15.12.1939
Efri deild: 85. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

149. mál, héraðsskólar

*Frsm. (Jónas Jónsson) :

Eins og nál. ber með sér, var menntmn. sammála um aðalefni frv. En 2 af nm. vildu gera við það einhverjar breyt. Og ég mundi við 3. umr. e. t. v. gera einhvern smáviðauka, en sem nokkuð er háður því, hvernig fer um brtt. á þskj. 459.

Það sem við nm. í menntmn. vorum yfirleitt sammála um, var, að það væri ómaksins vert að gera þá aðaltilraun, sem frv. fer fram á um að auka verklega kennslu í héraðsskólunum, sem að vísu mundi ekki koma allt í einu, og ennfremur vorum við sammála um aðrar breyt., eins og það að tryggja betur en nú, að kennarar skólanna yrðu þar heimilisfastir, þannig að skólaheimilin yrðu sterkari heild heldur en með núverandi skipulagi, því að starfslið skólanna þarf að tengjast meira heimilisböndum við skólana.

Þeim nm., sem um þetta hafa talað, finnst sjálfsagt og eðlilegt, að ekki muni vera hægt að koma betur fyrir gistihúsamálum í dreifbýlinu heldur en með því að hlynna að þessum stofnunum á þann hátt, sem hér er talað um, og mun ég víkja að því aftur, þegar hv. flm. brtt. hefir lokið máli sinu. Vænti ég þess, að þá muni ég sannfæra hv. þd. um það, að hans till. sé ekki alls kostar heppileg.

Ég get sagt í viðbót við það, sem útskýrt er í rökstuðningi frv., að menn hafa við reynsluna komizt á þá skoðun, að þegar orðið væri svona mikil skólaganga eins og nú er hér á landi, að 600–700 unglingar fara árlega í heimavistarskóla í sveitum, þá verði fyrir mörgu af þessu fólki þetta aðalmenntunin, sem það fær. Og eins og lífsbaráttan í landinu er, þá sýnist ekki vera hægt að búast við því, að svo mikill fjöldi sé aðallega upptekinn af andlegum fræðum ásamt íþróttum. Menn hafa séð, að af þessum tiltölulega stóra hóp hafa verið margir, sem í raun og veru vildu öllu fremur og hefðu gagn af því að njóta a. n. l. verklegrar kennslu, og að þeir væru ekki alveg móttækilegir fyrir það, jafnvel þó þeir vildu, að fá eingöngu bóklega fræðslu ofan á barnafræðsluna. Ennfremur er það þannig, að nauðsynin krefur ýmiskonar verklegrar kennslu. Og frv. gerir ráð fyrir tvennskonar vinnukennslu, í fyrsta lagi fyrir pilta, og fyrir stúlkur annarsvegar, og yrði það eftir till. frv. 12 klst. á viku, sem yrði ekki nákvæmlega 2 tímar á dag, heldur stundum meira og stundum minna.

Það, sem á að nást með þessu, er í raun og veru ekki neinn faglærdómur, heldur að þeir, sem eru nokkuð verklagnir, geti komizt betur áfram, svo að þetta fólk verði betur fært um það að vinna að sínum heimilum og bjarga sér heldur en annars. Náttúrlega er ekki hægt að búast við, að menn komist mjög langt á ekki lengri tíma.

Ég get sagt það um Laugaskóla — ég tek hann sem dæmi, af því að ég þekki þar bezt til —, þar er Þórhallur Björnsson kennari, sem er hvorttveggja í einu, listamaður og smiður. Honum hefir tekizt að láta nemendur sína í kennslutímum t. d. smíða óaðfinnanleg skrifborð, ennfremur borð og stóla og ýmiskonar áhöld, þannig að í Þingeyjarsýslu sér maður mjög víða á bæjum húsgögn, sem eru frá Laugum eftir skólapilta. Þau eru náttúrlega ekki alveg sambærileg við dýr húsgögn héðan úr Reykjavík t. d. En að þau eru tiltölulega góð, er af því, að kennarinn er óvenju góður maður á sínu sviði. Og það, sem má gera á einum stað í þessu efni, má gera víðar. Ég held, að þar sem aðstaðan er sú, að vinna á húsgögnum er í langflestu tilfellum mjög dýr, þá sé afleiðingin sú, að menn kaupi svo sem engin húsgögn, og ef menn kaupa þau, þá helzt útlenda stóla, sem eru bæði veikir og ósmekklegir. Og mér kemur það svo fyrir sjónir, að sem stendur sé það hér um bil útilokað, að meginþorri manna í sveitum kaupi húsgögn frá iðnaðarmönnum, sem vinna í bæjunum, þó með einstaka undantekningum. Niðurstaðan í heild er því sú, að mér virðist, að ákaflega lítið er um ný húsgögn í nýjum sveitabæjum. Þá má segja, að heimilin séu í tvennu lagi, annarsvegar stór vönduð hús, sem byggð eru þá oft á kostnað ríkissjóðs, en svo eru húsgögnin þar inni úr gömlu bæjunum, sem þá eiga miður vel við. Og svo koma þá næst ódýrustu útlendu húsgögnin. Úr þessu er ekki hægt að bæta nema að tiltölulega litlu leyti með því, sem stefnt er að í þessu frv., en þó í áttina.

Eins og frv. ber með sér, er þar gert ráð fyrir, að það geti verið lengri námskeið fyrir pilta sérstaklega, hálfur vetur, heill vetur eða jafnvel tveir vetur.

Ég get bezt gefið hv. þdm. hugmynd um þetta með því að segja þeim frá því, hvernig þetta hefir verið í Reykholtsskóla, þar sem það er lengst komið. Þar var fyrst ekkert sérstakt verkstæði. En ráðamenn þar keyptu hlöðu úr bárujárni og timbri og færðu heim að skólanum. Síðan komu þeir fyrir upphitun í þessu húsi. Kjallara hafa þeir gert þar undir úr steinsteypu, sem þeir nota fyrir trésmíða- og járnsmíðaverkstæði. Svo er loft þarna, og þar á að vera verkstæði.

Þá hafa og bændur í Reykholtsdal gert samning um, að þeir gætu gert innkaup fyrir unga menn í dalnum, sem gætu lært þarna svo mikið, að þeir gætu síðan byggt hjá sér sjálfir. Einn af samnm. mínum var e. t. v. ekki viss um, að þetta væri heppilegt fyrirkomulag. En ég get sagt það, að einn af nefndarmönnunum í stjórn Reykholtsskóla, Jón í Deildartungu, vildi alls ekki halda fram, að þetta væri að reka samkeppni við iðnað bæjanna. Þeir yrðu aldrei þess megnugir með þessu móti, en hinsvegar, að þetta yrði einskonar samhjálp fyrir sveitirnar.

Ég býst við, eins og ég tók fram áðan, að þegar flm. brtt. hefir skýrt frá sinni afstöðu til málsins, muni ég tala nokkur orð um það, að hverju leyti ég álit, að hans brtt. setji tilgang frv. í hættu.