðar séu bannaðar inni á höfnum. Þarna er að vísu ekki stór veiði, aðallega smákoli, sem leggst þarna upp og þykir ágæt fæða, enda veiddur um langt skeið í flestum kaupstöðunum. Síðan dragnótaveiðin fór að tíðkast, hafa bátar — oft úr öðrum landsfjórðungum — komið inn á hafnirnar og veitt þar nokkra tíma eða heilan dag, og hefir þá ekki fengizt bein úr sjó í marga daga á eftir. Einnig segja þeir menn, sem stundað hafa síldveiði inni á höfnunum, að dragnótaveiðin hafi orðið til þess að spilla mjög síldveiðinni, einkum þegar hún er lítil og síldin er að ganga; þá hefir það stundum orðið til þess, að hún hefir alveg horfið. Af þessari síldveiði inni á. höfnunum hefir oft verið mikil björg; menn hafa veitt þar í beitu, þegar lítið hefir verið um slíkt, og hefir það oft komið sér mjög vel. Almennt halda sjómenn því fram fyrir austan, að síldin hafi horfið þar af höfnunum eftir að farið var að skafa þær með þessum verkfærum.

Með því að ákveða þessa heimild, tel ég að sýslunefndir á hverjum stað geti ráðið fram úr því, hvort hér sé verið að vinna tjón dragnótaveiðinni við landið, og því get ég samþ. brtt.

Um 1. gr. frv. skal ég taka það fram, að mig brestur kunnugleika til að dæma um, hvort það sé heppilegt eða rétt að banna dragnótaveiðar hér við land, en ég hygg, að það hafi á sínum tíma verið gert eftir till. færustu manna í þeirri grein.

Hvað hina hlið málsins snertir, þá get ég tekið undir með hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. Reykv., að ég tel ekki rétt að setja slíkt ákvæði út frá þeim forsendum, sem nú hafa upplýstst hér.